Öflug þekking og vísindaráðgjöf er mikilvæg til að bæta stefnumótun og ákvarðanatöku í loftslagsmálum hér á landi. Í úttekt sem Loftslagsráð lét gera árið 2020 um framtíðarskipulag stjórnsýslu loftslagsmála  var vakin athygli á mikilvægi öflugrar vísindaráðgjafar sem forsendu skilvirkrar stefnumörkunar og ákvarðanatöku í loftslagsmálum og spurt hvernig vísindin birtast í ákvarðanatöku eins og staðan er í dag. Í úttektinni var einnig vikið að mikilvægi Vísindanefndar um loftslagsbreytingar og stuðningi við starf hennar í Loftslagssetri, sem þá var á teikniborðinu, og hefur nú verið komið á fót undir nafni skrifstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar  hjá Veðurstofu Íslands. Full þörf var talin á því að Loftslagsráð tjáði sig frekar um stöðu vísindaráðgjafar í þessu sambandi og samspili hennar við þróun nýsköpunar, rannsókna og vöktunar. Það skortir heildaryfirsýn yfir stöðuna í dag, veikleika sem ráða þarf bót á og tækifæri sem felast í sókn á þessu sviði. 

Loftslagsráð og Stofnun Sæmundar fróða við Háskóla Íslands réðust því í greiningu á stöðunni og hafa niðurstöður verið gefnar út í samantekt, Þekking í þágu loftslagsmála.

Bakgrunnur og markmið

Markmið þessarar greiningar er að gefa yfirsýn og leggja grunn að sókn í átt að þverfræðilegri og öflugri vísindaráðgjöf um loftslagsmál á Íslandi sem skili skýrri stefnu og ákvörðunum sem byggja á traustri þekkingu. Greiningin byggir á samtali við fjölbreyttan hóp aðila sem koma að vísindaráðgjöf í loftslagsmálum á mismunandi stöðum í virðiskeðju hennar. Með loftslagstengdri vísindaráðgjöf er átt við alla beitingu vísindalegrar þekkingar og mælinga við ákvarðanatöku stjórnvalda hvort sem hún er formleg eða óformleg. 

Fyrirkomulagi vísindaráðgjafar á Íslandi er lýst; hlutverki og ábyrgð, fjármögnun og hvernig vísindaráðgjöf er nýtt til stefnumótunar stjórnvalda og/eða ákvarðanatöku. Einnig er dregið fram hvaða farvegir eru til staðar, eða ættu að vera til staðar, til að miðla og byggja upp vísindalega þekkingu og til að samskipti þeirra sem veita hana og þiggja séu skýr. Þetta er mikilvægt svo hægt sé að leggja gagnsætt mat á vísindaráðgjöf hér á landi og þýðingu hennar fyrir ákvarðanatöku í loftslagsmálum. 

Helstu niðurstöður

Niðurstöður greiningarinnar sýna að skerpa þarf á hlutverkum margra aðila. Þeir sem rætt var við hafa almennt mikinn áhuga á að taka þátt í vísindaráðgjöf á þessu sviði og axla meiri ábyrgð. Mikið vantar upp á að skýr farvegur sé til staðar fyrir gagnkvæm samskipti stofnana , þekkingarfyrirtækja og stjórnvalda um rannsóknir og greiningar. Einnig er kallað eftir auknu fjármagni og eflingu mannauðs til að hægt sé að sinna öflugri vísindaráðgjöf í loftslagsmálum. 

Á grundvelli þessarar greiningar má álykta að eftirfarandi þættir séu mikilvægastir til að treysta vísindalegan grunn ákvarðana í loftslagsmálum. 

  • Skilgreina og formfesta þarf hlutverk og ábyrgð til að byggja upp og nýta vísindalega þekkingu í stefnumörkun og ákvarðanatöku í loftslagsmálum. Skapa þarf vettvang fyrir samskipti eða farveg fyrir umræðu og mótun stefnu sem byggir á vísindalegri nálgun.
  • Efla þarf rannsóknir á ýmsum sviðum loftslagsmála og bæta gagnasöfnun, sem nýtist bæði til að bæta skýrslugjöf Íslands á alþjóðavettvangi og við að dýpka skilning á mögulegum aðgerðum og áhrifum þeirra. Stórefla þarf aðkomu félags- og hugvísinda að rannsóknum og greiningum.
  • Forsenda þess að hægt sé að auka rannsóknir og vöktun er að slík verkefni séu fjármögnuð og að til staðar sé mannauður til að sinna þeim. Mikil þekking liggur víða hjá sérfræðingum í ýmsum stofnunum en auka þarf svigrúm þeirra til að sinna rannsóknar- og vísindastarfi í þágu loftslagsmála. Þá þarf að fá fleiri til að mennta sig á fagsviðum sem tengjast loftslagsmálum og gera rannsóknarstarf eftirsótt.
  • Heildstæð langtímasýn þjóðarinnar í loftslagsmálum og skýr loftslagsstefna þarf að liggja fyrir til að vísindin þjóni hlutverki sínu og að tryggt sé að samfella verði í rannsóknum og vöktun. Langtímasýnina þarf að móta með þverlægum hætti í stjórnkerfinu.
  • Kerfislæg umskipti eru nauðsynleg til að tryggja kolefnishlutlaust samfélag til framtíðar og til að aðlagast þeim breytingum sem verða vegna loftslagsbreytinga. Til að slík umskipti verði réttlát þarf að vera til staðar öflug vísindaráðgjöf um áhrif umskiptanna í samfélaginu. 
  • Kerfislæg umskipti kalla á miklar fjárfestingar og því er mikilvægt að tryggja að fjárfestingarnar þjóni loftslagsmarkmiðum. Auka þarf þekkingu, setja viðmið og bæta greiningar á fjárfestingum út frá loftslagssjónarmiðum. 
  • Hagstjórn og áætlanagerð stjórnvalda þarf að taka mið af loftslagsmarkmiðum og greina þarf áhrif loftslagsbreytinga á efnahagslíf og fjármálastöðugleika. Haglíkön þurfa að vera þannig úr garði gerð að þau nýtist í kolefnishagstjórn.