Tölum skýrt og verum hreinskilin til að vita hvar við stöndum

Á Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP28, í lok þessa árs verður í fyrsta skipti kynnt svokallað stöðumat heimsins, eða global stock take. Stöðumatinu er ætlað að gefa nákvæma mynd af því hvar þjóðir veraldar eru staddar þegar kemur að aðgerðum í loftslagsmálum, í samræmi við ákvæði Parísarsamningsins.

Nú þegar liggur fyrir að langt er í land þegar kemur að því að ná markmiðum um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu, og fyrirliggjandi skýrslur sýna að á mörgum mikilvægum mælikvörðum í loftslagsmálum stefna þjóðir heimsins beinlínis í ranga átt. Ekki þarf einungis að draga úr losun, sem þarf að gerast mun hraðar, heldur þarf einnig — ásamt öðru — að grípa til aðgerða til aðlagast loftsbreytingum og efla fjárstuðning við þau ríki sem verst verða fyrir barðinu á breytingunum. Allt þetta gengur hægt.

Stöðumatið er hugsað sem viðbragð við þessum veruleika. Ferillinn hefur staðið yfir síðustu tvö ár, með þátttöku allra aðildarþjóða Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna, og lýkur á COP28 með birtingu niðurstaðna. Niðurstöðurnar munu gera þjóðunum kleift að sjá nákvæmlega hver staðan er í viðureigninni við loftslagsvána og hvað þurfi að gera betur til að ná markmiðum Parísarsáttmálans.  Stöðumatinu munu fylgja tillögur um aðgerðir, leiðarvörður og markmið til lengri og skemmri tíma. Þann leiðarvísi geta þjóðirnar haft til grundvallar þegar næstu landsframlög hvað varðar losun gróðurhúsalofttegunda og aðgerðaráætlanir í loftslagsmálum skulu kynntar árið 2025.

Urmull af gögnum

Stöðumatið fer fram með kerfisbundnum hætti og er áskilið hvaða gögn skulu liggja því til grundvallar. Þjóðirnar skulu taka saman magn losunar, sundurgreint eftir uppruna og einnig umfang kolefnisbindingar, bæði þeirrar sem á sér stað í náttúrulegum ferlum og í krafti sérstakra aðgerða, t.d. með notkun tækninýjunga í kolefnisbindingu. Þegar allt er saman tekið munu þessar upplýsingar sýna hver staða losunar er innan hvers þjóðríkis. Í því samhengi skal einnig metið hver áhrifin af landsframlögum þjóðanna til að draga úr losun hafa orðið og upp að hvaða marki þær áætlanir hafi staðist.

Þegar kemur að aðlögun að loftslagsbreytingum kveður stöðumatið á um að staða aðlögunarverkefna sé kortlögð og einnig staða fjármögnunar á aðlögunarverkefnum, sem og verkefnum sem lúta að samdrætti í losun. Í raun felur stöðumatið í sér allsherjar mat á stöðu loftslagsaðgerða á öllum sviðum samfélagsins.  Þannig þarf matið ekki einungis að sýna stöðu opinberra verkefna og hvort fjármagn rennur til þeirra verkefna, heldur einnig hvort gripið hafi verið til aðgerða til að auka skilning á samfélaginu á eðli og umfangi loftslagsbreytinga, hvort samvinna hafi verið aukin milli aðila og stuðningur veittur til að takast á við afleiðingar og/eða fyrirbyggja afleiðingar loftslagsbreytinga. Yfirlit yfir slík atriði skal liggja til grundvallar stöðumati hvers ríkis.

Mikil eftirvænting

Þannig á stöðumatið að þjóna tilgangi ekki einungis sem kortlagning á stöðunni eins og hún er, heldur líka sem leið til þess að meta hvar árangur hafi helst náðst og hvar þurfi að bretta upp ermar. Á grunni slíkra upplýsingar verður hægt að varða leiðina betur í átt að meiri árangri. Hægt verður að skilgreina betur veikleika núverandi aðferða og nálgana, sem og styrkleika. Auðveldara verður jafnframt að svara spurningum sem lúta að ýmsum ólíkum, en samverkandi, þáttum loftslagsaðgerða. Eru aðgerðirnar réttlátar? Eykst jöfnuður? Eru til góð dæmi um alþjóðlega samvinnu, sem skilað hefur árangri og er til eftirbreytni? Hverjar eru helstu hindranir og úrlausnarefni sem blasa við í þróunarríkjum, eins og staðan er í dag?

Gert er ráð fyrir að stöðumat af þessu tagi verði unnið með reglubundnum hætti frá og með COP28 og ljóst að mikil eftirvænting ríkir nú í aðdraganda þess fyrsta. Í grundvallaratriðum snýst þessi vinna um að innleiða nokkuð einföld boðorð inn í hið ógnarstóra viðfangsefni sem framundan er í loftslagsmálum: Tölum skýrt. Verum hreinskilin. Vitum hvar við stöndum.