Úrbóta er þörf í kolefnisjöfnun hér á landi

Loftslagsráð hefur sent frá sér álit um ábyrga kolefnisjöfnun. Áður hafði Loftslagsráð látið vinna greinargerð um innviði kolefnisjöfnunar sem leiddi í ljós að úrbóta sé þörf.   

Í áliti ráðsins kemur fram m.a. að ábyrg kolefnisjöfnun er mikilvægur þáttur í heildstæðri loftslagsstefnu og hluti af vegferðinni að kolefnishlutleysi. Hún er hins vegar vandmeðfarin og því mikilvægt að tafarlaust verði ráðin bót á þeim veikleikum sem ráðið vekur athygli á.  

Það er mat Loftslagsráðs að ráðast þurfi í breytingar til að draga úr veikleikum og að úrbæturnar krefjist sameiginlegs átaks. Breytingarnar snúa að 1) aðferðafræði við mælingar og útgáfu kolefniseininga, 2) miðlægri skráningu á útgáfu kolefniseininga og 3) viðmið um ábyrgar yfirlýsingar. 

Þá hvetur Loftslagsráð Stjórnarráðið eindregið til að stuðla að því að viðskipti með kolefniseiningar hér á landi standist fjölþjóðlegar kröfur um gæði eininga, gagnsæi og rekjanleika. Samkeppnisyfirvöld þurfi einnig að hafa eftirlit með yfirlýsingum um kolefnisjöfnun vöru og þjónustu og tryggja að slíkar yfirlýsingar standist samkeppnislöggjöf og önnur viðmið um eðlilega viðskiptahætti. Sjá álitið í heild.

Ábyrg kolefnisjöfnun

Álit 26. október 2020
Viðskipti með kolefniseiningar eru enn sem komið umfangslítil í íslensku hagkerfi en ör vöxtur er fyrirsjáanlegur á þessum markaði. Það er því nauðsynlegt að tryggja að íslenskar kolefniseiningar standist alþjóðlegar gæðakröfur og byggi á viðurkenndri aðferðafræði við útgáfu kolefniseininga á grundvelli mælinga. Viðskipti með slíkar einingar þurfa einnig að vera gagnsæ og rekjanleg. Ekki er síður mikilvægt að kolefnisspor þeirrar starfsemi sem til stendur að kolefnisjafna sé metin með viðurkenndum aðferðum. Einnig þarf að vera ljóst hvort kolefnissporið takmarkist við beina losun frá viðkomandi starfsemi eða hvort einnig hafi verið lagt mat á hlutdeild í kolefnisspori annarra þátta virðiskeðjunnar. 

Úttekt  sem unnin var fyrir Loftslagsráð fyrr á þessu ári leiddi í ljós að umtalsverðra úrbóta er þörf. Ráðið kallaði lykilaðila til samráðs í kjölfarið í þeirri von að slíkt samráð leiddi til nauðsynlegra úrbóta. Þó ýmislegt jákvætt sé í farvatninu þá telur ráðið of hægt farið og að brýnt sé að hraða úrbótum.

Loftslagsráð telur brýnast að ráðast í úrbætur á eftirfarandi veikleikum:

  1. Mjög skortir á að alþjóðlega viðurkenndri aðferðafræði sé beitt við mælingar og útgáfu kolefniseininga sem leiðir til þess að einingar á markaði eru ekki sambærilegar og draga má í efa að sumar þeirra standist lágmarksgæðakröfur. 
  2. Það skortir miðlæga skráningu á útgáfu kolefniseininga, viðskiptum með slíkar einingar og afskráningu þeirra þegar þær eru nýttar til kolefnisjöfnunar.
  3. Móta þarf viðmið um ábyrgar yfirlýsingar á samkeppnismarkaði og frá opinberum aðilum um að vara eða þjónusta hafi verið kolefnisjöfnuð. Slík viðmið þurfa að ná bæði til upplýsinga um kolefnisspor sem jafna skal og til eiginleika þeirra kolefniseininga sem nýta má til jöfnunar.

Úrbætur krefjast sameiginlegs átaks aðila á markaði, fagstofnana, vottunaraðila og opinberra eftirlitsaðila. Loftslagsráð hvetur Stjórnarráðið eindregið til að stuðla að því að viðskipti með kolefniseiningar hér á landi standist fjölþjóðlegar kröfur um gæði eininga, gagnsæi og rekjanleika. Samkeppnisyfirvöld þurfa einnig að hafa eftirlit með yfirlýsingum um kolefnisjöfnun vöru og þjónustu og tryggja að slíkar yfirlýsingar standist samkeppnislöggjöf og önnur viðmið um eðlilega viðskiptahætti. 

Ábyrg kolefnisjöfnun er mikilvægur þáttur í heildstæðri loftslagsstefnu og hluti af vegferðinni að kolefnishlutleysi. Hún er hins vegar vandmeðfarin og því mikilvægt að tafarlaust verði ráðin bót á þeim veikleikum sem hér er vakin athygli á.

Nánari upplýsingar veita verkefnastjóri Loftslagsráðs, Guðný Káradóttir, gudny@loftslagsrad.is, sími 693 3233 og formaður ráðsins, Halldór Þorgeirsson, halldor@loftslagsrad.is, sími 897 2350.