Vinnustofa um ábyrga kolefnisjöfnun

Viðskipti með kolefniseiningar eru enn sem komið er umfangslítil í íslensku hagkerfi en ör vöxtur er fyrirsjáanlegur á þessum markaði. Það er því nauðsynlegt að tryggja að íslenskar kolefniseiningar standist alþjóðlegar gæðakröfur og byggi á viðurkenndri aðferðafræði þar sem stuðst er við staðlaðar mælingar og sammælt viðmið. Viðskipti með slíkar einingar þurfa einnig að vera gagnsæ og rekjanleg. Ekki er síður mikilvægt að kolefnisspor þeirrar starfsemi sem til stendur að kolefnisjafna sé metin með stöðluðum aðferðum. 

Loftslagsráð lét vinna úttekt sem leiddi í ljós að umtalsverðra úrbóta er þörf. Í áliti sem Loftslagsráð sendi frá sér í október sl. telur ráðið brýnast að ráðast í úrbætur á eftirfarandi veikleikum: 

  1. Mjög skortir á að alþjóðlega viðurkenndri aðferðafræði sé beitt við mælingar og útgáfu kolefniseininga sem leiðir til þess að einingar á markaði eru ekki sambærilegar og draga má í efa að sumar þeirra standist lágmarksgæðakröfur. 
  2. Það skortir miðlæga skráningu á útgáfu kolefniseininga, viðskiptum með slíkar einingar og afskráningu þeirra þegar þær eru nýttar til kolefnisjöfnunar. 
  3. Móta þarf viðmið um ábyrgar yfirlýsingar á samkeppnismarkaði og frá opinberum aðilum um að vara eða þjónusta hafi verið kolefnisjöfnuð. Slík viðmið þurfa að ná bæði til upplýsinga um kolefnisspor sem jafna skal og til eiginleika þeirra kolefniseininga sem nýta má til jöfnunar.

Þó ýmislegt jákvætt sé í farvatninu er of hægt farið og brýnt er að hraða úrbótum. Þær krefjast sameiginlegs átaks aðila á markaði, fagstofnana og stjórnvalda.

Staðlaráð og Loftslagsráð buðu hagaðilum að taka þátt í vinnustofu sem felur í sér samráð um ábyrga kolefnisjöfnun á Íslandi. Þrír fundir eru haldnir dagana 25. febrúar, 4. mars og 18. mars. Með vinnustofunni er stefnt  að því að ná sammæli þátttakenda um afstöðu og frekara samstarf um ábyrga kolefnisjöfnun. Takmarkið er að miðla þekkingu  um stöðu kolefnisjöfnunar á Íslandi, að teikna upp framtíðarsýn og kerfi sem tekur utan um þá hagsmuni sem varða hagaðila, s.s. stöðlun á framleiðslu og útgáfu kolefniseininga til að þær séu samanburðarhæfar, kröfur til skráningar, sölu og afskráningar kolefniseininga auk krafna til fyrirtækja um staðlaðar mælingar á kolefnisspori þeirra og yfirlýsinga um kolefnisjöfnun sem standast samkeppnislöggjöf og önnur viðmið um réttmæta viðskiptahætti. 

Í traustu og ábyrgu kerfi um kolefnisjöfnun á Íslandi verða til ómetanleg viðskiptatækifæri hér heima og erlendis, nýsköpun um kolefnisbindingu fær byr undir báða vængi og til verður sammæli um gagnsæja og ábyrga viðskiptahætti. Á sama tíma tökum við risastórt skref, sem lítil þjóð, við úrvinnslu áskorana sem blasa við á sviði loftslagsmála. 

Nánari upplýsingar um vinnustofuna veita Haukur Logi Jóhannsson hjá Staðlaráði, haukur@stadlar.is og Guðný Káradóttir hjá Loftslagsráði, gudny@loftslagsrad.is.