Álit Loftslagsráðs um Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum
13. nóvember, 2024

Það stefnir í að árið 2024 verði heitasta ár frá upphafi mælinga. Sú röskun á loftslagi af mannavöldum sem þessu veldur hefur þegar aukið tíðni og umfang hamfara um heim allan með umtalsverðu eigna- og manntjóni.

Það er mikið í húfi fyrir Ísland að samstarf ríkja í baráttunni við loftslagsvandann skili árangri hratt og örugglega. Eins og nýleg skýrsla Vísindanefndar um loftslagsbreytingar staðfestir þá eru þegar komin fram umtalsverð áhrif á náttúru Íslands, atvinnuvegi, uppbyggða innviði og efnahag. Afleiðingar loftslagsvár utan landsteinanna munu ekki síður hafa mikil efnahags- og samfélagsleg áhrif hér heima. 

Loftslagsráð hefur tekið uppfærða aðgerðaáætlun Íslands í loftslagsmálum til umfjöllunar eins og því ber lögum samkvæmt og birt í skjalinu Framkvæmd loftslagsaðgerða – Álit Loftslagsráðs á endurskoðaðri Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum 

Þrátt fyrir endurskoðun er aðgerðaáætlun í loftslagsmálum ómarkviss. Skerpa þarf heildarstefnuna, samþætta ólíkar aðgerðir og samhæfa framkvæmdina við stefnumið í orku-, samgöngu-, matvæla- og ríkisfjármálum. Framkvæmd áætlunarinnar er ekki áfangaskipt með skýrum hætti, ábyrgð er oft óljós og margar aðgerðir ófjármagnaðar. Þessir veikleikar munu tefja framkvæmd, forgangsröðun og ráðstöfun fjármuna. Fjöldi aðgerða sem beinast að stórum uppsprettum losunar svo sem frá sjávarútvegi og landbúnaði eru enn óútfærðar sex árum eftir að fyrsta útgáfa áætlunarinnar var kynnt.  

Niðurstaða Loftslagsráðs er sú að nú þurfi að verða þáttaskil í framkvæmd loftslagsaðgerða. Stjórnvöld þurfa að sýna frumkvæði, stefnufestu, fyrirhyggju og fyrirsjáanleika í aðgerðum í loftslagsmálum sem skapa umgjörð og aðstæður fyrir sveitarfélög, atvinnulíf og almenning til að takast á við loftslagsvá. Allir ráðherrar næstu ríkisstjórnar og Alþingi þurfa að leggjast á eitt. Ríki, sveitarfélög og fyrirtæki sem horfast í augu við vandann og bregðast við í tæka tíð munu standa betur að vígi gagnvart þeim áskorunum sem framundan eru. Skýr langtímasýn og hugrekki þurfa að liggja til grundvallar fjárfestingum og ráðstöfun fjármuna.