Innviðir kolefnisjöfnunar á Íslandi
5. febrúar, 2020

Tilgangur vinnunnar var m.a. að fjalla um kolefnisjöfnun og hvernig hún gagnast sem hluti af viðbrögðum við loftslagsvá. Innviðir þróast hratt og brýnt er að formgera þau skilyrði sem markaðurinn þarf að uppfylla til að tryggja áreiðanleika, gagnsæi og heilbrigt samkeppnisumhverfi.

Í umræðuplagginu, sem fyrirtækið Environice tók saman, er yfirlit yfir helstu innviði en ekki nákvæm greining á einstökum þáttum. Skýrslunni er fyrst og fremst ætlað gefa yfirlit yfir helstu innviði kolefnisjöfnunar og hvað þurfi að vera til staðar til að hægt sé að tala um slíka jöfnun á trúverðugan hátt. Þörf er á að kafa dýpra í ýmsa þætti í framhaldinu. Þetta er breitt svið og málaflokkurinn að mörgu leyti flókinn.

Í skýrslunni er m.a. að finna skilgreiningar á ýmsum hugtökum s.s. kolefnisjöfnun, kolefnisspori, kolefnishlutleysi og kolefniseiningu. Í umfjöllun um útrikninga á losun gróðurhúsalofttegunda segir: „Mikilvægt er að beitt sé samræmdum aðferðum við útreikninga á losun gróðurhúsalofttegunda, en slíkt er m.a. forsenda þess að hægt sé að fjalla um kolefnisjöfnun og haga henni þannig að hún teljist ábyrg í heildarsamhengi viðbragða við loftslagsvá. Í þessum kafla verður fjallað um aðferðir við slíka útreikninga, svo og aðferðir við mat á samdrætti í losun og birtingu upplýsinga.“

Fjórir aðilar á markaði bjóða kolefnisjöfnun; Kolviður, Votlendissjóður, Treemember me og Skógarkolefni. Auk þessara hafa fyrirtæki sjálf staðið fyrir kolefnisjöfnun án milligöngu þessara aðila, gjarnan í samstarfi við stofnanir á borð við Landgræðsluna, Skógræktina og Votlendissetur LBHÍ.

Fram kemur að vottun kolefniseininga sé ein helsta forsenda þess að hægt sé að nota einingarnar á ábyrgan hátt til kolefnisjöfnunar.  A.m.k. einn aðili á Íslandi býður slíka vottun, iCert. Fjallað er um hvað vottun felur í sér og að vottunarkerfið í heild þurfi að vera óháð bæði seljendum og kaupendum. Staðallinn sem vottað er eftir þarf að samræmast alþjóðlegum reglum eða leiðbeiningum svo sem GHL-leiðarvísinum og staðlaröðinni ISO 14064. Sagt er frá Alþjóðasamtökum seljenda kolefnisvottorða (ICROA) en þeir sem aðild eiga að samtökunum skuldbinda sig til að nota eingöngu kolefniseiningar sem eru eða munu verða staðfestar, vottaðar og skráðar í samræmi við sjö staðla sem samþykktir hafa verið af ICROA.

Megintillaga umræðuplaggsins er að íslensk stjórnvöld hafi frumkvæði að því að styrkja innviði kolefnisjöfnunar hérlendis með því að:

  • Vekja athygli á mikilvægi trúverðugrar vottunar  
  • Greiða götu íslenskra aðila sem vilja afla sér slíkrar vottunar 
  • Beina eigin viðskiptum til aðila með viðurkennda vottun

Lesa má umræðuplaggið í heild hér á vefnum.