HLUTVERK OG SKIPAN LOFTSLAGSRÁÐS

Hlutverk og skipan

Loftslagsráð er sjálfstætt starfandi ráð sem hefur það meginhlutverk að veita stjórnvöldum aðhald með faglegri ráðgjöf um loftslagsmál. Þá er hlutverk ráðsins einnig að hafa yfirsýn yfir fræðslu og miðlun upplýsinga um loftslagsmál til almennings.

Loftslagsráð sinnir hlutverki sínu með því að rýna áætlanir stjórnvalda sem snerta loftslagsmál, stuðla að upplýstri umræðu um aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka kolefnisbindingu sem og ráðgjöf um aðlögun að loftslagsbreytingum. Þá stendur Loftslagsráð fyrir fræðslu og miðlun upplýsinga, t.d. með skipulagningu eða þátttöku í málstofum og öðrum viðburðum um loftslagstengd málefni.

Árlega er gefin út starfsáætlun sem lýsir markmiðum ráðsins, áherslum og viðfangsefnum hverju sinni. Verkefni ráðsins eru skv. lögum eftirtalin:

  • veita ráðgjöf um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og aðgerðir til að auka kolefnisbindingu,
  • veita ráðgjöf um aðlögun að loftslagsbreytingum,
  • rýna á undirbúningsstigi áætlanir stjórnvalda sem snerta loftslagsmál,
  • hafa yfirsýn yfir miðlun fræðslu og upplýsinga um loftslagsmál til almennings, fyrirtækja, stofnana og sveitarfélaga,
  • rýna tillögur sem berast frá fagstofnunum um vöktun og rannsóknir sem tengjast loftslagsbreytingum,
  • vinna að öðrum verkefnum sem ráðherra felur ráðinu hverju sinni.

Loftslagsráð sækir nú umboð sitt til laga um loftslagsmál (nr. 70/2012) eftir að þeim var breytt árið 2019. Það hafði áður starfað í eitt ár á grundvelli þingsályktunar. Samkvæmt lögunum eiga sæti í ráðinu fulltrúar atvinnulífsins, háskólasamfélagsins, sveitarfélaga og umhverfisverndarsamtaka auk annarra fulltrúa sem nauðsynlegt er talið að eigi sæti í ráðinu á hverjum tíma.

Loftslagsráð er mikilvægur vettvangur fyrir hagaðila til að koma ábendingum og hugmyndum á framfæri til stjórnvalda. Ráðið gagnast einnig vel sem samræðuvettvangur fyrir fulltrúa ólíkra sjónarmiða til að fjalla um um mismunandi leiðir til að takast á við þau loftslagstengdu úrlausnarefni sem við stöndum frammi fyrir. Loftslagsráð skal gæta óhlutdrægni og vera sjálfstætt í störfum sínum.

Ráðið leggur áherslu á að tengja saman reynsluheima, vera hvati að markvissara samtali um markmið og leiðir í loftslagsmálum og að virkja bakland fulltrúa í ráðinu. Það hefur einnig samráð við Stjórnarráðið og stofnanir þess.

Loftslagsráð hefur sett sér starfsreglur sem setja umgjörð og viðmið þar sem kveðið er nánar á um starfsemi Loftslagsráðs. Þeim er ætlað að að stuðla að trausti og trúnaði í samskiptum og við meðferð upplýsinga, bæði innan ráðsins og gagnvart utanaðkomandi aðilum, sem og að stuðla að gagnsæi í starfsemi ráðsins.

Skipað var í Loftslagsráð í ágúst 2019 og er skipunartíminn fjögur ár. Eftirtaldir aðilar tilnefndu fulltrúa og varafulltrúa í ráðið:

 

  • Alþýðusamband Íslands
  • Festa – miðstöð um samfélagsábyrgð
  • Háskólasamfélagið (2 fulltrúar)
  • Bændasamtök Íslands
  • Viðskiptaráð Íslands
  • Neytendasamtökin
  • Samband íslenskra sveitafélaga (2 fulltrúar)
  • Samtök atvinnulífsins
  • Umhverfissamtök (2 fulltrúar)

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra skipar þrjá aðila án tilnefningar, formann og varaformann, auk fulltrúa ungs fólks.

Loftslagsbreytingar

Loftslagsbreytingar af mannavöldum eru hnattrænn vandi. Öll losun gróðurhúsalofttegunda, hvar sem hún er á jarðarkringlunni, leiðir til aukins styrks koldíoxíðs í andrúmsloftinu. 

Fundargerðir

Loftslagsráð fundar reglulega og fjallar um áherslumál og verkefni, birtir álit og greinargerðir. Fundargerðir eru birtar opinberlega og eru aðgengilegar á vefnum.