„Við þurfum að búa okkur undir breyttan heim“
Yfirlit
2
3

Skýrsla vinnuhóps 2 í sjöttu matsskýrslu Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC)  hefur verið birt. Hún fjallar um afleiðingar loftslagsbreytinga fyrir náttúru og samfélög og til hvaða úrræða megi grípa til þess að aðlagast breytingunum. Niðurstöðurnar sýna alvarlegar afleiðingar vegna röskunar á veðurfari og að samfélög víða eru að kljást við óafturkræfar afleiðingar sem komnar eru út fyrir mörk þess að hægt sé að beita aðlögunaraðgerðum. 

„Þessi skýrsla IPCC dregur skýrt fram mikilvægi þess að samfélög um heim allan grípi til aðgerða til að sporna við loftslagsbreytingum, ekki bara til að draga úr losun og fjarlægja gróðurhúsaloftegundir úr andrúmsloftinu, heldur líka til að aðlagast óumflýjanlegum áhrifum loftslagsbreytinga. Við þurfum að búa okkur undir breyttan heim“, segir Anna Hulda Ólafsdóttir, forstöðumaður skrifstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar á Veðurstofu Íslands, sem var ein af fulltrúum Íslands sem sátu nýafstaðið samþykktarþing Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um skýrslu vinnuhóps 2. 

Hér ræðir Gunnar Dofri Ólafsson niðurstöður skýrslunnar við Halldór Björnsson formann Vísindanefndar um loftslagsbreytingar og hópstjóra veðurs og loftslags á Veðurstofunni. Sjá einnig klippu úr samtali þeirra um aðlögunarstefnu fyrir Ísland og þörf á aðgerðum hér á landi

IPCC – Afleiðingar loftslagsbreytinga from Loftslagsráð on Vimeo.

Sixth Assessment Report, Working Group II – Impacts, Adaptation and Vulnerability

Helstu niðurstöður matsskýrslunnar eru: 

  • Loftlagsbreytingar af mannavöldum, þar með taldir tíðari og alvarlegri náttúrváratburðir, hafa valdið viðtækum og neikvæðum áhrifum í náttúrunni og tjóni í samfélögum þrátt fyrir aðlögunaraðgerðir vegna áhrifa loftslagsbreytinga. 
  • Á sumum svæðum hafa aukin aftök í veðri og veðurfari nú þegar ýtt vistkerfum og samfélögum út fyrir mörk aðlögunar, sem leiðir til óafturkræfra afleiðinga.
  • Viðkvæm vistkerfi og þau samfélög sem höllustum fæti standa hafa orðið verst úti. 
  • 3,3 miljarðar manna býr við aðstæður sem eru mjög viðkvæmar gagnvart loftslagsbreytingum og hátt hlutfall dýrategunda er sömuleiðis viðkvæmt fyrir loftslagsbreytingum. 
  • Talið er enn mikilvægara en áður að þróa samfélög um heim allan þannig að þau auki þanþol sitt gagnvart áhrifum loftslagsbreytinga. Þetta mat byggir á merkjanlegum áhrifum loftslagsbreytinga,  horfum varðandi áhættu þeim tengdum, ásamt líklegu  tjónnæmi samfélaga og aðlögunargetu þeirra. 
  • Vísindaleg gögn leiða til ótvíræðrar niðurstöðu: Loftslagsbreytingar eru ógn við velferð fólks og heilsu jarðar. Við frekari seinkun á samhentum aðgerðum á heimsvísu glatast tækifærið til að skapa lífvænlegri og sjálfbæra framtíð fyrir alla.  

Sjá nánar í frétt Veðurstofu Íslands en Veðurstofan fer með aðild Íslands að IPCC. 

Hlekkur á niðurstöður skýrslunnar, SIXTH ASSESSMENT REPORT, Working Group II – Impacts, Adaptation and Vulnerability

Sjá einnig skýrslu Loftslagsráðs frá janúar 2020, Að búa sig undir breyttan heim.