Loftslagsráð lýkur senn fjögurra ára skipunartíma sínum. Af því tilefni lagði ráðið mat á þann árangur sem náðst hefur, eða ekki náðst, síðustu fjögur árin í viðureigninni við loftslagsvá hérlendis og gaf út í skjali er nefnist: Uppgjör Loftslagsráðs.
Í skjalinu segir meðal annars: „Við blasir að aðgerðir stjórnvalda í loftslagsmálum hafa ekki skilað tilætluðum árangri. Samdráttur hefur einungis náðst á nokkrum sviðum en heildarlosun hefur aukist. Markviss loftslagsstefna með tímasettum og mælanlegum markmiðum liggur enn ekki fyrir, þó svo að aðgerðaáætlun sé til staðar. Verði ekki gripið í taumana mun Ísland ekki ná að uppfylla þær skuldbindingar um samdrátt fyrir 2030 sem það hefur undirgengist sameiginlega með bandalagsríkjum, og færast enn fjær markmiðinu um kolefnishlutleysi árið 2040. Við sem þjóð berum sameiginlega ábyrgð á að takast á við loftslagsvána og brýnt að kjörnir fulltrúar, bæði á Alþingi, sem og í sveitarstjórnum landsins, axli samábyrgð sína af mun meiri alvöru og þunga.“
Þar segir einnig: „Að áliti Loftslagsráðs er brýnast að stjórnvöld beiti sér fyrir eftirfarandi:
1. Móta verður markvissa loftslagsstefnu
2. Stórefla þarf og styrkja stjórnsýslu loftslagsmála á landsvísu og í sveitarfélögum
3. Skerpa þarf aðgerðir stjórnvalda og beita öllum stjórntækjum skilvirkar til að ná markmiðum
4. Nýta þarf sérfræðiþekkingu á breiðu sviði loftslagsmála við stefnumótun og eftirfylgni
5. Virkja þarf enn frekar getu stjórnvalda og atvinnulífs til að bregðast samtaka við loftslagsvánni
6. Bæta þarf verulega í rannsóknir og vöktun á losun frá landi til að undirbyggja ákvarðanir“
Sjá nánar í pdf útgáfu skjalsins: Uppgjör Loftslagsráðs, samþykkt á fundi ráðsins 15. júní 2023