Fundargerð 80. fundar Loftslagsráðs

27. febrúar 2025

Fulltrúar sem sátu fundinn: Halldór Þorgeirsson, Brynhildur Davíðsdóttir, Auður Alfa Ólafsdóttir, Bjarni Diðrik Sigurðsson, Bjarni Már Magnússon, Halldór Björnsson, Helga Jóhanna Bjarnadóttir, Þorgerður María Þorbjarnardóttir.

Fundurinn var haldinn á Veðurstofu Íslands, kl. 14:00-16:00.
Anna Sigurveig Ragnarsdóttir, framkvæmdastjóri skráði fundargerð.

Fundargerð seinasta fundar

Fundargerð 79. fundar, sem haldinn var 6. febrúar var samþykkt með minniháttar breytingu.

Starfsáætlun

Fundarmenn fengu send drög að starfsáætlun þar sem lagðar eru línurnar út árið 2025. Á fundinum var farið yfir helstu þætti í starfsáætluninni og samþykkt að birta hana á vefnum. Starfsáætlun er dagsett og verður uppfærð eftir þörfum.

Skilgreining áhersluverkefna

  1. Tölur um losun settar í samhengi

Verkefnið snýst um að ræða um og varpa ljósi á hvernig gengur að ná markmiðum Íslands um samdrátt í losun til ársins 2030. Verkefnið kviknar af þörf á að skilja betur hvernig losun Íslands stendur, hvaða þættir hafa haft áhrif á losunina og hver líkleg þróun er næstu ár.

  1. NDC og lög um loftslagsmál

Komið er að þeim tímamótum í innri takti Parísarsamningsins að aðildarríki tilkynni um þann samdrátt sem þau hyggjast ná á næsta fimm ára tímabili þ.e. 2031-2035. Ráðið fylgist með þeim vísbendingum sem felast í landsframlögum annarra ríkja og viðbrögðum greiningaraðila við þeim. Tekið verður saman yfirlit um megnilínurnar. Einnig verður fylgst með samningaviðræðum innan ESB um markmiðin og umfjöllun Loftslagsráðs Evrópu um þau.

Ráðherra hefur tilkynnt að frumvarp til breytinga á lögum um loftslagsmál verði lagt fram á haustþingi. Í því frumvarpi munu felast breytingar á því stjórnskipulagi sem byggt verður upp til að ná markmiðunum.

  1. Losun frá landi

Loftslagsráð mun meta stöðu þekkingar á losun frá votlendi við mismunandi aðstæður og áhrifaþáttum hennar. Megináherslan verður hins vegar á leiðir til að skapa hvata til endurheimtar og markvissrar uppbyggingar þekkingar og reynslu.

Önnur mál

Umræðu um auglýst önnur mál var frestað til næsta fundar en þau voru hnattverkfræði í þágu loftslags, umræða um orkumál og vinnulag við frágang álita.