Hvaða rétt hafa almennir borgarar, framtíðarkynslóðir og önnur ríki gagnvart ríkjum sem láta hjá líða að bregðast við loftslagsbreytingum með fullnægandi hætti? Fyrir liggur að loftslagsbreytingar munu hafa, og hafa haft nú þegar, veruleg áhrif á hagi og heilsu fólks. Fyrir liggur einnig að vitneskjan—studd vísindalegum gögnum—um skaðsemi loftslagsbreytinga, og orsakir þeirra, hefur lengi verið öllum aðgengileg. Því er eðlilegt að spurningin vakni: Ber ekki ríkjum um allan heim lagaleg skylda til að bregðast við þessari vá?
Fyrr á árinu tók Alþjóðadómstóllinn í Haag afstöðu til þessarar spurningar. Í tímamóta ráðgefandi áliti komst dómsstóllinn að þeirri niðurstöðu að stjórnvöldum bæri rík lagaleg skylda til að bregðast við loftslagsbreytingum og að ófullnægjandi aðgerðir hefðu lagalegar afleiðingar í för með sér.
Margir hafa í kjölfarið velt fyrir sér hvaða þýðingu álitið hefur. Alþjóðadómstóllinn er ekki yfirþjóðlegt vald og stjórnvöldum ríkja ber ekki bein, lagaleg skylda til þess að lúta ráðgefandi álitum hans, líkt og aðilum máls er skylt að lúta dómum hans. Ráðgefandi álit dómstólsins hafa hins vegar mikil áhrif þar sem þeim er ætlað að vera rétt lýsing á réttarstöðu tiltekins málefnis. Vegna stöðu dómstólsins sem eina alþjóða dómstólsins með lögsögu yfir öllum málaflokkum, án takmarkana við tiltekin landsvæði eða heimsálfur, og sögu hans hefur hann mikið leiðbeinandi vald. Gera má ráð fyrir að álitið muni móta lagasetningu ríkja á komandi árum, dóma staðbundinna dómstóla, ákvarðanir stjórnvalda sem og alþjóðalög á komandi árum og áratugum.
Forsagan er þessi: Þann 29.mars árið 2023 samþykkti Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samhljóða að óska eftir áliti Alþjóðadómstólsins varðandi skyldur ríkja gagnvart loftslagsbreytingum. Álitamálið var þetta: Ber ríkjum sérstök skylda til þess, á grundvelli alþjóðalaga, að koma í veg fyrir og sporna gegn áhrifum loftslagsbreytinga, með það að markmiði að vernda loftslagið og núverandi og komandi kynslóðir? Stjórnvöld í eyríkinu Vanuatu á Kyrrahafi fluttu tillöguna á Allsherjarþinginu, að beiðni stúdentahreyfingar á Kyrrahafseyjum, sem berst fyrir loftslagsaðgerðum.
Svar dómstólsins var í stuttu máli já.
Ein og hálf gráða skal það vera
Dómsmál vegna loftslagsbreytinga verða sífellt algengari. Fólk og félagasamtök leitar réttar síns vegna alls kyns álitamála, eins og varðandi starfshætti fyrirtækja sem hafa skaðleg áhrif á loftslag og lífríki, og vegna útgáfu nýrra leyfa til þess að bora eftir olíu, og þar fram eftir götunum. Eins getur ágreiningur risið, vegna loftslagsmála, á milli ríkja sem skera þarf úr um.
Lögfræðingarnir Joe Udell og Floris Tan, sem starfa fyrir samtökin Climate Litigation Network, ræða álit dómstólsins í nýlegri grein á síðu lagadeildar Columbia háskóla. Þar benda þeir á að áhrifa álitsins muni ekki síst gæta í dómsmálum, þar sem stjórnvöldum er stefnt vegna aðgerðarleysis í loftslagsmálum. Þetta aðgerðarleysi getur komið fram í ófullnægjandi áætlunum um að draga úr losun eða í skorti á raunverulegum aðgerðum til þess að ná settu markmiði um samdrátt í útblæstri. Áætlanir eru þannig orðin tóm.
Hið mikilvæga í þessu er það, að þessi markmið eru yfirleitt sett fram af ríkjum sem landsframlög, eða NDC, á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Álitið opnar þannig fyrir það að látið verði á þessi landsframlög reyna, í auknum mæli, fyrir dómstólum. Eru þau nógu metnaðarfull? Fylgja þeim áætlanir um aðgerðir?
Víða um heim hafa dómstólar dæmt í svona málum, þar sem stjórnvöldum — eins og t.d. í Hollandi, Þýskalandi, Belgíu og Suður Kóreu — hefur verið stefnt vegna aðgerðarleysis. Dómstólar hafa víða komist að þeirri niðurstöðu að aðgerðarleysi brjóti í bága við skyldur stjórnvalda. Udell og Tan benda á, að álit Alþjóðadómstólsins styrki þessa dóma í sessi og skýri jafnframt á hvaða grundvelli eigi að dæma í svona málum í framtíðinni. Hvað nákvæmlega skilgreinir brot stjórnvalda?
Hér verða málin einkar áhugaverð. Það segir skýrt í álitinu að allar aðgerðir og áætlanir stjórnvalda skuli miðast við það markmið Parísarsamkomulagsins að halda hlýnun jarðar innan við eins og hálfs gráðu markið. Dómstóllinn bendir á að þetta markmið sé stutt yfirgripsmiklum vísindalegum vitnisburði og að um þetta markmið hafi þjóðir heims náð samkomulagi.
Margir hafa í gegnum tíðina talið að markmið Parísarasamkomulagsins séu óljósari, og að í raun sé stefnan að halda hlýnunni helst undir einni og hálfri gráðu, en alla vega undir tveimur gráðum. Því væri ríkjum óhætt að miða aðgerðir við það markmið að halda hlýnuninni einhvers staðar á milli einnar og hálfrar gráðu og tveggja gráða. Álitið sker úr um þetta.
Ekki nóg að gera bara eitthvað
Olíuframleiðsluríki og þau ríki sem hafa ekki tekið loftslagsbreytingar alvarlega, og ekki lagt fram fullnægandi áætlanir um samdrátt í útblæstri, hafa löngum haldið því fram að Parísarsamkomulagið sé ekki bindandi, og markmið þess þar af leiðandi ekki heldur. Ríkjum sé í raun frjálst að leggja fram þau landsframlög sem þeim sýnist, og af þeim metnaði sem þeim sýnist. Alþjóðdómstóllinn hafnar þessu.
Dómurinn segir, að ríki — miðað við tiltekin ákvæði Loftslagssáttmála Sameinuðu þjóðanna — geti ekki mætt ákvæðum Parísarsamningsins með því að gera bara eitthvað, og segja bara eitthvað. Með öðrum orðum, innihaldið skiptir höfuðmáli. Ekki er nóg að setja einungis fram eitthvað landsframlag, formsins vegna, heldur skiptir lykilmáli hvað landsframlagið felur í sér efnislega. Ef landsframlagið er ófullnægjandi, felur slíkt í sér brot ríkis.
Dómurinn tiltekur hvaða skilyrðum landsframlög þurfa að mæta til þess að teljast fullnægjandi. Fyrir það fyrsta verða þau að fela í sér framfarir miðað við fyrir áætlanir. Í öðru lagi þurfa þau að endurspegla ýtrasta metnað stjórnvalda í loftslagsmálum. Í þriðja lagi þurfa þau að taka mið að stöðutöku Sameinuðu þjóðanna um árangur í loftslagsmálum, og í fjórða lagi verða þau að vera skiljanleg og gagnsæ. Síðast en ekki síst verða svo landsframlögin að vera þannig úr garði gerð að þau skipti máli, og leggi sitt af mörkum, í því að halda hlýnun innan settra marka.
Þetta þýðir að ríki þurfa nú að rökstyðja landsframlög sín út frá þessum skilyrðum. Þau þurfa að sýna fram að þau skipta máli fyrir heildarmarkmiðið, og útskýra hvernig þau spila saman við landsframlög annarra ríkja. Þau þurfa að endurspegla ábyrgð og skilning á vandanum. Í þessu felst mikil breyting. Hingað til, eins og lögfræðingarnir Udell og Tan benda á, hafa ríki heims sett sér markmið án þess að taka endilega beint tillit til heildarmarkmiðsins um að halda hlýnun innan einnar og hálfrar gráðu. Nú gengur það ekki lengur. Jafnframt tekur álitið fyrir það, að smærri ríki heims geti skýlt sér á bak við smæð sína. Þetta viðhorf hefur stundum verið kallað “dropi í hafið rökin”, þar sem ríki hafa haldið því fram að útblástur þeirra sé svo lítill að hann skipti ekki máli. Því skipti landsframlögin ekki máli. Þessu hafnar álitið. Allir verði að leggja sitt af mörkum, þótt vissulega sé mikilvægt að þau ríki sem menga mest skorist ekki undan.
Mannréttindi fest í sessi
Álitið er m.a. byggt á grundvallar mannréttindinum. Eins og Udell og Tan benda á, þá er rétturinn til heilsusamlegs umhverfis ein grundvallarstoð mannréttinda. Álit Alþjóðadómstólsins tekur þann rétt ekki bara alvarlega, heldur segir dómsstólinn beinlínis að þessi réttur sé grunnforsenda annarra mannréttinda.
Þess vegna skiptir það höfuðmáli, að áliti Alþjóðadómstólsins, að ríki heims geri sitt ýtrasta til þess að tryggja heilsusamlegt umhverfi, og þá ekki bara þeirra sem nú lifa, heldur einnig komandi kynslóða.