Umfjöllunarefni
Vegasamgöngur eru stærsti þáttur samfélagslosunar á Íslandi. Stjórnvöld hafa beint athygli sinni að þessum flokki enda fylgja margvísleg jákvæð hliðaráhrif aðgerðum. Á Íslandi hafa orkuskiptin verið í fyrirrúmi með áherslu á uppbyggingu hleðslustöðva og ívilnanir til kaupenda á vistvænni ökutækjum.
Nauðsynlegt er að horfa heildstætt á verkefnið því allar aðgerðir stjórnvalda sem tengjast virkum ferðamátum, almenningssamgöngum, uppbyggingu vegakerfisins, gjaldtöku af bifreiðum og notkun þeirra, hafa áhrif á losun gróðurhúsalofttegunda. Þau hafa einnig viðamikil áhrif á daglegt líf, atvinnulíf, lífskjör og jöfnuð. Víðtæk og fjölbreytt áhrif samgangna kalla á að aðgerðir séu vel undirbyggðar með samráði, heildstæðri stefnumótun og greiningum sem ná til áhrifa á losun, hagkvæmni aðgerða, áhrifa á lífskjör og hve vel þær styðja við réttlát umskipti. Þegar kemur að orkuskiptum í samgögnum er fyrirsjáanleiki einnig lykilatriði.
Skortur á heildrænni stefnu og greiningum
Að mati Loftslagsráðs skortir enn á heildstæða stefnu og aðgerðaráætlun hvað varðar samdrátt í losun frá vegasamgöngum sem og mat á samlegðaráhrifum aðgerða. Nýlegt dæmi um skort á fyrirsjáanleika og heildstæðu mati voru breytingar á hagrænum stjórntækjum bæði hvað varðar kaup og rekstur ökutækja.
Fyrir liggur að ráðist verði í frekari uppbyggingu samgöngumannvirkja. Stjórnvöld þurfa að hafa heildaryfirsýn yfir samlegðaráhrif slíkrar uppbyggingar með tilliti til losunar gróðurhúsalofttegunda, hagkvæmni og áhrifa á lífskjör og lífsgæði.
Tækifæri til úrbóta
Stefnumörkun og aðgerðir í samgöngum í dag munu hafa mikil áhrif á losun gróðurhúsalofttegunda til framtíðar sem og lífsgæði almennings. Heildaryfirsýn í málaflokknum er því afar mikilvæg. Mikil tækifæri eru til að gera betur.
Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar hefur lagt mat á þá fjölmörgu samverkandi þætti sem hafa áhrif á losun frá samgöngum. Athyglin á Íslandi hefur þó einkum beinst að breytingum á orkugjöfum ökutækja. Aðrir þættir hafa fengið minni athygli þegar kemur að mati á samdrætti í losun svo sem skipulag bæja og borga, umsvif og þróun atvinnulífs, samgönguhegðun, uppbygging almenningssamgangna og innviða fyrir virka samgöngumáta. Stefnumótun í málaflokknum krefst heildrænnar og þverfaglegrar nálgunar, samvinnu ráðuneyta, samstarfs ríkis og sveitarfélaga og virks samráðs við hagaðila og almenning. Allar ákvarðanir um opinber fjármál þurfa að styðja við stefnu stjórnvalda í loftslagsmálum og vísar Loftslagsráð til fyrri samantektar sinnar um opinber fjármál og loftslagsmál.
Stjórnsýsla loftslagsmála fellur undir ábyrgðarsvið margra ráðherra og stjórna sveitarfélaga. Samþætta þarf ákvarðanir í ríkisfjármálum varðandi innviðauppbyggingu við markmið í loftslagsmálum. Hvergi er þetta mikilvægara en í samgöngum. Tryggja þarf að þær ákvarðanir sem teknar verða á næstu mánuðum um kílómetragjald taki mið af þjóðarhag, sendi skýr skilaboð um langtímastefnu og skapi hvata til að hraða umskiptum í samsetningu bílaflotans sem leiða til raunverulegs samdráttar í losun frá samgöngum þ.m.t. frá þungaflutningum. Umfang þungaflutninga á vegum landsins er sérstök áskorun og því mikilvægt að kílómetragjald og önnur hagræn stjórntæki skapi forsendur til fjárfestinga sem geri umtalsverðan samdrátt í losun vegna þungaflutninga mögulegan. Horfa þarf heildstætt á þætti sem tengjast vegakerfinu og innkaupum og rekstri ökutækja. Því þarf að tengja gjaldtöku af ökutækjum sem nota jarðefnaeldsneyti við þyngd þeirra eða vélarstærð og þar með losun gróðurhúsaloftegunda.
Á sama tíma og áhersla er lögð á að auka hlutfall vistvænna bifreiða í bílaflotanum verða stjórnvöld að leitast við að draga úr ferðaþörf og búa þannig um hnútana að almenningssamgöngur séu góður og raunhæfur valkostur fyrir almenning um allt land, í þéttbýli sem og dreifbýli.