- nóvember 2024
Það stefnir í að árið 2024 verði heitasta ár frá upphafi mælinga. Sú röskun á loftslagi af mannavöldum sem þessu veldur hefur þegar aukið tíðni og umfang hamfara um heim allan með umtalsverðu eigna- og manntjóni. Hætturnar stigmagnast, áhrifin verða sífellt áþreifanlegri, fórnarlömbum fjölgar og vandinn verður erfiðari viðureignar með hverju árinu sem líður.
Á sama tíma eykst skriðþungi framfara í átt að lágkolefnahagkerfi – með umskiptum í orkukerfum jarðarinnar þar sem endurnýjanlegir orkugjafar koma í stað kola, olíu og jarðgass – ásamt umskiptum í framleiðslu og neyslu. Leiðin að slíku hagkerfi og samfélagi er enn fær en aðeins ef tekst að snúa við aukningu í losun og hefja hraðan samdrátt án frekari tafar. Margar leiðir eru færar að því marki og fjöldi þeirra hefur mjög jákvæð áhrif á lífsgæði og velferð til framtíðar.
Það er mikið í húfi fyrir Ísland að samstarf ríkja í baráttunni við loftslagsvandann skili árangri hratt og örugglega. Eins og nýleg skýrsla Vísindanefndar um loftslagsbreytingar staðfestir þá eru þegar komin fram umtalsverð áhrif á náttúru Íslands, atvinnuvegi, uppbyggða innviði og efnahag. Afleiðingar loftslagsvár utan landsteinanna munu ekki síður hafa mikil efnahags- og samfélagsleg áhrif hér heima.
Nauðsynlegt er að Ísland hraði samdrætti í losun og bindi meira koldíoxíð samhliða undirbúningi fyrir afleiðingar loftslagsröskunar með markvissri aðlögun.
Loftslagsráð hefur tekið uppfærða aðgerðaáætlun Íslands í loftslagsmálum til umfjöllunar eins og því ber lögum samkvæmt.
Helstu ábendingar Loftslagsráðs
Þrátt fyrir endurskoðun er aðgerðaáætlun í loftslagsmálum ómarkviss. Skerpa þarf heildarstefnuna, samþætta ólíkar aðgerðir og samhæfa framkvæmdina við stefnumið í orku-, samgöngu-, matvæla- og ríkisfjármálum. Framkvæmd áætlunarinnar er ekki áfangaskipt með skýrum hætti, ábyrgð er oft óljós og margar aðgerðir ófjármagnaðar. Þessir veikleikar munu tefja framkvæmd, forgangsröðun og ráðstöfun fjármuna. Fjöldi aðgerða sem beinast að stórum uppsprettum losunar svo sem frá sjávarútvegi og landbúnaði eru enn óútfærðar sex árum eftir að fyrsta útgáfa áætlunarinnar var kynnt.
Í ljósi ofangreindra veikleika telur Loftslagsráð árangursmatið afar bjartsýnt. Samanlagður samdráttur í samfélagslosun vegna þeirra aðgerða sem eru fjármagnaðar og útfærðar er áætlaður 27% miðað við losun ársins 2005. Að auki er ekki lagt mat á mögulegan árangur aðgerða til að draga úr losun frá landi og auka bindingu í gróðri og jarðvegi í samhengi við skuldbindingar líkt og gert er hvað varðar samfélagslosun.
Því ber að fagna að settar séu fram 150 hugsanlegar og raunverulegar aðgerðir í loftslagsmálum sem endurspeglar mikinn áhuga og vilja innan Stjórnarráðsins, í atvinnu- og viðskiptalífinu og meðal sveitarfélaga. Margar þeirra eru stuðningsaðgerðir sem eru ómissandi þegar kemur að því að skapa eflandi umhverfi og greiða fyrir nýsköpun. Loftslagsráð fagnar þeim breytingum sem hafa orðið á verkefnastjórn um aðgerðir í loftslagsmálum sem leika mun lykilhlutverk við frekari úrvinnslu aðgerða, aukna skilvirkni og forgangsröðun á komandi mánuðum.
Enn sem fyrr er gagnsæi um tekjur og útgjöld stjórnvalda vegna aðgerða í loftslagsmálum takmarkað. Slíkt gagnsæi er forsenda grænnar fjárlagagerðar og samhæfingar stefnu í loftslagsmálum við ríkisfjármál sem er lykilþáttur í framkvæmd aðgerða.
Lögum samkvæmt ber stjórnvöldum að áætla kostnað við aðgerðir og meta loftslagsávinning þeirra. Einungis 26 aðgerðir hafa verið metnar með tilliti til loftslagsávinnings og engin með tilliti til kostnaðar og ábata. Vinna þarf heildstætt mat á kostnaði og ábata, árangri og fjárfestingaþörf sem einnig beinist að þjóðhagslegum kostnaðarauka vegna tafa í framkvæmd eða skorti á samfellu og fyrirsjáanleika í hvatakerfum eða opinberum gjöldum.
Loftslagsbreytingar og aðgerðir til að sporna við þeim munu leiða til samfélagsbreytinga. Réttlát umskipti eru grundvöllur samstöðu um nauðsynlegar aðgerðir. Sanngjörn skipting kostnaðar og ábata af loftslagsaðgerðum gegnir veigamiklu hlutverki í að tryggja réttlát umskipti. Aðkallandi er að mati á samfélagslegum áhrifum loftslagsaðgerða verði hraðað.
Mikilvægt er að loftslagsaðgerðir vinni ekki gegn markmiðum samnings Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni. Því er nauðsynlegt að huga betur að ákvæðum samningsins við mótun loftslagsáætlana og við framkvæmd þeirra.
Á ríkisstjórn og Alþingi hvílir sú ábyrgð að setja skýran lagaramma og á ríki og sveitarfélögum að móta leikreglur sem skapa eflandi umhverfi fyrir samdrátt í losun og aukna bindingu. Stjórnvöld mega því ekki færast undan þeirri ábyrgð að hraða framkvæmd raunverulegra aðgerða.
Niðurstaða Loftslagsráðs er sú að nú þurfi að verða þáttaskil í framkvæmd loftslagsaðgerða. Stjórnvöld þurfa að sýna frumkvæði, stefnufestu, fyrirhyggju og fyrirsjáanleika í aðgerðum í loftslagsmálum sem skapa umgjörð og aðstæður fyrir sveitarfélög, atvinnulíf og almenning til að takast á við loftslagsvá. Allir ráðherrar næstu ríkisstjórnar og Alþingi þurfa að leggjast á eitt. Ríki, sveitarfélög og fyrirtæki sem horfast í augu við vandann og bregðast við í tæka tíð munu standa betur að vígi gagnvart þeim áskorunum sem framundan eru. Skýr langtímasýn og hugrekki þurfa að liggja til grundvallar fjárfestingum og ráðstöfun fjármuna.