HLUTVERK OG SKIPAN LOFTSLAGSRÁÐS

Hlutverk og skipan

Loftslagsráð er sjálfstætt starfandi ráð sem hefur það meginhlutverk að veita stjórnvöldum aðhald með faglegri ráðgjöf um loftslagsmál.

Loftslagsráð sinnir hlutverki sínu með því að rýna áætlanir stjórnvalda sem snerta loftslagsmál, stuðla að upplýstri umræðu um aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka kolefnisbindingu sem og ráðgjöf um aðlögun að loftslagsbreytingum. Þá stendur Loftslagsráð fyrir fræðslu og miðlun upplýsinga, t.d. með skipulagningu eða þátttöku í málstofum og öðrum viðburðum um loftslagstengd málefni.

Árlega er gefin út starfsáætlun sem lýsir markmiðum ráðsins, áherslum og viðfangsefnum hverju sinni. Verkefni ráðsins eru skv. lögum eftirtalin:

  • veita ráðgjöf um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og aðgerðir til að auka kolefnisbindingu
  • veita ráðgjöf um aðlögun að loftslagsbreytingum
  • rýna á undirbúningsstigi áætlanir stjórnvalda sem snerta loftslagsmál
  • hafa yfirsýn yfir miðlun fræðslu og upplýsinga um loftslagsmál til almennings, fyrirtækja, stofnana og sveitarfélaga
  • rýna tillögur sem berast frá fagstofnunum um vöktun og rannsóknir sem tengjast loftslagsbreytingum
  • vinna að öðrum verkefnum sem ráðherra felur ráðinu hverju sinni.

Loftslagsráð sækir umboð sitt til laga um loftslagsmál (nr. 70/2012) eftir að þeim var breytt árið 2019. Það hafði áður starfað í eitt ár á grundvelli þingsályktunar. Ráðið hefur það meiginhlutverk að veita stjórnvöldum aðhald og ráðgjöf um stefnumarkandi ákvarðanir og markmið Íslands sem tengjast loftslagsmálum. Samkvæmt lögunum tilnefna fulltrúar atvinnulífsins, háskólasamfélagsins, sveitarfélaga og umhverfisverndarsamtaka fulltrúa í ráðið. Í lögunum er jafnframt kveðið á um að loftslagsráð skuli gæta óhlutdrægni og vera sjálfstætt í störfum sínum.

Vorið 2024 tók gildi reglugerð nr. 334/2024 um loftslagsráð. Kveður reglugerðin m.a. á um hæfniviðmið sem ráðherra skal hafa til hliðsjónar við skipan fulltrúa og vettvang til að tryggja reglulegt samtal við hagaðila. Fulltrúar í loftslagsráði eru einungis bundnir af eigin dómgreind og er það áréttað í fyrrnefndri reglugerð.

Samkvæmt reglugerðinni skulu fulltrúar loftslagsráðs búa yfir þekkingu og reynslu á a.m.k. einum af eftirtöldum málaflokkum á sviði loftslagsmála og fullskipað skal það búa yfir þekkingu á öllum ofangreindum sviðum:

  • Loftslagsrétti, stjórnsýslu og stefnumótun.
  • Loftslagsvísindum, áhættugreiningum og náttúruvá.
  • Skipulagi og landnýtingu.
  • Hagrænum og samfélagslegum greiningum.
  • Samfélagslegum breytingum og réttlátum umskiptum.
  • Líffræðilegum fjölbreytileika, kolefnishringrás lands og vistkerfisþjónustu.
  • Nýsköpun og tækniþróun.
  • Orkumálum í samhengi orkuskipta og kolefnishlutleysis.

 

Skipað var í ráðið á ný á grundvelli nýrrar reglugerðar 2024 og er ráðið nú skipað níu fulltrúum sem hafa reynslu og þekkingu af loftslagsmálum. Skipunartími er fjögur ár.

Loftslagsráð hefur sett sér starfsreglur sem setja umgjörð og viðmið þar sem kveðið er nánar á um starfsemi Loftslagsráðs. Þeim er ætlað að stuðla að trausti og trúnaði í samskiptum og við meðferð upplýsinga, bæði innan ráðsins og gagnvart utanaðkomandi aðilum, sem og að stuðla að gagnsæi í starfsemi ráðsins.

Loftslagsbreytingar

Loftslagsbreytingar af mannavöldum eru hnattrænn vandi. Öll losun gróðurhúsalofttegunda, hvar sem hún er á jarðarkringlunni, leiðir til aukins styrks koldíoxíðs í andrúmsloftinu. 

Fundargerðir

Loftslagsráð fundar reglulega og fjallar um áherslumál og verkefni, birtir álit og greinargerðir. Fundargerðir eru birtar opinberlega og eru aðgengilegar á vefnum.