Opinber fjármál og loftslagsmál
júní, 2022

Umfjöllunarefni

Loftslagsráð ákvað í mars 2022 að hefja skoðun á samspili opinberra fjármála og loftlagsmála og var fyrsta skref í þeirri vegferð að ráðast í greiningu sem miðar að því að ná yfirsýn yfir þá þætti ríkisfjármálanna sem hafa sérstaka þýðingu og áhrif á árangur af loftslagsaðgerðum. Tilgangur verkefnisins og tengdrar umræðu í Loftslagsráði er að stuðla að gagnsæi varðandi ráðstöfun opinberra fjármuna í þágu loftslagsmarkmiða til að stuðla að samstillingu stefnumörkunar í ríkisfjármálum við stefnumið þjóðarinnar í loftslagsmálum. Vinnan í þessum fyrsta áfanga miðaði fyrst og fremst að því að kortleggja og ná yfirsýn yfir þá þætti ríkisfjármálanna sem hafa sérstaka þýðingu fyrir málaflokkinn, m.a. kostnað og tekjur ríkissjóðs sem tengjast loftslagsmálum þ.m.t. kolefnisgjald, og tekjur af uppboði losunarheimilda innan viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir. Einnig að afla upplýsinga um stefnumörkun og eftirfylgni varðandi útgjöld til loftslagsmála eins og þær birtast í opinberum gögnum.

Samhliða lét Loftslagsráð vinna minnisblað um Tekjur af uppboði losunarheimilda í tengslum við þetta verkefni sem nálgast má hér.

Helstu ábendingar

 

    • Græn fjárlagagerð öflugt tæki til að ná markmiðum í loftslagsmálum. Ískýrslu OECD, Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og ESB um græna fjárlagagerð eru megin skilaboðin að græn fjárlagagerð geti verið öflugt tæki fyrir ríki til að ná markmiðum í loftslags- og umhverfismálum.

    • Allar ákvarðanir um opinber fjármál þurfa að styðja við stefnu stjórnvalda í loftslagsmálum. Horfa verður heildrænt á hagstjórn og ráðstöfun opinberra fjármuna og leita leiða til að tryggja að allar ákvarðanir um opinber fjármál styðji við stefnu stjórnvalda í loftslagsmálum, meðal annars markmið um kolefnishlutleysi, viðnámsþrótt gegn loftslagsbreytingum og réttlát umskipti. Stefna um opinber fjármál þarf að grundvallast á skýrri loftslagsstefnu og aðgerðaáætlun í loftslagsmálum.

    • Stefna í loftslagsmálum þarf að vera samhæfð við ríkisfjármál. Við samhæfingu opinberra fjármála og loftslagsmála er fyrsta skrefið að skilgreina með skýrum hætti markmið og áherslur ríkisins í loftslagsmálum, bæði hvað varðar mótvægisaðgerðir og aðlögun að loftslagsbreytingum. Ljóst þarf að vera hvaða árangri ríkið hyggst ná og hvernig, þar á meðal hvernig aðgerðir verði fjármagnaðar.

    • Gagnsæi við fjárlagagerð mikilvæg. Tryggja þarf gagnsæi um ferli fjárlagagerðarinnar og veita aðgengilegar og skýrar upplýsingum um hvernig fjárlög eru samræmd markmiðum á sviði umhverfis- og loftslagsmála. Bæta þarf gagnsæi og framsetningu upplýsinga um kostnað og tekjur vegna aðgerða í loftslagsmálum til að unnt sé að gera sér grein fyrir tengslum loftslagsstefnu stjórnvalda og þeirrar forgangsröðunar sem fram kemur í fjármálaáætlun og fjárlögum.

    • Skýr loftslagsstefna og skýr umgjörð um stefnumörkun og ákvarðanir undirstaða árangurs. Lykilþættir árangurs eru að skýr stefna liggi fyrir í umhverfis- og loftslagsmálum og að nýtt séu tæki og aðferðir sem stuðlað geta að upplýstri ákvarðanatöku sem byggir á greiningu gagna og sýnt sé fram á samhæfingu ríkisfjármála við umhverfis- og loftslagsmarkmið. Skýr umgjörð um stefnumörkun og ákvarðanir þarf að vera fyrir hendi sem og hlutverk og samspil viðeigandi stofnana.

    • Meta þarf loftslagsáhrif stefnumarkandi aðgerða ríksins. Efla þarf mat á loftslagsáhrifum stefnumarkandi aðgerða ríkisins til að skapa forsendur fyrir upplýstum og skilvirkum ákvörðunum um framlög til loftslagsmála. Flokkun á kostnaði vegna aðgerða í loftslagsmálum er ekki nægjanlega skýr.

    • Samhæfingu stefnumörkunar ríkisfjármála og loftslagsmála er ólokið. Af opinberum gögnum um ríkisfjármál sést að vinna er hafin hér á landi við að flétta loftslagsmarkmið inn í stefnumörkun í opinberum fjármálum. Þrátt fyrir að fyrstu skrefin hafa verið tekin er ljóst að stjórnvöld eiga enn mikla vinnu fyrir höndum við að samhæfa stefnumörkun ríkisfjármála og loftslagsmála.