Norðmenn ætla að minnka losun um allt að 75%
21. ágúst, 2025

Eins og fram hefur komið í grein hér á síðunni vinna þjóðir heims nú að því að uppfæra loftslagsmarkmið sín, eða svokölluð landsframlög (NDC). Þau skulu vera uppfærð fyrir komandi loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Brasilíu í nóvember og ná til ársins 2035.  Markmiðið er að heildaráhrif allra landsframlaganna verði þau að andrúmsloftið hlýni ekki meira en um eina og hálfa gráðu, miðað við hitastig fyrir iðnbyltingu.

Það markmið verður æ torsóttara eftir því sem minni tími er til stefnu. Nýlegar greiningar sýna að núgildandi markmið þjóðanna, verði þau að veruleika, munu líklega stuðla að 2,6 gráðu hlýnun fyrir lok aldarinnar. Uppfærð markmið þurfa því að vera mun metnaðarfyllri.

Nú hafa tæplega 30 ríki skilað inn nýjum markmiðum, meðal annars Bretland, Japan og Canada. Ísland vinnur að uppfærðum markmiðum sem skal náð í samstarfi við þjóðir Evrópusambandsins og Noreg, í gegnum EES samstarfið. Óvist er hvort Evrópusambandsþjóðirnar ná að skila sameiginlegum landsframlögum aðildarríkjanna fyrir COP30, en Norðmenn skiluðu sínu markmiði í lok seinasta mánaðar eftir umfangsmikið samráðsferli.

Norsk yfirvöld hafa lýst því yfir að þau stefni að því að draga úr nettólosun um að minnsta kosti 70 til 75% fyrir 2025, miðað við losun árið 1990 og er það töluvert hærra en núgildandi markmið Noregs um að minnsta kosti 55% samdrátt fyrir árið 2030.   

Markmið Norðmanna hefur verið lögfest  og í framhaldi af lagasetningunni var markmiðið, ásamt tímasettum og sundurliðuðum aðgerðum, lagt fram sem landsframlag Noregs. 

Í loftslagslögum Norðmanna er kveðið á um hvernig skuli uppfæra reglubundið markmið um samdrátt í losun. Ráðherra skal á ári hverju gefa þinginu skýrslu um stöðu og árangur. Í lögunum er kveðið á um að markmiðið til lengri tíma sé að Norðmenn dragi úr losun um allt að 95% fyrir miðja öldina.  Sett eru markmið til skemmri tíma, sem miða að því að ná þessu metnaðarfulla markmiði.

Í loftslagslögunum er kveðið á um umfangsmikið samráð við opinberar stofnanir, einkageirann og almenning þegar ný markmið eru sett. Að þessu sinni hófst þetta samráð á liðnu ári, og var beiðni um álit og aðkomu sent á hundruði hagaðila, sem tóku þátt að setja markmiðið á raunhæfum grunni. Þar á meðal eru t.d. öll sveitarfélög, samtök atvinnulífs, háskólar og rannsóknarstofnanir, auk þess sem almenningi gefst kostur á að gefa álit sitt.

Norðmenn munu reiða sig á alls kyns aðgerðir heima fyrir, eins og áframhaldandi orkuskipti í samgöngum, til þess að ná markmiðum sínum, en einnig á samstarf við Evrópusambandið og EES, líkt og Ísland. Að einhverju marki, eins og kemur fram í greinargerð með lagafrumvarpinu nú, munu Norðmenn reiða sig á verslun með losunarheimildir, en í Parísarsamningnum er kveðið á um að slík viðskipti skuli útfærð.  Þetta þýðir að ef Norðmenn ná ekki sjálfir með beinum aðgerðum heima fyrir, og í samvinnu við Evrópuríkin, að draga úr losun í samræmi við markmið sín, muni norska ríkið kaupa þær heimildir sem uppá vantar, af öðrum þjóðum sem gengur betur að minnka losun.  Slík kaup styðja svo aftur, og stuðla að, samdrætti í losun á heimsvísu.

Í áliti frá því í júní, Tímamót í loftslagsaðgerðum hvatti Loftslagsráð íslensk stjórnvöld til þess að hraða undirbúningi að framlagi Íslands og vanda til verka. Hafði ráðið orð á því að þau þáttaskil í framkvæmd loftslagsaðgerða sem ráðið kallaði eftir í nóvember 2024 hafi ekki komið fram og að stjórnsýsla loftslagsmála sé enn of sundurlaus og vanmáttug ef tekið er tillit til þess hve mikið er í húfi, verkefnið umfangsmikið og lítill tími til stefnu.

Í álitinu segir jafnframt að líkt og aðrar þjóðir eigi Ísland enn í erfiðleikum með að koma markmiðum í framkvæmd. Hér á landi eru veikleikarnir einkum veik verkstjórn og eftirfylgni aðgerða, ómarkviss ráðstöfun fjármuna, skortur á  upplýsingamiðlun og takmarkað samráð við almenning.

Vel framsett landsframlag, sem unnið er í víðtæku samráði, getur orðið lykill að árangri í loftslagsmálum. Með slíkum grunni má styrkja framkvæmd aðgerða og tryggja að sett markmið náist.