Parísarsamningurinn er eitt mikilvægasta alþjóðlega verkfærið í baráttunni gegn hættulegum loftslagsbreytingum af mannavöldum. Hann markar ákveðin tímamót því í fyrsta sinn eru öll ríki heims saman í því verkefni að þróa metnaðarfullar leiðir til að draga úr styrk gróðurhúsalofttegunda í andrúmslofti og aðlaga sig að þeim breytingum á loftslagi sem ekki er hægt að koma í veg fyrir. Parísarsamningurinn var samþykktur á 21. fundi aðildarríkja Rammasamnings SÞ um loftslagsbreytingar (COP 21). Hann gekk í gildi 4. nóvember 2016. Í byrjun árs 2022 höfðu 192 ríki af þeim 197 sem eru aðilar að Rammasamningnum staðfest Parísarsamninginn.
Parísarsamningurinn er drifinn áfram af því markmiði að halda hnattrænni hlýnun vel innan við 2°C og eins lítið umfram 1,5°C og kostur er, miðað við meðalhita við upphaf iðnbyltingar. Einnig er lögð áhersla á að styrkja viðnámsþrótt ríkja svo þau nái að aðlaga sig þeim margvíslegu áhrifum sem breytingar á loftslagi hafa á bæði lífríki og samfélög. Til að ná markmiðum samningsins þarf að eiga sér stað stórfelldur samdráttur á losun gróðurhúsalofttegunda, nógu afgerandi til að kolefnishlutleysi verði náð fljótlega eftir árið 2050.
Eitt af því sem gerir Parísarsamninginn sérstakan er að leiðin að markmiðinu byggir á miklu trausti og samvinnu milli ríkja, atvinnulífs og annarra geranda í alþjóðastarfi. Í stað þess að samningurinn kveði á um hvernig hvert og eitt ríki eigi að að draga tiltekið mikið úr losun, leggur hvert ríki sem er aðili að samninginum fram einskonar loforðalista, það sem á ensku er kallað „Nationally Determined Contribution (NDC)“ og felur í sér hvert framlag viðkomandi ríkis verði til heildarmarkmiða samningsins. Aðildarríki skuldbinda sig til að skrásetja allt sem snýr að framkvæmd og árangri á gagnsæjan hátt og að endurskoða landsframlag sitt á fimm ára fresti.
Sterk áhersla á víðtækt samstarf er sérstaklega athyglisverð. Hvatt er til samstarfs, ekki bara á milli ríkja heldur líka samstarfs ríkja við atvinnulíf, félagasamtök og aðra gerendur sem ekki tilheyra opinbera geiranum í aðildarríkjum. Þetta er viðurkenning á því hversu flókinn og snúinn loftslagsvandinn er og hversu mikilvægt er að allir leggi sitt af mörkum: einstaklingar, fyrirtæki, félagasamtök, ríkisstjórnir og alþjóðastofnanir. Að vissu leyti má segja að hér sé á ferðinni ný kynslóð alþjóðasamninga þar sem opinberri geirinn, einkageirinn og „þriðji“ geirinn (ýmis staðbundin og alþjóðleg félagasamtök) eiga í virku samstarfi um lausnir.
Á fimm ára fresti er gerð hnattræn úttekt (e. Global Stocktake) á stöðu mála og var slík úttekt gerð í fyrsta skipti árið 2023. Í kjölfarið skulu aðildarríkin uppfæra landsframlög sín (næst árið 2025). Við uppfærsluna ber þeim að auka metnað og taka mið af hnattrænu úttektinni þannig að tryggt sé að markmið Parísarsamningsins náist.
Hér má lesa samninginn í heild á íslensku og hér á fleiri tungumálum á vef Loftslagsskrifstofu Sameinuðu þjóðanna.