Samtal um millilandasamgöngur 14. mars

Samtal og sókn

Samtal og sókn er röð viðburða sem tengjast skuldbindingum Íslands í loftslagsmálum og rýni á möguleika til að ná megi markmiði um kolefnishlutlaust Ísland árið 2040.

Þann 14. mars nk. kl. 14 býður Loftslagsráð upp á streymi frá samtali sérfræðinga og hagaðila um millilandasamgöngur. Markmiðið er að varpa ljósi á stöðu Íslands, sóknarfæri og raunhæfar leiðir til að ná markmiðum í að minnka losun gróðurhúsalofttegunda frá millilandasamgöngum (flugi og siglingum) og vörður á vegferð í átt að kolefnishlutleysi. Lagt er upp með eftirfarandi megin spurningar:

  • Hver er staðan í dag og hvernig vörðum við leiðina að markmiðum til framtíðar?
  • Hvernig er þróun á kerfum sem ætlað er að halda utan um og hvetja til minni losunar?
  • Hvar og hvernig geta íslensk stjórnvöld beitt sér? Er verið að gera nóg?
  • Hvar og hvernig geta hagaðilar/fyrirtæki beitt sér? Er verið að gera nóg?
  • Hvað getum við lært af öðrum þjóðum og alþjóðasamstarfi?

Við fáum áhugaverða fyrirlesara og pallborðsumræður um þetta mikilvæga málefni mánudaginn 14. mars nk. kl. 14 og sendum út streymi frá samtalinu á vefnum. Sjá streymishlekk.

Er hægt að ná kolefnishlutleysi í siglingum 2050?

Bo Cerup-Simonsen, forstjóri Mærsk Mc-Kinney Møller Center for Zero Carbon Shipping mun halda fyrirlestur um siglingageirann á heimsvísu, vegferð hans í átt að kolefnishlutleysi og þau umskipti sem þurfa að eiga sér stað. Mærsk setti á fót þennan rannsóknar- og nýsköpunarvettvang og hafa fjölmörg fyrirtæki í siglingum og tengdum greinum gerst aðilar að vettvanginum.

Hvernig getur fluggeirinn náð markmiðum sínum í kolefnishlutleysi árið 2050? 

Laurent Donceel er yfirmaður sjálfbærni og loftslagsstefnu (Senior Policy Director) hjá samtökunum Airlines for Europe. Félög innan samtakanna fluttu 720 milljón farþega í 3.000 flugvélum árið 2019. Samtökin beittu sér fyrir því að setja á fót  verkefnið sem er vegvísir að því hvernig ná megi kolefnishlutleysi í flugi innan Evrópu árið 2050.

Að loknum fyrirlestrum verða pallborðsumræður sem Aðalheiður Snæbjarnardóttir stýrir en hún er fulltrúi Festu í Loftslagsráði. Þátttakendur í umræðunum eru: 

  • Heiða Njóla Guðbrandsdóttir, aðstoðar framkvæmdastjóri rekstarasviðs Icelandair 
  • Hilmar Pétur Valgarðsson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Eimskips  
  • Kristinn Aspelund, framkvæmdastjóri Ankeris
  • Reynir Smári Atlason, stjórnarmeðlimur í IcelandSIF, samtökum um ábyrgar fjárfestingar og sérfræðingur í sjálfbærni hjá Landsbanka

Upptaka af viðburði:

Samtal og sókn um millilandasamgöngur 14. mars from Loftslagsráð on Vimeo.

Vægi millilandasamgangna og aþljóðaskuldbindingar

Flugferðir valda um 2% af losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu og siglingar um 3%. Þessi losun hefur aukist hratt og munu halda áfram að aukast hratt ef ekkert verður að gert. Þjóðir heims vinna sameiginlega að því að draga úr þessari losun. Millilandasamgöngur falla ekki undir skuldbindingar ríkja á vettvangi loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (UNFCCC) en aðgerðir eru samræmdar innan Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO) og Alþjóðasiglingamálstofnunarinnar (IMO) og er Ísland aðili þeim báðum.  

Samvinna ríkja innan ICAO hefur m.a. leitt af sér stofnun nýs hnattræns markaðskerfis, CORSIA, sem er ætlað að tryggja að vöxtur í alþjóðaflugi verði kolefnishlutlaus frá árinu 2021. Stefna og aðgerðir til að minnka losun frá millilandasiglingum eru unnar á vettvangi MARPOL-samningsins sem er alþjóðasamningur á vegum IMO um varnir gegn mengun frá skipum. Aðilar að IMO stefna að því að draga úr losun frá alþjóðlegum siglingum um a.m.k. 50% fyrir árið 2050, miðað við 2008.

Evrópusambandið (ESB) hefur lengi beitt sér fyrir aðgerðum til að draga úr losun frá alþjóðlegu flugi og siglingum.

Viðskiptakerfi sambandsins með losunarheimildir nær yfir flug innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) og er ætlunin að innleiða kröfur CORSIA-kerfisins gegnum viðskiptakerfið. Einnig er stefnt að því að fella sjóflutninga innan EES og til og frá þriðju ríkjum undir kerfið frá árinu 2023.

Þar sem Ísland er eyja skipta millilandasamgöngur og -flutningar óhjákvæmilega miklu máli enda eingöngu hægt að flytja fólk og vörur með skipum eða flugvélum til og frá landinu. Greiðar flutningaleiðir um loft og haf eru þannig grundvöllur að hagsæld og lífsgæðum landsmanna. 

Heildarmagn innfluttra vara til Íslands á árunum 2010-2020 hefur verið að meðaltali 4,8 milljónir tonna og fór hæst í tæplega 6 milljónir tonna árið 2018. Heildarmagn útflutnings hefur verið að meðaltali 2,2 milljónir tonna 2010-2020 skv. tölum frá Hagstofu Íslands.

Erlendir ferðamenn á Íslandi voru flestir árið 2018 þegar þeir voru 2,3 milljónir um Keflavíkurflugvöll og samtals um 2,8 milljónir með farþegum skemmtiferðaskipa (áætluð tala), Norrænu og um flugvellina á Akureyri og í Reykjavík. Áhrifa Covid gætir verulega árið 2020 þegar erlendir ferðamenn voru einungis tæplega 500.000. Þá voru ferðir Íslendinga voru 401.212 árið 2020 skv. upplýsingum á vef Ferðamálastofu.