Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna (IPCC) hefur nú birt matsskýrslu vinnuhóps 3 (WG III) um loftslagsbreytingar sem er hluti af sjöttu matsskýrsla IPCC sem kynnt verður í heild sinni síðar á árinu. Áður höfðu vinnuhópur 1 og vinnuhópur 2 birt sínar matsskýrslur. Í þessum hluta er lagt mat á stöðu þekkingar á mótvægisaðgerðum vegna loftslagsbreytinga og horft til vísinda, tækni, umhverfislegra, efnahagslegra og félagslegra þátta sem varða samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda (GHL) og bindingu kolefnis. Niðurstöðurnar eru hvatning til þess að bregðast hratt við.
Tekin hefur verið saman greinargóð lýsing á niðurstöðum skýrslunnar (IPCC WG6 III) og er hún aðgengileg hér á vefnum.
Hver er staðan? Er verið að gera nóg? Hverju getum við breytt?
Brynhildur Davíðsdóttir varaformaður Loftslagsráðs segir í þessu viðtali við Gunnar Dofra Ólafsson frá niðurstöður skýrslunnar og þýðingu hennar fyrir stefnu og aðgerðir í loftslagsmálum.
3. matsskýrsla IPCC um mótvægisaðgerðir from Loftslagsráð on Vimeo.
Helstu skilaboð skýrslunnar eru:
- Losun hefur aukist á heimsvísu og hefur hún aldrei verið meiri, en hægt hefur á aukningunni að meðaltali síðasta áratug að hluta til vegna stjórnvaldsaðgerða.
- Fyrirliggjandi aðgerðir á heimsvísu sem og landsframlög til loftslagsmála (NDC) duga ekki til að halda hitastigshækkun innan við 2 °C og eru fjarri því að ná að halda hækkun við 1,5°C þar sem hámarki í losun gróðurhúsalofttegunda þarf að ná árið 2025. Metnaður þarf því að aukast mikið og árangur aðgerða að margfaldast.
- Hægt er að ná umtalsverðum samdrætti með mótvægisaðgerðum sem byggja á tækni sem er þegar til. Áframhaldandi tækniþróun er þó afar mikilvæg.
- Margar mótvægisaðgerðir eru nú þegar samkeppnishæfar svo sem notkun endurnýjanlegrar orku í raforkuframleiðslu í stað jarðefnaeldsneytis og hefur kostnaður dregist mjög mikið saman síðustu ár.
- Víðfemar kerfisbreytingar þurfa að eiga sér stað til að styðja við mótvægisaðgerðir innan geira. Hegðunar- og lífsstílsbreytingar geta einnig skilað miklum samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda (GHL).
- Mikilvægt er að beita bæði reglugerðum og hagrænum stjórntækjum til að hvetja til innleiðingar mótvægisaðgerða og til að draga úr hindrunum þeirra. Samhæfa þarf fjármál hins opinbera við aðgerðir í loftslagsmálum.
- Mikilvægt er að ráðast í heildstæða stefnumótun í málaflokknum.
- Aðgerðir sem miða að því að draga úr losun GHL og auka bindingu til að halda hitastigshækkun innan 2 °C munu draga lítið úr hagvexti. En þegar fjölbreyttur ávinningur mótvægisaðgerða er tekinn til greina verður efnahagslegur ávinningur af aðgerðum og lífsgæði batna.
- Samlegðaráhrif eru á milli mótvægisaðgerða sem draga úr losun eða auka bindingu og sjálfbærrar þróunar en mikilvægt er að meta áhrif mótvægisaðgerða á náttúru og umhverfi (svo sem á líffræðilegan fjölbreytileika) og samfélag (svo sem jöfnuð).
- Skilvirk stefnumörkun, innleiðing sem og til að tryggja samfélagslega sátt um aðgerðir byggir á þátttöku og samvinnu stjórnvalda og fjölbreyttra aðila svo sem almennings og atvinnulífs. Lesa má nánar um niðurstöður skýrslunnar á vef Veðurstofunnar.
Formaður Loftslagsráðs var í viðtali um niðurstöður skýrslunnar á Morgunvakt Rásar 1 (mín. 33:00).
Varaformaður Loftslagsráðs var í viðtali um niðurstöður skýrslunnar í Speglinum á Rás 2.
Hvert er hlutverk matsskýrslna IPCC?
Skýrslum IPCC er ætlað að upplýsa þá sem taka ákvarðanir og móta stefnu í loftslagsmálum um vísindalega þekkingu á sviði loftslagsbreytinga. Þær eru mikilvæg heimild fyrir samfélög um heim allan, fyrir stefnumótun og ákvarðanatöku einstakra þjóðríkja og samningaviðræður um loftslagsbreytingar. Skýrslur IPCC eru hlutlausar, þ.e. þær taka ekki afstöðu til einstakra valmöguleika í stefnumótun og aðgerðum. IPCC framkvæmir ekki eigin rannsóknir heldur felst starf á vettvangi IPCC í því að mörg hundruð vísindamenn leggja tíma sinn í að meta vísindalega þekkingu sem liggur fyrir, tæknilegar og samfélagslegar rannsóknir.
Sjötta skýrsla IPCC er unnin af miklum metnaði og vandað til hennar og mikið gagnsæi er í öllu rýni á niðurstöður. Ferlið hefur krafist mikils af þeim sem að henni koma m.a. vegna kórónuveirufaraldursins sem hefur mótað allt ferlið og tímasetningar. Ríkisstjórnir og sérfræðingar rýna skýrsludrögin með ítarlegum hætti, línu fyrir línu, á gagnrýninn og gagnsæjan hátt.
IPCC mun birta alls átta matsskýrslur á tímabilinu 2015 til 2023, þar af þrjár skýrslur vinnuhópanna og heildarskýrslu (Synthesis Report) í september 2022 sem byggir á skýrslum vinnuhópanna sem gerðar. Þetta er í 6. sinn sem slík vinna er framkvæmd. Skýrslurnar munu innihalda nýjustu þekkingu á sviði loftslagsbreytinga og málefna sem þær snerta og vera vísindalegur grunnur í stefnumótun og við innleiðingu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna þegar kemur að mótvægis- og aðlögunaraðgerðum.