Loftslagsskuldbindingar Íslands
Yfirlit
2
3

Í nýrri samantekt, sem Hrafnhildur Bragadóttir vann fyrir Loftslagsráð, er farið yfir helstu loftslagsskuldbindingar Íslands er varða samdrátt í nettólosun gróðurhúsalofttegunda,  bæði núverandi stöðu og kerfisbreytingar hjá ESB sem munu hafa áhrif hérlendis.

Ísland vinnur með ESB, aðildarríkjum þess og Noregi að sameiginlegu markmiði gagnvart Parísarsamningnum um 55% samdrátt í nettólosun gróðurhúsalofttegunda fyrir 2030, miðað við 1990. Samvinnan felur í sér að Ísland tekur þátt í þremur lykilkerfum ESB sem ætlað er að draga úr nettólosun í Evrópu; kerfi um skiptingu ábyrgðar (ESR), landnotkunarkerfi (LULUCF) og viðskiptakerfi með losunarheimildir (ETS).

Í samantektinni er meðal annars dregið fram að ESB gerði nýlega umtalsverðar breytingar á ofangreindum lykilkerfum, undir yfirskriftinni Fær í 55 og að þær breytingar muni leiða til hertra skuldbindinga Íslands um samdrátt í nettólosun. Auk þess muni kröfur viðskiptakerfisins hafa aukin áhrif á fyrirtæki hér á landi. Einnig kemur fram að yfirstandandi viðamiklar breytingar á löggjöf ESB, sem ætlað er að innleiða hugmyndafræði evrópska græna sáttmálans (EU Green Deal) og stuðla að kolefnishlutleysi Evrópu árið 2050, muni hafa veruleg áhrif á Íslandi og því nauðsynlegt fyrir okkur að fylgjast náið með þróun mála.

Sjá nánar: Loftslagsskuldbindingar Íslands