Styður almenningur loftslagsaðgerðir eða hefur almenningur litlar áhyggjur af loftslagsmálum? Finnst almenningi nóg komið og vill frekar leggja áherslu á önnur mál en loftslagsvána? Er komið bakslag í baráttuna gegn útblæstri gróðurhúsalofttegunda?
Þessar og fleiri spuningar heyrast stundum í umræðunni. Þegar aðgerðir í loftslagsmálum eru annars vegar skiptir verulegu máli að stuðningur og skilningur almennings sé til staðar. Einnig skiptir máli að þessi stuðningur sé sýnilegur.
Margt er fullyrt í þessum efnum og algengt er að mat sé lagt á stuðninginn út frá tilfinningu eða litlum gögnum. Af þeim sökum ákváðu nokkrir vísindamenn fyrir fjórum árum að hefja umfangsmikið kerfisbundið mat á þessum stuðningi, út um allan heim, til þess að reyna að svara því með afgerandi hætti hvort almenningur styddi loftslagsaðgerðir eða ekki. Er almenningur að hugsa um þessi mál?
Gerðar voru kannanir í 125 löndum heims, með símhringingum eða beinum viðtölum við alls ríflega 129 þúsund manns, eða ríflega 1000 manna úrtak frá hverju landi. Fólk var spurt um það hvort það væri reiðubúið að verja 1% af tekjum sínum til loftslagsaðgerða. Það var líka spurt hvort það teldi að fólk ætti almennt að gera meira til að sporna við loftslagsbreytingum og svo líka hvort það teldi að stjórnvöld ættu að gera meira. Að síðustu var fólk spurt hvað það teldi að há prósenta samborgara sinna væri reiðubúin til þess að verja 1% af tekjum sínum til loftslagsaðgerða.
Niðurstöðurnar, sem birtar voru í tímaritinu Nature í febrúar í fyrra, eru mjög áhugaverðar og niðurstöður þeirra hafa haft stigvaxandi áhrif. Þær hafa núna meðal annars leitt til hreyfingar sem leggur áherslu á að virkja hinn þögla meirihluta sem virðist vera til staðar, til stuðnings loftslagsaðgerðum. Þessi hreyfing, sem meðal annars breska dagblaðið The Guardian á aðild að, kallast 89% hreyfingin.
Sú nafngift helgast af því að niðurstöðurnar leiddu í ljós mjög afgerandi stuðning almennings í öllum 125 löndunum við meiri loftslagsaðgerðir. Að meðaltali sögðu 89% þátttakenda að stjórnvöld ættu að gera meira til þess að sporna við loftslagsvánni. Þá sögðu 86% að fólk ætti almennt að berjast gegn loftslagsbreytingum og 69% aðspurðra, eða ríflega tveir þriðju, sögðust vera reiðubúin að verja 1% af tekjum sínum til loftslagsaðgerða.
Í rannsókninni var líka kannað hvað tólk teldi að annað fólk vildi gera mikið í loftslagsmálum. Tilgáta rannsakenda var sú, að yfirleitt héldi fólk að annað fólk hefði ekki mikinn áhuga á loftslagsmálum. Sú tilgáta reyndist rétt. Fólk vanmetur stórlega áhuga annarra. Spurt var hvað fólk teldi að hátt hlutfall annarra væri reiðubúið að verja 1% af tekjum sínum til loftslagsaðgerða. Að meðalali taldi fólk að 43% annarra væri til í það.
Þarna birtist því gjá upp á 26 prósentustig, á mili raunveruleikans og þess sem fólk heldur. Mun fleiri eru til í að gera meira í loftslagsmálum en fólk telur. Þetta hefur þýðingu, því eins og rannsakendur benda á, og var líka sannreynt í könnuninni, þá letur það mjög almenning og stjórnvöld til aðgerða, ef það er almennt talið að fáir hafi áhuga. Um leið og hinn yfirgripsmikli stuðningur kemst upp á yfirborðið og er á allra vitorði, þá eykst stuðningur við loftslagsaðgerðir enn meira og líkurnar á aðgerðum aukast til muna.
Eins og staðan er núna veit fólk ekki af hinum yfirgripsmikla stuðningi, eða hinum stóra þögla meirihluta, og aðgerðir virðast stranda meðal annars á stórbrotnum misskilningi um viðhorf annarra. Þessi misskilningur greindist í öllum 125 löndunum. Þessi vitneskja, eins og áður segir, hefur nú orðið tilefni til stofnunar 89% hreyfingarinnar. Markmið hennar er að virkja þennan stóra þögla meirihluta til raunverulegra og árangursríkra aðgerða. Aðstandendur telja að í þessum mikla undirliggjandi og að mörgu leyti ósýnilega stuðningi liggi fídonskraftur.
Ísland var meðal þátttökulanda. Í ljós kom að 72% Íslendinga eru tilbúnir til þess að verja 1% af tekjum sínum til loftslagsaðgerða. Íslendingar halda hins vegar að einungis 44% sé til í það. Þá sögðu 92% þátttakenda að samborgarar sínir ættu að reyna að berjast gegn loftslagsbreytingum og 81% sögðu að stjórnvöld ættu að gera meira.
Lesa má um könnunina og skoða sundurgreindar niðurstöður eftir löndum hér.
Það er athyglisvert, að íbúar ríkari landa — sem valda mestum útblæstri gróðurhúsalofttegunda — virðast minna reiðubúnir til þess að leggja sitt af mörkum, þótt að stuðningur sé vissulega víðtækur í þeim löndum. Hann mælist hins vegar merkjanlega meiri í fátækari löndum. Það er kannski ekki að undra, því eins og rannsakendur benda á, eru afleiðingar gróðurhúsaáhrifa enn sem komið er mestar þar.