Upptaka af fundi um loftslagsmál í Danmörku
Yfirlit
2
3

Miðvikudaginn 24. mars hélt Loftslagsráð opinn fund þar sem rýnt var í fyrirkomulag og reynslu Dana í stjórnun loftslagsmála. Ulla Blatt Bendtsen, yfirmaður alþjóðatengsla hjá danska loftslagsráðinu, Klimarådet, hélt fyrirlestur og síðan fóru fram umræður milli hennar og meðlima í Loftslagsráði.  

Ulla Blatt Bendtsen er yfirmaður alþjóðatengsla á skrifstofu danska loftslagsráðsins og vinnur jafnframt við greiningar (senior climate analyst). Hún hefur meira en 30 ára reynslu af störfum á vettvangi umhverfis- og orkumála og loftslagsbreytinga. Hún hefur m.a. starfað fyrir danska umhverfisráðuneytið og Orkustofnun Danmerkur og sem ráðgjafi fyrir stjórnvöld í Mexíkó. 

Fyrirlesturinn fjallaði um eftirfarandi: 

  • Markmið Danmerkur í loftslagsmálum
  • Hlutverk danska loftslagsráðsins
  • Löggjöf í loftslagsmálum og eftirlitsferli
  • Ráðgjöf í stefnumótun og aðgerðum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda
  • Áhrif loftslagsráðsins 

Danska loftslagsráðið er skipað níu sérfræðingum sem allir eru úr háskólasamfélaginu úr ólíkum fræðigreinum sem snerta loftslagsmál í breiðum skilningi. Starfsmenn skrifstofunnar 22. Hlutverk ráðsins, sem stofnað var árið 2015, er þríþætt. Í fyrsta lagi er það til ráðgjafar ríkisstjórninni og þinginu við mótun stefnu í loftslagsmálum. Í öðru lagi er það nokkurs konar varðhundur, þ.e. að fylgjast með og gefa skýrslu um framgang mála, hvernig Dönum gengur að ná markmiðum sínum í loftslagsmálum og standa við alþjóðlegar skuldbindingar, hvort nóg sé að gert af hálfu stjórnvalda. Í þriðja lagi að taka þátt í og hvetja til almennrar umræðu um stefnu í loftslagsmálum og að virkja gerendur. Með breytingu á loftslagslögum á síðasta ári bættist við ákvæði um að ráðið skuli meta hvort Danmörk sé á réttri leið í að ná markmiðum sínum og að þinginu skuli gert viðvart um stöðuna. 

Í febrúar árlega kemur út stöðuskýrsla ráðsins með tillögum að aðgerðum og í apríl eru upplýsingar birtar um losunartölur. Í september birta stjórnvöld aðgerðaáætlun, í nóvember afgreiðir þingið fjármálaáætlun og í desember gefur ráðherra þinginu skýrslu um stöðu í loftslagsmálum og aðgerðir. 

Danmörk hefur sett sér sjálfstætt markmið um 70% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda árið 2030 en fylgir einnig markmiðum Evrópusambandsins sem nýlega gaf út markmið um 55% samdrátt til ársins 2030 m.v. árið 1990. Í skýrslu loftslagsráðsins frá því í febrúar sl. (Statusrapport 2021) kemur fram það álit ráðsins að aðgerðir stjórnvalda bendi ekki til þess að líkur séu á að Danmörk nái markmiðum sínum um 70% samdrátt árið 2030 miðað við þær aðgerðir sem kynntar hafa verið. Í skýrslunni eru leggur ráðið líka til mögulegar leiðir til að auka metnaðinn svo markmiðunum verði náð. 

Með lagabreytingu sem gerð var á síðasta ári kom inn ákvæði um stjórnvöld þurfa að bregðast við áliti ráðsins. Þá er í lögunum kveðið á um hvaða atriði skulu höfð að leiðarljósi við mat á stöðunni og í tillögum ráðsins. Í lögunum (1. kafli, 3. grein) er tilgreint: 

  1. Loftslagsváin er alþjóðleg áskorun og Danmörk er forystuland á alþjóðavettvangi í loftslagsmálum. Danmörk skal veita öðrum löndum innblástur og hafa áhrif til góðra verka á alþjóðavettvangi.
  2. Markmiðum í loftslagsmálum skal náð á eins hagkvæman hátt og kostur er, bæði m.t.t. langtímasjónarmiða í grænum umskiptum, sjálfbærrar þróunar í atvinnulífinu og samkeppnishæfni, heilbrigðra opinberra fjármála og starfa/atvinnumála, sem og að störf í landinu skuli þróast en ekki leggjast af. 
  3. Tryggja skal að samhliða grænum umskiptum er lögð áhersla á að viðhalda sterku velferðarsamfélagi og félagslegu jafnvægi.
  4. Þær aðgerðir sem ráðist er í til að draga úr losun skulu hafa í för með sér raunverulega minnkun gróðurhúsalofttegunda og tryggja skal að starfsemi danskra aðila flytjist ekki til annarra landa og hafi þar í för með sér áframhaldandi losun.

Að kynningunni lokinni fóru fram umræður.