Dómstólar og ábyrgð ríkja á loftslagsbreytingum
6. desember, 2024

Í auknum mæli hafa einstaklingar og félagasamtök en einnig ríki og ríkjabandalög leitað til dómstóla í þeim tilgangi að krefja fyrirtæki og ríki til að axla ábyrgð á skaða vegna afleiðinga  loftslagsbreytinga. Umfangsmikil réttarhöld hófust í vikunni fyrir Alþjóðadómstólnum í Haag og skemmst er að minnast dóms sem féll hjá Mannréttindadómstóli Evrópu síðastliðinn apríl í kjölfar lögsóknar hóps kvenna sem taldi svissneska ríkið hafa brotið á mannréttindum sínum vegna aðgerðaleysis í loftslagsmálum.

Niðurstöður málaferla sem þessa eru mikilvægar, enda er tekist á um hvar ábyrgðin á að draga úr áhrifum loftslagbreytinga liggur. Mál af svipuðum toga sem nýlega fór fyrir hafréttardómstólinn getur gefið vísbendingar um niðurstöður alþjóðadómstólsins. Hafréttarsamningur Sameinuðu þjóðanna (UNCLOS) frá 1982 er fyrsti og eini heildstæði alþjóðasamningurinn um hafrétt. Samningurinn setur reglur um notkun hafsins, t.d.  auðlindanýtingu, siglingar, verndun hafsins gegn mengun og lausn deilumála.

Oft er vísað til hafréttarsamningsins sem stjórnarskrár hafsins enda setur samningurinn reglur m.a. varðandi nýtingu hafsvæða og auðlinda hafsins. Hafréttardómstóllinn sker svo úr um þau deilumál sem kunna að koma upp milli ríkja en aðildarríki samningsins eru 168.

Í lok ársins 2022 óskaði COSIS, bandalag eyríkja eftir ráðgefandi áliti dómstólsins og lagði fram tvær megin spurningar. Fyrri spurningin fjallaði um hvort það megi telja til sérstakra skuldbindingar aðildarríkja hafréttarsamningsins  að koma í veg fyrir, draga úr og varna mengun á lífríki hafsins vegna loftslagsbreytinga. Sú seinni sneri að því hvort ríkjum beri skylda til að vernda og varðveita lífríki hafsins gagnvart afleiðingum loftslagsbreytinga, svo sem hækkun hitastigs sjávar, sjávarstöðuhækkun og súrnun hafsins.

Dómstóllinn skilaði niðurstöðu 21. maí síðastliðinn. Eftir að hafa skýrt lögsögu yfir málinu komst hann að þeirri meginniðurstöðu að ríkjum beri rík skylda til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í þeim tilgangi að vernda hafið fyrir afleiðingum loftslagsbreytinga.

Dómurinn komst jafnframt samróma að þeirri niðurstöðu að aðildarríkjum hafréttarsamningsins beri skylda til að gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að koma í veg fyrir, draga úr og hafa eftirlit með  mengun sjávar vegna losunar gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum.

Ráðgefandi álit Alþjóðahafréttardómstóllinn er því sannarlega merkilegt. Það skýrir svo að ekki verður um villst að öll losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum, hvaðan sem hún er, feli í sér mengun sjávar. Niðurstaða dómsins gæti því haft víðtækar afleiðingar og lagt lóð á vogarskálarnar í baráttunni við loftslagsbreytingar því samkvæmt hafréttarsamningnum ber ríkjum nú að gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að koma í veg fyrir, draga úr og hafa eftirlit með losun gróðurhúsalofttegunda. Að auki ber ríkjum skylda til að vernda og varðveita lífríki hafsins gegn áhrifum loftslagsbreytinga, viðhalda og endurheimta heilbrigði vistkerfa og náttúrulegt jafnvægi hafsins.

Þannig skýrði Hafréttardómstóllinn, hafréttarsamninginn sem lagalegan grundvöll fyrir skuldbindingar um að takast á við loftslagsbreytingar og skaðleg áhrif þeirra – samhliða loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna og Parísarsamningnum.

Er þetta í fyrsta skipti sem alþjóðlegur dómstóll lætur til sín taka með þessum hætti á sviði loftslagsmála og er talið að niðurstaða dómsins geti haft víðtæk áhrif varðandi túlkun annarra sambærilega dóma þar á meðal yfirstandandi réttarhöld fyrir Alþjóðadómstólnum í Haag. Þar er einnig um að ræða beiðni um ráðgjafandi álit en á meðan hafréttardómstóllinn, hefur það hlutverk að dæma í ágreiningsmálum sem varða hafréttarmálefni, hefur alþjóðadómstóllinn víðtækari lögsögu og getur fjallað um allar tegundir deilumála á sviði þjóðaréttar. Mun álit hans því skipta miklu máli og koma til með að hafa áhrif á túlkun fjölmargra annarra alþjóðasamninga. Skýr niðurstaða Hafréttardómstólsins gefur því góðar væntingar um að Alþjóðadómstóllinn nái sambærilegri niðurstöðu. Niðurstaða álitsins er væntanleg í byrjun árs 2025 .

Það er ljóst að ráðgefandi álit leysa ekki loftslagsvandann en þau geta skapað þrýsting á alþjóðasamfélagið og ríki til frekari aðgerða í loftslagsmálum.