Binda einhver ríki meira kolefni en þau losa?
2. maí, 2023

Alls hafa 93 lönd í heiminum, samkvæmt Climatewatch, lýst því yfir formlega að þau stefni að kolefnishlutleysi. Ísland er á meðal þeirra tuttugu landa sem hafa bundið slíkt markmið í lög, en Ísland skal verða orðið kolefnishlutlaust samkvæmt lögum árið 2040.

Kolefnishlutleysi er ekki einfalt markmið og hér gildir hið fornkveðna, að ekki er sopið kálið þótt í ausuna sé komið. Eins og Loftslagsráð hefur bent á, er mikilvægt að huga vel að leiðinni sem farin er í áttina að markmiðinu. Útblástur gróðurhúsalofttegunda þarf að minnka hratt og örugglega á þeirri leið. Að öðrum kosti safnast of mikið af útblæstri í andrúmsloftinu áður en hlutleysi er náð. Þá er skaðinn skeður. Hættan er sú, að með því að setja sér markmið um kolefnishlutleysi langt fram í tímann, missi þjóðir heims sjónar á því grundvallaratriði að útblástur þarf í raun að minnka nú þegar. Aðgerðum má ekki slá á frest.

Vonandi færist kapp í ríkisstjórnir eftir því sem markmiðin um kolefnishlutleysi verða fleiri og metnaðarfyllri. Hugsanlega blæs það ríkisstjórnum og almenningi von í brjóst ef þeim ríkjum fjölgar sem tekst raunverulega að ná kolefnishlutleysi.  Dæmi þeirra getur sýnt öðrum að markmiðið sé raunhæft. En hafa einhver ríki náð þessum áfanga? Og eru jafnvel einhver með minni en enga kolefnislosun? Með öðrum orðum: Binda einhver lönd meira kolefni en þau losa?

Athyglisvert bandalag

Engin alþjóðleg stofnun vottar formlega, enn sem komið er, hvort ríki hafi náð kolefnishlutleysi, en þónokkrir aðilar — þar á meðal Climatewatch — halda yfirlit yfir árangur þjóðanna og stöðu þeirra þegar kemur að útblæstri. Hvort ríki séu kolefnishlutlaus er því eins og staðan er núna mestmegnis byggt á fullyrðingum þeirra sjálfra, sem þó má vissulega rannsaka eftir ýmsum leiðum.

Á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Glasgow árið 2021, COP26, mynduðu þrjú ríki bandalag loftslagsjákvæðra ríkja ( e. The Alliance of carbon negative countries). Þessi ríki eru Surínam, Panama og Bútan. Víða á alnetinu, eins og til dæmis á síðunni World Population Review,  má lesa umfjallanir um að þessi ríki hafi náð hinum eftirsóknarverða áfanga, sem þó er byggt fyrst og fremst á fullyrðingum þeirra sjálfra.

En hvað einkennir þessi ríki og gerir það líklegt að þau bindi í raun meira kolefni en þau losa?

Bútan

Bútan er konungsdæmi byggt á Búddatrú, mitt á milli stórveldanna Kína og Indlands. Þar búa um 790 þúsund manns. Ríkið hefur meðal annars unnið sér það til frægðar að velmegun er þar ekki mæld í vergri þjóðarframleiðslu, eins og margar þjóðir gera, heldur styðjast stjórnvöld við hamingju- og sjálfbærnimælikvarða. Fullyrt er að Bútan sé fyrsta ríkið á síðari tímum sem hefur náð að snúa blaðinu við og fanga meira kolefni en það losar.

Árangurinn felst einkum í tvennu: Bútan framleiðir vatnsaflsorku í stórum stíl, notar bæði til eigin þarfa og flytur út til nágrannalanda, auk þess sem unnið hefur verið að innleiðingu sólar- og vindorku. Hins vegar er landið skógi vaxið og lög hafa verið sett í landinu sem banna útflutning á timbri. Í stjórnarskrá landsins er kveðið á um að skógur skuli aldrei þekja minna en 60% af landinu. Árið 2015 settu sjálfboðaliðar í Bútan heimsmet þegar gróðursett voru 49.672 tré á einni klukkustund. Hinn þétti skógur spilar lykilhlutverk í að binda það kolefni sem hagkerfið lætur frá sér.

Súrínam og Panama

Svipað er uppi á tengingnum í Súrínam og Panama. Bæði löndin eru skógi vaxin. Í Súrínam búa 620 þúsund manns, landið er strjálbyggt og skógur þekur yfir 90% af landsvæðinu. Lítil neysla vegna fátæktar er eflaust einnig ríkur þáttur í því að ríkið getur mögulega talist binda meira en það losar, þrátt fyrir að meginútflutningur þjóðarinnar felist í báxíti og olíu.

Í Panama er kolefnisbinding einnig mikil í þéttu skóglendi. Um 65% landsins er þakið skógi eða votlendi. Vel yfir 30% af því svæði er verndað og stjórnvöld hafa sett sér metnaðarfull markmið um endurheimt skóglendis. Velmegun er meiri í Panama en Súrínam og neyslustig því hærra, og landið er jafnframt fjölmennara en hin tvö, en í Panama búa um 4,5 milljón manns. Unnið er að því með orkuskiptum að gera hagkerfið algjörlega óháð jarðefnaeldsneyti.

Þess ber að geta, að yfirlýsingar um kolefnisstöðu Panama og Súrínam virðast mun fremur málum blandnar, heldur en í tilviki Bútan. Úr gögnum Climatewatch má reyndar lesa að þessi ríki eigi enn svolítið í land með að ná kolefnishlutleysi, hvað þá meira.

Rauður þráður

Samkvæmt Climewatch binda hins vegar Fijieyjar meira kolefni en þær losa. Á þeim rómuðu Kyrrahafseyjum búa um 900 þúsund manns, og eins og í tilvikum hinna landanna er kolefnisbinding í gróðri höfuðástæða góðrar kolefnisbirgðastöðu.  Fleiri ríki hafa lýst því yfir að þau bindi meira en þau losa, þó svo vafi kunni að leika á réttmæti þeirra yfirlýsinga. Þetta eru ríkin Guyana, Comoros, Gabon og Madagaskar. Þau eru öll skógi vaxin, en í sumum þeirra eins og í Madagaskar, eru blikur á lofti því eyðing skóglendis hefur þar verið töluverð á undanförnum árum.

Greina má rauðan þráð í meintri loftslagsjákvæðni þessara ríkja sem hér hefur verið fjallað um. Þau eru öll mjög gróðursæl. Mikil kolefnisbinding í gróðri, ásamt orkuskiptum, er lykillinn að því að þessi lönd geti talist binda meira kolefni heldur en þau losa frá sér.

Það skal því engan undra að tveir meginþættirnir, í safni um 50 tilgreindra aðgerða, í aðgerðaráætlun Íslands í átt að kolefnishlutleysi felist í orkuskiptum og endurheimt vistkerfa eins og náttúruskóga og framræsts votlendis, þótt vissulega þurfu mun meira til.