HUGTÖK OG SKILGREININGAR

Upplýsingar og útskýringar á algengum hugtökum í tengslum við umræðu um loftslagsmál.

CO2 ígildi

CO2-ígildi, eða koldíoxíðígildi, er sú mælieining sem er notuð til að halda utan um losunartölur fyrir gróðurhúsalofttegundir. Þannig samsvarar eitt tonn af CO2-ígildi einu tonni af koldíoxíði eða því magni annarra gróðurhúsalofttegunda (t.d. metans, glaðlofts eða F-gasa) sem hefur sambærilegan hnatthlýnunarmátt (e. global warming potential).

Talað er um hlýnunarmátt mismunandi gróðurhúsalofttegunda. Vegna þess hvað losun koldíoxíðs er margfalt meiri en losun annarra gróðurhúsalofttegunda er það mikilvægasta gróðurhúsalofttegundin. Engu að síður er mikilvægt að taka tillit til ólíkra áhrifa mismunandi lofttegunda þegar meta á heildarlosun gróðurhúsalofttegunda. Í þessu skyni er hverri lofttegund því gefinn tiltekinn stuðull sem miðast við þessi ólíku hlýnunaráhrif og öll losun er síðan umreiknuð yfir í CO2-ígildi.

ESR

ESR er skammstöfun á Effort Sharing Regulation. Um er að ræða evrópska reglugerð um sameiginlegar efndir ríkja innan Evrópu (ESB og EES löndin) um að draga úr gróðurhúsalofttegunum. Markmið fyrir beina ábyrgð ríkja (ESR) er reiknað út frá samræmdum forsendum þar sem meðal annars er litið til landsframleiðslu á mann og möguleika ríkja til að draga úr losun. Ríkin skulu sameiginlega ná 30% samdrætti í þeirri losun sem fellur undir beinar skuldbindingar ríkja árið 2030 miðað við árið 2005. Hér undir fellur til dæmis losun frá vegasamgöngum, skipum sem sigla á milli íslenskra hafna, orkuframleiðslu og smærri iðnaði, F-gösum, landbúnaði og úrgangi.

Hvert aðildarríki hefur fengið skilgreint markmið um þann lágmarkssamdrátt sem það þarf að ná. Lágmarksframlag Íslands er 29% en stjórnvöld hafa sett sér markmið um meiri samdrátt til ársins 2030 eins og lesa má um í aðgerðaáætlun í loftslagsmálum.

ETS viðskiptakerfi Evrópusambandsins

ETS (e. Emission Trading System) er viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir. Ísland tekur þátt í þessu viðskiptakerfi samkvæmt ákvæðum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES).

Kerfið virkar með þeim hætti að fyrirtæki í ákveðnum greinum, sérstaklega stóriðju og flugrekstri innanlands, fá úthlutað heimildum sem eiga að duga fyrir ákveðnum hluta af losun þeirra. Fyrirtækjunum er síðan ætlað að draga úr þeirri losun sem upp á vantar, en ef það tekst ekki þurfa þau að kaupa sér viðbótarheimildir á markaði. Á sama hátt geta þau fyrirtæki sem tekst að draga meira úr sinni losun en þeirra heimild kveður á um, selt umframheimildir. Með þessu móti er reynt að tryggja að samdráttur verði með sem hagkvæmustum hætti.

Gróðurhúsalofttegundir

Gróðurhúsalofttegund er lofttegund sem veldur gróðurhúsaáhrifum, þ.e.a.s. gleypir í sig hita sem endurkastast frá yfirborði jarðar. Koldíoxíð (CO2), metan (CH4), glaðloft (N2O) og F-gös eru allt dæmi um gróðurhúsalofttegundir.

Gróðurhúsalofttegundir eru einungis lítið brot af andrúmsloftinu (innan við 1%) en gegna engu að síður mikilvægu hlutverki. Án þeirra væri jörðin svo köld að hún væri varla byggileg. En ef styrkur gróðurhúsalofttegunda eykst mikið skapar það þó vanda. Aukinn styrkur leiðir til þess að gróðurhúsaáhrifin verða meiri, þ.e.a.s. meðalhitastig á jörðinni hækkar. Hlýnunin veldur loftslagsbreytingum sem geta haft margvísleg áhrif á náttúru og samfélag manna.

Athafnir mannsins hafa leitt til þess að styrkur gróðurhúsalofttegunda fer hækkandi. Hér munar mestu um stóraukna losun á koldíoxíði (CO2) vegna bruna á jarðefnaeldsneyti. Breytt landnotkun og eyðing skóga hefur líka áhrif á kolefnishringrás jarðar og leiðir til þess að magn koldíoxíðs í andrúmslofti eykst. Önnur mikilvæg gróðurhúsalofttegund, sem athafnir mannsins hafa áhrif á, er metan (CH4). Það myndast t.d. í maga húsdýra (sérstaklega jórturdýra), við notkun húsdýraáburðar, við hrísgrjónarækt, frá sorphaugum og frá votlendi. Glaðloft (N2O) er þriðja mikilvægasta gróðurhúsalofttegundin en  losun þess verður til m.a. við áburðarnotkun í landbúnaði, við notkun húsdýraáburðar og við bruna jarðefnaeldsneytis. Auk þessara þriggja lofttegunda, sem geta verið í andrúmslofti bæði vegna náttúrulegra ferla og vegna umsvifa mannsins, eru einnig til F-gös, sem eru lofttegundir sem eru eingöngu manngerðar. Þetta eru t.d. vetnisflúorkolefni (HFC), peraflúorkolefni (PFC) og brennisteinshexaflúoríð (SF6). Þessar lofttegundir eru notaðar í margvíslegum iðnaði og eru jafnframt mjög öflugar gróðurhúsalofttegundir.

IPCC

IPCC stendur fyrir Intergovernmental Panel on Climate Change sem á íslensku kallast Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar. Nefndin var sett á laggirnar árið 1988 og hefur það hlutverk að taka saman vísindalegar, tæknilegar, félags- og efnahagslegar upplýsingar um grundvöll þekkingar á loftslagsbreytingum af mannavöldum. Úttektirnar fjalla um vísindalega þekkingu á loftslagsbreytingum af mannavöldum, um afleiðingar þessara breytinga og um aðlögun og viðbrögð til að sporna við þessum breytingum. Tilgangurinn er að upplýsa þá sem eru við stjórnvölinn hverju sinni með greinagóðum skýrslum sem taka saman þá þekkingu sem til er á hverjum tíma um eðli loftslagsbreytinga, orsakir og afleiðingar. Jafnframt metur nefndin framtíðaráhættu miðað við mismunandi sviðsmyndir og setur fram hugmyndir um mótvægisaðgerðir og aðlögun. Sjá nánar um hlutverk IPCC á vef Veðurstofunnar sem fer með aðild Íslands að IPCC. Hér má lesa um skýrslu vinnuhóps 1 sem kom út í ágúst 2021.

Kolefniseining

Ein kolefniseining (eða eitt kolefnisjöfnunarvottorð) er fjárhagsleg eining sem felur í sér sönnun þess að losun á einu tonni koldíoxíðsígilda út í andrúmsloftið hafi sparast miðað við óbreytt ástand. Kaupandi slíkrar einingar (vottorðs) getur notað hana til að sýna fram á að hann hafi kolefnisjafnað eitt tonn af eigin losun gróðurhúsalofttegunda, t.d. vegna raforkunotkunar, flugferða, bílferða o.s.frv.

Viðskipti með kolefniseiningar fara að miklu leyti fram á svokölluðum valkvæðum kolefnismörkuðum (e. voluntary carbon markets). Seljendur á slíkum mörkuðum geta verið t.d. fyrirtæki, sjóðir og stofnanir sem hafa milligöngu um að veita fé í verkefni á sviði kolefnisjöfnunar. Einnig tíðkast að kolefniseiningar séu keyptar beint af framkvæmdaraðilum verkefna. Kaupendur kolefniseininga geta verið hvaða aðilar sem vera skal, s.s. einstaklingar, fyrirtæki, stofnanir, opinberir aðilar og þjóðríki.

Sjá nánar í greinargerð Loftslagsráðs um Innviði kolefnisjöfnunar á Íslandi.

Kolefnishlutleysi

Þegar losun og binding koldíoxíðs (CO2) jafnast út verður nettólosunin núll og þá er talað um kolefnishlutleysi (e. carbon neutrality).

Kolefnishlutleysi sem hugtak er flestum framandi enda hefur það fram til þessa einkum verið notað í samskiptum innan vísindasamfélagsins. Notkun þess í pólitískri og samfélagslegri umræðu hófst fyrir alvöru í aðdraganda Parísarsamningsins og varð síðan hluti af þeim samningi í árslok 2015.

Kolefnishlutleysi lýsir ástandi þar sem jafnvægi hefur náðst milli hraða losunar og bindingar af mannavöldum og nettólosun er því núll.  Kolefnishlutleysi lýsir lokamarkmiði, ekki leiðinni að því marki. Kolefnisjafnvægi er samheiti og á ensku eru hugtökin carbon neutrality, climate neutrality og net-zero emissions mest notuð, eða CO2 neutral. Við það ójafnvægi sem nú ríkir á heimsvísu er losun mun meiri en binding. Hraði uppsöfnunar kolefnis í andrúmsloftinu ræðst af nettóniðurstöðunni þegar binding er dregin frá losun.

Spurningin sem stjórnvöld og samfélagið allt stendur frammi fyrir er ekki hvort kolefnishlutlaust Ísland sé möguleiki, heldur hvers konar kolefnishlutlaust Ísland fellur best að framtíðarsýn þjóðarinnar. Margar leiðir eru færar að þessu marki. Leiðin sem farin verður mun ráða úrslitum um lífsgæði og hagsæld þeirra sem landið munu byggja.

Hemja þarf heimslosunina þ.a. hún nái hámarki án frekari tafar. Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) hefur að beiðni aðildarríkjanna metið hver þróunin þurfi að verða svo að ná megi markmiði Parísarsamningsins. Meginskilaboðin eru þau að helminga þarf heimslosunina 2030 og síðan aftur á hverjum áratug til 2050.

Stjórnvöld á Íslandi hafa sett sér markmið um kolefnishlutleysi Íslands árið 2040 (og fest í lög) sem framlag Íslands til að ná markmiðum Parísarsamningsins. Aðgerðaáætlun stjórnvalda í Loftslagsmálum, lýsir aðgerðum sem miða að því að ná markmiði um að minnka losun um ríflega milljón tonn af CO2-ígildum árið 2030, miðað við losun ársins 2005.

Lesa má nánar um kolefnishlutleysi í greinargerð Loftslagsráðs.

Kolefnisjöfnun

Kolefnisjöfnun er skilgreind í íslenskum lögum. Orðið kolefnisjöfnun vísar alla jafna til þess þegar bætt er fyrir losun gróðurhúsalofttegunda án lagaskyldu, þ.e. í öðrum tilgangi en að uppfylla lagalegar kröfur um skil á losunarheimildum. Slíka kolefnisjöfnun má kalla valkvæða kolefnisjöfnun. Hafa þarf í huga að ekki eru alltaf skýr skil milli valkvæðrar kolefnisjöfnunar annars vegar og kaupa á losunarheimildum til að uppfylla lagalegar skyldur hins vegar. Bæði ríki og fyrirtæki geta heyrt undir kerfi sem gera þeim lagalega skylt að standa skil á losunarheimildum vegna losunar gróðurhúsalofttegunda.

Í lögunum segir að kolefnisjöfnun sé þegar aðili hlutast til um aðgerðir annars aðila til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og/eða binda kolefni úr andrúmslofti og notar staðfestingu á slíkum samdrætti eða bindingu til að jafna út sína eigin losun (að hluta eða öllu leyti). Þetta er oftast gert með því að fjármagna verkefni sem a) koma í veg fyrir losun á samsvarandi magni gróðurhúsalofttegunda annars vegar, eða b) fjarlægja samsvarandi magn gróðurhúsalofttegunda úr andrúmsloftinu.

Kolefnisjöfnun, hvort sem hún er með bindingu eða fjármögnun á samdrætti annars staðar, þarf að vera ábyrg, vísindalega staðfest og vottuð. Innviðir fyrir kolefnisjöfnun innanlands eða í samstarfi við aðrar þjóðir eru of veikir eins og stendur. Loftslagsráð hefur farið yfir stöðuna og mun leiða saman helstu gerendur á þessu sviði til að stuðla að umbótum. Huga þarf að aðferðafræði við mat á losun og bindingu, tilurð og viðskiptum með kolefniseiningar og þörfinni fyrir miðlæga skráningu á slíkum einingum. Einnig þarf að koma á vottun á þessum þáttum.

Lesa má um innviði kolefnisjöfnunar í greinargerð Loftslagsráð, um kolefnisjöfnun  í tengslum við umfjöllun um kolefnishlutleysi í samantekt  Loftslagsráð og skilgreiningu á kolefnisjöfnun á vef Umhverfisstofnunar.

Kolefnispor

Kolefnisspor eða kolefnisfótspor er sú heildarlosun gróðurhúsalofttegunda sem einstaklingur, viðburður (t.d. tónlistarhátíð), fyrirtæki (t.d. álfyrirtæki) eða framleiðsla tiltekinnar vöru (t.d. lambakjöt) veldur á einu ári. Sporið er myndlíking fyrir áhrifin sem einstaklingurinn, viðburðurinn, fyrirtækið eða varan hefur á loftslagið, svipað og þegar við skiljum eftir fótspor í rökum sandi eða snjó. Stærð og dýpt fótsporsins, sem við skiljum eftir í sandi eða snjó, fer eftir því hversu stór og þung við erum. Sama gildir um kolefnisfótspor. Því stærra sem kolefnisfótspor tiltekinnar vöru er því meiri áhrif hefur framleiðsla og neysla vörunnar á loftslagið.

Á vefslóðinni kolefnissreiknir.is geta einstaklingar reiknað út kolefnisspor sitt og fjölskyldu sinnar með því að slá inn ýmsar forsendur sem tengjast neyslu, búsetu og ferðavenjum.

Landsframlag (NDS)

Eitt af því sem gerir Parísarsamninginn sérstakan er að leiðin að markmiðinu byggir á miklu trausti og samvinnu milli ríkja, atvinnulífs og annarra geranda í alþjóðastarfi. Í stað þess að samningurinn kveði á um hvernig hvert og eitt ríki eigi að að draga tiltekið mikið úr losun, leggur hvert ríki sem er aðili að samninginum fram einskonar loforðalista eða það sem á ensku er kallað „Nationally Determined Contribution (NDC)“. Landsframlagið felur í sér hvert framlag viðkomandi ríkis verði til heildarmarkmiða samningsins. Aðildarríki skuldbinda sig til að skrásetja allt sem snýr að framkvæmd og árangri á gagnsæjan hátt og að endurskoða sitt framlag á fimm ára fresti, árið 2020 og svo næst árið 2025.

Loftslagsvá

Loftslagsvá er almennt skilgreind sem sú hætta sem stafar af loftslagsbreytingum og er nú ein af stærstu áskorunum samtímans.  Hugtakið loftslagsvá er oft notað samhliða orðinu loftslagsbreytingar og áður var orðið loftslagshamfarir líka notað. Loftslagsváin lýsir sér í atburðum sem valda tjóni með ýmsum hætti, allt frá loftslagstengdum náttúruhamförum sem skapa neyðarástand til stöðugra hægfara breytinga sem valda minna tjóni en tíðar.

Afleiðingar loftslagsbreytinga hafa áhrif á allt lífríkið en eiga það sameiginlegt að skaða sérstaklega hópa sem eru félagslega varnarlausir fyrir, hvort sem er í samfélagi þjóðanna eða innan þjóðríkja. Sumar breytingarnar kunna að vera jákvæðar en langtum fleiri eru neikvæðar. Öll samfélög þurfa því að leggja kapp á að draga úr loftslagsbreytingum með mótvægisaðgerðum samhliða því að skipuleggja og hefja aðlögun sem dregur úr óumflýjanlegum afleiðingum hlýnunar.

Í skýrslu Loftslagsráðs Að búa sig undir breyttan heim, má lesa um aðlögun vegna loftslagsvár og sett fram dæmi um loftslagsvá til framtíðar á Íslandi.

Losunarbókhald

Losunarbókhald (e. Emission Inventories) er skráningarkerfi sem er notað til að halda utan um losun gróðurhúsalofttegunda í ríkjum heims. Losunarbókhald Íslands með gróðurhúsalofttegundir er bókhald um bæði losun gróðurhúsalofttegunda og bindingu kolefnis úr andrúmslofti og er unnið í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum. Losuninni er skipt niður í flokka eftir því hver uppspretta losunarinnar er: orka (jarðeldsneytisbruni og jarðvarmafyrirtæki); iðnaðarferlar og efnanotkun (málmframleiðsla, notkun ýmissa efna eins og leysiefna, kælimiðla og flugelda), landbúnaður (húsdýr og áburðarnotkun), úrgangur (urðun úrgangs, meðhöndlun skólps og jarðgerð) og landnotkun og skógrækt (votlendi, graslendi, skóglendi o.fl.).

Árlega skilar Umhverfisstofnun Landsskýrslu um losun gróðurhúsalofttegunda (e. National Inventory Report; NIR) til Evrópusambandsins og Rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál (United Nation Framework Convention on Climate Cange; UNFCCC) í samræmi við skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum. Þessi skýrsla inniheldur bókhald yfir losun gróðurhúsalofttegunda og bindingu kolefnis úr andrúmslofti á Íslandi. Hægt er að nálgast skýrslur með losunarbókhaldi Íslands á heimasíðu Umhverfisstofnunar.

Á síðustu árum hefur Hagstofa Íslands birt losunarreikninga sem sýna losun gróðurhúsalofttegunda og mengandi lofttegunda innan landssvæðis Íslands og frá hagkefi Íslands. Það losunarbókhald er kallað á ensku Air Emission Account (AEA). Um er að ræða öll umsvif innan íslensks hagkerfis, þar með talið alþjóðlegt flug og skipasiglingar sem eru á vegum íslenskra fyrirtækja og því hluti af íslensku hagkerfi (þó sjálf losunin eigi sér stað utan landamæra Íslands). Á Heimasíðu Hagstofunnar er hægt að lesa meira um AEA bókhaldið og hvernig það er frábrugðið því losunarbókhaldi sem er kynnt í skýrslum Umhverfisstofnunar.

NDC - Nationally Determined Contribution (landsframlag)

Eitt af því sem gerir Parísarsamninginn sérstakan er að leiðin að markmiðinu byggir á miklu trausti og samvinnu milli ríkja, atvinnulífs og annarra geranda í alþjóðastarfi. Í stað þess að samningurinn kveði á um hvernig hvert og eitt ríki eigi að að draga tiltekið mikið úr losun, leggur hvert ríki sem er aðili að samninginum fram einskonar loforðalista eða landsframlag, það sem á ensku er kallað „Nationally Determined Contribution (NDC)“. Landsframlag ríkis felur í sér hvert framlag viðkomandi ríkis verði til heildarmarkmiða samningsins. Aðildarríki skuldbinda sig til að skrásetja allt sem snýr að framkvæmd og árangri á gagnsæjan hátt og að endurskoða sitt framlag á fimm ára fresti, 2020, 2025 o.s.frv.

Súrnun sjávar

Súrnun sjávar (e. ocean acifidication) er dæmi um áhrif loftslagsbreytinga sem geta haft umtalsverðar afleiðingar fyrir íslenskt samfélag. Súrnun sjávar vísar í það ferli sem á sér stað þegar sjórinn tekur upp sífellt meira magn koldíoxíðs úr lofti, vegna aukins styrks í andrúmslofti. Þetta leiðir til þess að sýrustig sjávar, pH, lækkar með tímanum.

Áhrif þessarar súrnunar á lífríkið er eitthvað sem enn er verið að rannsaka. Kalkmettandi lífverum stafar sérstaklega mikil hætta af aukningu á CO2 þar sem súrnun sjávar leiðir til minni kalkmettunar í sjónum. Dæmi um hugsanleg áhrif sem vísindamenn hafa áhyggjur af eru t.d. neikvæð áhrif á skeldýr. Kóralrif eru líka talin í sérstakri hættu sem veldur áhyggjum vegna þess hve mikilvægu hlutverki þau gegna fyrir líffræðilega fjölbreytni sjávar. Hægt er að lesa meira um súrnun sjávar í sjötta kafla skýrslu vísindanefndar um áhrif loftslagsbreytinga á Íslandi.

Tjónnæmi

Tjónnæmi er það íslenska orð sem er oft notað yfir enska hugtakið „vulnerability“, þegar um er að ræða hversu viðkvæmir innviðir (s.s. vegir, raflínur og fráveitukerfi) eru fyrir áhrifum loftslagsbreytinga eins og t.d. óveðri, aukinni úrkomu og aukinni flóðahættu. Sterkir vel hannaðir innviðir geta minnkað tjónnæmi samfélaga, þar sem þeir draga úr líkum á því að breytingar á loftslagi valdi tjóni, sem jafnframt dregur úr líkunum á neikvæðum áhrifum á náttúru og samfélag.

Úrkomuákefð

Ein afleiðing loftslagsbreytinga er sú að mikil úrkoma verður gjarnan á stuttu tímatili sem getur valdið aukinni hættu á flóðum og þar með tjóni á mannvirkjum og innbúi. Um þessar auknu líkur á mikilli úrkomu á stuttum tíma er notað orðið úrkomuákefð.

Til að mæta þessari hættu er lögð áhersla á að hanna byggingar og innviði með það fyrir augum að fyrirbyggja tjón og skipuleggja svæði þannig að af þessu skapist sem minnst hætta. Mikilvægt er að vatn eigi sem greiðasta leið niður í jarðveginn.