Umfjöllunarefni
Aðildarríkjum Parísarsamningsins ber að leggja fram landsframlög sín fyrir aðildarríkjaþingið COP30 sem haldið verður í Belém í Brasilíu í nóvember. Það er áhyggjuefni hve mörg ríki sem bera ábyrgð á umtalsverðri losun hafa ekki lagt fram sín landsframlög.
Það er því fagnaðarefni að Ísland hefur lagt fram landsframlag til Parísarsamningsins fram til 2035. Þar kemur skýrt fram að Ísland tekur á sig sjálfstæðar alþjóðlegar skuldbindingar, ekki sameiginlegar skuldbindingar með ESB. Framkvæmdin fer fram að hluta til í samstarfi við aðildarríki ESB innan viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir. Ísland hefur einnig lögfest tilskipun ESB um losun frá landnotkun sem fellur því undir reglur þess um losun og bindingu.
Stjórnarráðið hefur hafist handa við að forgangsraða aðgerðum til að draga úr losun og auka bindingu í því augnamiði að auka áhrif aðgerða. Skortur á forgangsröðun hefur til þessa dregið umtalsvert úr áhrifamætti aðgerðaráætlunar í loftslagsmálum. Loftslagsráð mun fylgjast vel með og bregðast við þegar nægjanlegar upplýsingar liggja fyrir.
Komið hefur fram að stjórnvöld ætli að beita sér fyrir samdrætti í losun frá stóriðju sem fellur undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir. Þetta er mikilvæg og jákvæð stefnubreyting. Umtalsverð tækifæri eru til föngunar, förgunar og/eða hagnýtingar útblásturs frá stóriðjuverum hér á landi.
Auka þarf fjárfestingar í nýsköpun við föngun koldíoxíðs úr útblæstri frá álverum sem síðan mætti farga varanlega eða hagnýta. Fyrir liggur viljayfirlýsing um samstarf ríkis og áliðnaðarins um slíka nýsköpun en setja þarf aukinn kraft í það samstarf ef árangur á að nást.
Sett hafa verið tölusett markmið um bindingu og samdrátt í losun frá landi. Þetta markmið er ekki nægjanlega metnaðarfullt. Mikilvægt er að markmið séu krefjandi en framkvæmanleg. Beðið er nánari útfærslu þessa markmiðs og lýsingu á umfangi og eðli þeirra aðgerða sem ráðist verður í.
Einungis eru tilgreind tölusett samdráttarmarkmið fyrir samfélagslosun og losun frá landi. Stjórnvöld hafa því ekki sett fram markmið um samdrátt í heildarlosun Íslands. Þetta dregur úr gagnsæi. Mikilvægt er að stjórnvöld setji fram markmið fyrir heildarlosun Íslands, markmið sem er metnaðarfullt og gagnsætt.

