Loftslagsráð hefur beint sjónum sínum að orkuskiptum í vegasamgöngum og sendir frá sér álit. Loftslagsráð ítrekar í álitinu að orkuskipti í vegasamgöngum þurfa að verða lykilaðgerð. Að mati ráðsins skortir enn á heildstæða stefnu og aðgerðaráætlun hvað varðar samdrátt í losun frá vegasamgöngum sem og mat á samlegðaráhrifum aðgerða.
Samkvæmt bráðabirgðatölum Umhverfisstofnunar um losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2023 voru vegasamgöngur 20% af heildarlosun Íslands án losunar frá landnotkun og 34% af samfélagslosun og er orkuskiptum í vegasamgöngum lýst sem lykilaðgerð í Aðgerðaáætlun Íslands í loftslagsmálum. Hátt hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa og jákvætt viðhorf almennings til orkuskipta hafa skapað góðan jarðveg fyrir slíkar breytingar og ívilnanir til kaupa á hreinorkubifreiðum hafa gert eigendum hreinorku- og tengiltvinnbíla auðveldara að eignast slík farartæki.
Stjórnsýsla loftslagsmála fellur undir ábyrgðarsvið margra ráðherra og stjórna sveitarfélaga. Samþætta þarf ákvarðanir í ríkisfjármálum varðandi innviðauppbyggingu við markmið í loftslagsmálum. Hvergi er þetta mikilvægara en í samgöngum. Tryggja þarf að þær ákvarðanir sem teknar verða á næstu mánuðum um kílómetragjald taki mið af þjóðarhag, sendi skýr skilaboð um langtímastefnu og skapi hvata til að hraða umskiptum í samsetningu bílaflotans sem leiða til raunverulegs samdráttar í losun frá samgöngum þ.m.t. frá þungaflutningum. Því þarf að tengja gjaldtökuna við þyngd ökutækja og þar með losun gróðurhúsalofttegunda.
Umfang þungaflutninga á vegum landsins er sérstök áskorun og því mikilvægt að kílómetragjald og önnur hagræn stjórntæki skapi forsendur til fjárfestinga sem geri umtalsverðan samdrátt í losun vegna þungaflutninga mögulegan. Horfa þarf heildstætt á þætti sem tengjast vegakerfinu og innkaupum og rekstri ökutækja.