Skrifstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar komið á fót


Í dag 5. maí tilkynnti Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra á ársfundi Veðurstofu Íslands, að komið verði á fót skrifstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar á Veðurstofunni. Með stofnun skrifstofunnar verður til vettvangur sem mun þjónusta brýn verkefni á sviði aðlögunar, hún mun leggja til sviðsmyndir að loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra, auk vöktunar á afleiðingum. Skrifstofan verður sameiginlegur vettvangur háskólasamfélagsins, Rannís, fagstofnana og hagaðila, brú milli vísinda og samfélags.

Í skýrslu sem Loftslagsráð sendi frá sér á síðasta ári, Að búa sig undir breyttan heim, kom fram að auka verði rannsóknir og vöktun á áhrifum loftslagsbreytinga á Íslandi og afleiðingum þeirra fyrir íslenskt samfélag. Stofnun skrifstofunnar er því mikilvægt skref í aðlögunarmálum. 

Hægt er að nálgast upptöku af ársfundi Veðurstofu Íslands hér á vefnum, hlusta á áhugaverð erindi og pallborðsumræður. Varaformaður Loftslagsráðs, Brynhildur Davíðsdóttir, flutti erindi um leiðina til aðlögunar vegna loftslagsbreytinga og formaður Loftslagsráðs, Halldór Þorgeirsson stýrði pallborðsumræðum.