Sjávarútvegur: samtal og sókn í loftslagsmálum 2. júní

Loftslagsráð býður aðilum úr sjávarútvegi til samtals og sóknar í loftslagsmálum. Markmiðið er að varpa ljósi á sóknarfæri sem felast í krefjandi markmiðssetningu og loftslagsvænum fjárfestingum, koma á virkara samtali við framfaraöfl innan atvinnugreina og um nýsköpunarstarf, sem og að setja umræðu um 2030 markmið í loftslagsmálum í samhengi við áfanga í átt að kolefnishlutleysi. 

Rætt verður um tækifæri og áskoranir í loftslagsvænni uppbyggingu sjávarútvegs til framtíðar. Samtalinu verður streymt á vefnum miðvikudaginn 2. júní kl. 13-14. Vinsamlegast skráið ykkur og fáið sendan streymislink.

Á þessum viðburði verður varpað ljósi á losun gróðurhúsalofttegunda frá sjávarútvegi, ástæður fyrir samdrætti á síðustu árum skoðaðar og rætt hvernig auka megi metnaðinn, áskoranir og tækifæri, sem og að tengja loftslagsmetnað við framtíðarsýn greinarinnar. Nálgunin er út frá lífsferilsgreiningu og skrefum sem geta aukið verðmætasköpun á hverja einingu losunar. 

Þátttakendur í samtalinu eru:

  • Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri nýsköpunar, samfélagsábyrgðar og fjárfestatengsla hjá Brim 
  • Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis
  • Sveinn Agnarsson, hagfræðingur, prófessor við viðskiptadeild HÍ 
  • Bjarni Hjartarson, farartækjahönnuður hjá NAVIS 

Fulltrúar í Loftslagsráði sem taka þátt í samtalinu eru Halldór Þorgeirsson, formaður sem starfaði áður m.a. hjá Loftslagssamningi SÞ og Hrönn Hrafnsdóttir, umhverfis- og auðlindafræðingur sem starfar sem sérfræðingur á umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar fulltrúi sveitarfélaga. Fundarstjóri er Snjólaug Ólafsdóttir ráðgjafi í sjálfbærnimálum hjá EY.