STARFSREGLUR LOFTSLAGSRÁÐS
STARFSREGLUR LOFTSLAGSRÁÐS 09.12.2020
1. gr. Markmið
Starfsreglur þessar eru settar af Loftslagsráði.
Markmið með setningu starfsreglnanna er að setja umgjörð og viðmið um starfsemi
Loftslagsráðs, að stuðla að trausti og trúnaði í samskiptum og við meðferð upplýsinga, bæði
innan ráðsins og gagnvart utanaðkomandi aðilum, sem og að stuðla að gagnsæi í starfsemi
ráðsins.
Reglurnar gilda um starfsemi Loftslagsráðs, fulltrúa í ráðinu og starfsfólk þess.
2. gr. Meginhlutverk
Meginhlutverk Loftslagsráðs er að veita stjórnvöldum aðhald og ráðgjöf um stefnumarkandi
ákvarðanir og markmið Íslands sem tengjast loftslagsmálum, í samræmi við 5. gr. b í lögum
um loftslagsmál, nr. 70/2012.
Loftslagsráð hefur með höndum eftirfarandi lögbundin verkefni:
a. veita ráðgjöf um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og aðgerðir til að
auka kolefnisbindingu,
b. veita ráðgjöf um aðlögun að loftslagsbreytingum,
c. rýna á undirbúningsstigi áætlanir stjórnvalda sem snerta loftslagsmál,
d. hafa yfirsýn yfir miðlun fræðslu og upplýsinga um loftslagsmál til almennings,
fyrirtækja, stofnana og sveitarfélaga,
e. rýna tillögur sem berast frá fagstofnunum um vöktun og rannsóknir sem tengjast loftslagsbreytingum,
f. vinna að öðrum verkefnum sem ráðherra felur ráðinu hverju sinni.
Loftslagsráð getur ákveðið að taka upp mál að eigin frumkvæði, enda samræmist það
lögbundnu hlutverki þess.
Berist beiðni frá ráðherra, með tilvísun til f.-liðar hér að framan, um að Loftslagsráð vinni að tilteknu verkefni,
skal formaður leggja slíka beiðni fyrir ráðið til kynningar.
Telji Loftslagsráð að einhver atriði hamli eða komi í veg fyrir að það geti unnið að verkefninu skal samþykkt ráðsins þar að lútandi kynnt ráðherra.
3. gr. Skipan
Loftslagsráð er skipað til fjögurra ára í senn, sbr. lög nr. 70/2012.
Formaður og varaformaður Loftslagsráðs eru skipaðir af þeim ráðherra sem fer með
loftslagsmál.
4. gr. Starfshættir
Loftslagsráði ber að lögum að gæta óhlutdrægni og vera sjálfstætt í störfum sínum.
Loftslagsráð skal halda úti sérstakri heimasíðu þar sem veittar eru upplýsingar um m.a.
starfsemi þess og niðurstöður.
Loftslagsráð leggur m.a. áherslu á að:
a. tengja saman reynsluheima ólíkra hagsmunaaðila,
b. vera hvati að markvissara samtali um markmið og leiðir í loftslagsmálum,
c. virkja umræðu í baklandi fulltrúa í ráðinu.
Loftslagsráð hefur samráð við umhverfis- og auðlindaráðuneytið, stofnanir þess og eftir atvikum önnur ráðuneyti og ríkisstofnanir.
Loftslagsráð gerir árlega áætlun um störf sín og er hún birt á vefsíðu ráðsins.
Í henni skal tilgreina viðfangsefni og áherslur ráðsins, fræðslu og miðlun upplýsinga og annað sem tengist verkefnum ráðsins.
Formaður boðar til funda í ráðinu eða starfsmaður þess fyrir hans hönd.
Senda skal fulltrúum fundargögn tímalega þannig að þeir geti kynnt sér þau fyrirfram.
Fundargerðir
skulu birtar opinberlega á vefsíðu Loftslagsráðs. Almenn fundarsköp gilda á fundum Loftslagsráðs.
Skulu fulltrúar sýna sanngirni og tillitssemi í garð hvors annars í störfum sínum.
Heimilt er að senda fundarboð til fulltrúa í Loftslagsráði með rafrænum hætti á
tölvunetfang sem þeir gefa upp eða annað sambærilegt. Réttilega boðaða fundi má halda án tillits til mætingar fulltrúa.
Leitast skal við að ná samstöðu um niðurstöður Loftslagsráðs. Ríkja skal trúnaður um drög að niðurstöðu ráðsins meðan samstöðu er leitað.
Slík vinnugögn skulu merkt sérstaklega til að auðvelda fulltrúum að eiga samráð við bakland sitt án þess að rjúfa trúnað. Vinnugögn
skulu ekki afhent aðilum utan ráðsins.
Komi upp ágreiningur um afgreiðslu mála ræður afl atkvæða úrslitum.
Atkvæði formanns er oddaatkvæði og ræður úrslitum falli atkvæði að jöfnu. Þó skulu starfsreglur Loftslagsráðs ávallt staðfestar af öllum fulltrúm ráðsins á fundi þess.
5. gr. Stjórnarhættir og fjárheimilir
Formaður Loftslagsráðs er talsmaður ráðsins og kemur opinberlega fram fyrir hönd þess nema hann ákveði annað, s.s.
að fela starfsfólki að koma fram fyrir hönd ráðsins. Geti formaður ekki sinnt starfsskyldum sínum vegna forfalla, tekur varaformaður við starfsskyldum hans.
Aðilar, sem tilnefna fulltrúa í Loftslagsráð, bera kostnað af störfum þeirra fulltrúa sem
skipaðir eru á grundvelli viðkomandi tilnefningar.
Formaður og varaformaður Loftslagsráðs ásamt starfsmanni þess mynda
framkvæmdastjórn sem undirbýr fundi og hefur yfirumsjón með starfsemi ráðsins.
Skal framkvæmdastjórn undirbúa óskir um fjárlagaheimildir úr ríkissjóði og hafa umsjón með fjárreiðum Loftslagsráðs.
Loftslagsráð getur ákveðið að skipa fulltrúum í undirhópa til undirbúnings afmörkuðum verkefnum sem ráðið vinnur að.
Formaður Loftslagsráðs, í hans umboði starfsmaður ráðsins, sér um samskipti við opinbera
aðila, s.s. ráðuneyti og stofnanir sem ráðið á í reglulegum samskiptum við. Ráðið skal upplýst
um öll slík formleg samskipti fyrir hönd ráðsins.
6. gr. Starfsfólk og verktakar
Starfsmaður Loftslagsráðs sér um starfsemi og framkvæmdir í umboði ráðsins.
Formaður kemur fram fyrir hönd ráðsins gagnvart starfsfólki.
Starfsfólk Loftslagsráðs eru opinberir starfsmenn og hafa réttindi og skyldur í samræmi við ákvæði laga nr. 70/1996, um
réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
Loftslagsráði er heimilt að útvista afmörkuðum verkefnum eða kalla sérfræðinga sér til
ráðgjafar og ber þá framkvæmdastjórn ábyrgð á samningum og samskiptum við verktaka.
Um störf verktaka gilda eftir atvikum sömu reglur og um starfsfólk ráðsins, m.a. varðandi óhlutdrægni og trúnað.
7. gr. Upplýsingagjöf og samskipti
Loftslagsráð skal gefa út álit og greinargerðir sem ætlað er að veita stjórnvöldum aðhald
og ráðgjöf, sem og að vera hvati að markvissara samtali um markmið og leiðir í
loftslagsmálum.
Loftslagsráð skal birta fundargerðir sínar, álitsgerðir og greinargerðir opinberlega á
heimasíðu ráðsins. Gera skal skýrslu fyrir hvert liðið starfsár sem lögð skal fram til
samþykktar Loftslagsráðs á fyrsta ársfjórðungi nýs starfsárs og birt opinberlega á
heimasíðu ráðsins. Birting og framsetning efnis á vefsíðu ráðsins skal vera með skýrum hætti
samkvæmt bestu mögulegu upplýsingum og greiningum sem fyrir liggja á hverjum tíma.
Fulltrúar í Loftslagsráði skulu standa vörð um skýrleika, hlutlægni, trúverðugleika, sjálfstæði
og gagnsæi í störfum ráðsins. Með verkum sínum skal ráðið stuðla að virkri umræðu um
stefnu stjórnvalda og aðgerðir í loftslagsmálum.
8. gr. Þagnar- og trúnaðarskylda
Fulltrúar í Loftslagsráði skulu gæta að þagnar- og trúnaðarskyldu varðandi drög að
niðurstöðu ráðsins, sbr. 4. gr. reglna þessara, sem eru vinnugögn, sbr. upplýsingalög nr.
140/2012. Vinnugögn teljast þau gögn sem Loftslagsráð hefur ritað eða útbúið til eigin nota
við undirbúning ákvörðunar í máli eða annarra lykta þess. Hið sama gildir um önnur þau
gögn sem ráðið hefur sérstaklega ákveðið að trúnaður skuli ríkja um. Þagnarskylda helst
þótt látið sé af starfi.
9. gr. Samfélagsleg ábyrgð og siðferði
Fulltrúar í Loftslagsráði skulu verða óháðir ráðuneytum og stofnunum sem þeir hafa fagleg
samskipti við og eru ekki bundnir af fyrirmælum sem tilnefningaraðilar kunna að gefa þeim
heldur hafa að leiðarljósi í störfum sínum lögbundið hlutverk ráðsins.
Telji fulltrúi í Loftslagsráði að mál, sem til umfjöllunar er í ráðinu, varði einstaklingsbundna
og sérstaka hagsmuni hans, skal hann upplýsa ráðið um það við fyrsta tækifæri. Getur ráðið
farið þess á leit við viðkomandi fulltrúa að varamaður hans taki sæti við afgreiðslu málsins
ef ástæða þykir til.
Fulltrúar í Loftslagsráði skulu varast að þiggja gjafir eða nýta sér fríðindi frá þeim sem eiga
hagsmuna að gæta vegna starfa sinna í ráðinu.
10. gr. Gildistaka og endurskoðun
Starfsreglur þessar taka þegar gildi.
Starfsreglur þessar skulu vera aðgengilegar á heimasíðu Loftslagsráðs.
Starfsreglur þessar skulu endurskoðaðar eigi sjaldnar en á tveggja ára fresti og þá
staðfestar á ný, með eða án breytinga, af öllum fulltrúum Loftslagsráðs á fundi þess.
Reykjavík, 9. desember 2020
F.h. Loftslagsráðs
Halldór Þorgeirsson formaður
Guðný Káradóttir starfsmaður