Sjávarútvegur sér mörg tækifæri í loftslagsmálum

Loftslagsráð bauð aðilum úr sjávarútvegi og sérfræðingum til samtals um loftslagsvæna uppbyggingu greinarinnar þann 2. júní sl.  Markmiðið með er að varpa ljósi á sóknarfæri sem felast í krefjandi markmiðssetningu og loftslagsvænum fjárfestingum, koma á virkara samtali við framfaraöfl innan atvinnugreina og um nýsköpunarstarf, sem og að setja umræðu um 2030 markmið í loftslagsmálum í samhengi við áfanga í átt að kolefnishlutleysi. Á þessum viðburði var leitast við að varpa ljósi á losun gróðurhúsalofttegunda frá sjávarútvegi, ástæður fyrir samdrætti á síðustu árum skoðaðar og rætt hvernig auka megi metnaðinn og framtíðarsýn greinarinnar. Margar áhugaverðar og raunhæfar lausnir komu fram um hvernig megi draga úr losun til skemmri og lengri tíma.

Þátttakendur voru:  

  • Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri nýsköpunar, samfélagsábyrgðar og fjárfestatengsla hjá Brim
  • Pétur H. Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis í Grindavík
  • Sveinn Agnarsson, hagfræðingur, prófessor við viðskiptadeild HÍ
  • Bjarni Hjartarson, farartækjahönnuður hjá NAVIS 

Í upphafi kynnti Snjólaug Ólafsdóttir fundarstjóri helstu tölur um losun gróðurhúsalofttegunda frá sjávarútvegi, sagði frá árangri sem náðst hefur í samdrætti losunar og aðgerðum sem snerta sjávarútvg í aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum. 

Árangur sá sem náðst hefur með minni olíunotkun á fiskiskipum má þakka fiskveiðistjórnunarkerfinu, sterkari fiskistofnum almennt, endurnýjun skipa og bættri orkunýtingu, breytingu á tækni og framleiðsluháttum. Olíunotkun íslenskra fiskiskipta 2020 er 33% minni en árið 2005. 

Í umræðunni á fundinum kom fram að það sé vissulega óvissa um hvaða tækni og orkugjafar verði ofan í framtíðinni. Bent var á að til staðar eru lausnir sem í dag henta í minni báta og reynslan af rafvæðingu þeirra kemur til með að nýtast í lausnir fyrir stærri skipin. Brýnt er að fara í ákveðnar aðgerðir strax og voru nefnd dæmi um slíkar aðgerðir s.s. aðgangi að rafmagni og heitu vatni í höfnum, betri orkunýtingu og kenna orkusparandi hegðun. Þegar fjárfest er í tæknibúnaði þarf að huga að því að velja ávallt umhverfisvænasta kostinn. Rætt var um hvata til fjárfestinga og leiðir til að hraða innleiðingu orkuskipta.

Samstarf við tæknifyrirtæki og frumkvöðla hefur lengi verið náið og mikið í sjávarútvegi. Slíkt muni áfram verða til staðar og mikilvægur hluti af lausninni, þ.e. við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í sjávarútvegi og virðiskeðju greinarinnar. Íslenskt hráefni getur nýst í framleiðslu á umbúðum hér á landi og dregur það stórlega úr losun vegna flutninga á óumhverfisvænum umbúðum til landsins. Þá er í gangi mikilvæg þróunarvinna við orkugeymslur fyrir rafeldsneyti sem líklegt er talið að nýtist sjávarútveginum vel.  

Upptaka frá fundinum

Viðtöl við þátttakendur

Sjá má fleiri viðtöl á Vimeo síðu Loftslagsráðs.