Landsframlag Íslands til 2035
6. nóvember, 2025

Loftslagsráð samþykkti á fundi sínum 4. nóvember álit undir yfirskriftinni Landsframlag Íslands 2035.

Aðildarríkjum Parísarsamningsins ber að leggja fram landsframlög sín fyrir aðildarríkjaþingið COP30 sem haldið verður í Belém í Brasilíu í nóvember. Það er áhyggjuefni hve mörg ríki sem bera ábyrgð á umtalsverðri losun hafa ekki lagt fram sín landsframlög.

Það er því fagnaðarefni að Ísland hefur lagt fram landsframlag til Parísarsamningsins fram til 2035. Þar kemur skýrt fram að Ísland tekur á sig sjálfstæðar alþjóðlegar skuldbindingar, ekki sameiginlegar skuldbindingar með ESB.

Að mati ráðsins eru þó tækifæri til að gera betur. Skortur á forgangsröðun hefur til þessa dregið umtalsvert úr áhrifamætti aðgerðaráætlunar í loftslagsmálum. Stjórnarráðið hefur hafist handa við að forgangsraða aðgerðum til að draga úr losun og auka bindingu í því augnamiði að auka áhrif aðgerða.

Komið hefur fram að stjórnvöld ætli að beita sér fyrir samdrætti í losun frá stóriðju sem fellur undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir. Þetta er mikilvæg og jákvæð stefnubreyting. Umtalsverð tækifæri eru til föngunar, förgunar og/eða hagnýtingar útblásturs frá stóriðjuverum hér á landi.

Sett hafa verið tölusett markmið um bindingu og samdrátt í losun frá landi. Þetta markmið er ekki nægjanlega metnaðarfullt.

Einungis eru tilgreind tölusett samdráttarmarkmið fyrir samfélagslosun og losun frá landi. Stjórnvöld hafa því ekki sett fram markmið um samdrátt í heildarlosun Íslands. Að mati ráðsins dregur það úr gagnsæi.

Hér má lesa álitið í heild sinni.