Það voru líflegar og áhugaverðar umræðum við hringborð unga fólksins í loftslagsmálum sem Loftslagsráð og breska sendiráðið á Íslandi skipulögðu þann 15. febrúar sl. Markmið hringborðsins var að vekja athygli á mikilvægi alþjóðlegs samstarfs til að auka metnað í baráttunni gegn loftslagsvánni með áherslu á hlutverk ungs fólks og leiðir til að efla þátttöku þess enn frekar.
Þau sem tóku þátt vinna öll á alþjóðlegum vettvangi á sviði loftslagsmála, fyrir ríki, félagasamtök eða sem aðgerðasinnar. Rætt var um hvernig ungt fólk getur beitt sér í loftslagmálum, í umræðunni og um gang mála. Þetta voru:
- Salka Sigurðardóttir, forsætisráðuneyti Bretlands (Cabinet Office)
- Dr. Mikael Allan Mikaelsson, utanríkisráðuneyti Bretlands (FCDO)
- Aldís Mjöll Geirsdóttir, Forseti Norðurlandaráðs æskunnar
- Þorgerður M. Þorbjarnardóttir, formaður Ungra umhverfissinna, og þátttakandi í MOCK COP
Þeir Sigurður Loftur Thorlacius, fulltrúi unga fólksins í Loftslagsráði og Pétur Gunnarsson, loftslagsfulltrúi sendiráðs Bretlands á Íslandi, stýrðu umræðum.
Samhljómur var um að þörf sé á að auka metnað í loftslagsmálum, aðgerða sé þörf strax og að magna þurfi upp rödd unga fólksins í umræðunni. Unga fólkið vill komast að borðinu þar sem ákvarðanir eru teknar, þar sem afleiðingarnar hafa meiri áhrif á líf þeirra til framtíðar en þeirra sem eldri eru. Mat þeirra er að það þurfi að rjúfa venjur, hægt er að læra af kórónuveirufaraldrinum og gera þurfi breytingar á sanngjarnan hátt. Loftslagsváin er ekki einangrað vandamál; hún liggur þvert á landamæri og málaflokka.
Hringborð unga fólksins í loftslagsmálum from Loftslagsráð on Vimeo.