Rýni Loftslagsráðs á fyrstu stöðuskýrslu aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum
desember, 2021

Umfjöllunarefni

Loftslagsráð fagnar því að fyrsta stöðuskýrsla aðgerðaáætlunar í loftlagsmálum sé komin út. Skýrslan er mikilvægur þáttur í eftirfylgni með aðgerðaáætluninni og í miðlun upplýsinga til hagaðila og almennings um mat á árangri. Þessi fyrsta stöðuskýrsla sýnir þó ekki hversu nálægt loftslagsmarkmiðum sínum Ísland er. Eftirfylgni með áætluninni er ófullnægjandi að mati ráðsins. Óheppilegt er að ekki sé búið að fastsetja hver hlutdeild Íslands er í uppfærðu markmiði ESB, Noregs og Íslands um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Þetta dregur úr gildi stöðuskýrslunnar þar sem töluleg markmið sem tilgreind eru í skýrslunni munu taka breytingum. Mikill fjöldi aðgerða er enn í mótun og ekki er ljóst hvenær þær komast á framkvæmdastig.

Helstu ábendingar

  • Heildarmat á raunstöðu miðað við framsett markmið um samdrátt ekki til staðar. Stöðuskýrslur þurfa að fela í sér heildarmat á því hversu hratt miðar í átt að þeim markmiðum sem sett hafa verið. Byggja þarf slíkt árangursmat á viðurkenndri aðferðafræði og taka mið af reynslu annarra þjóða. Í stöðuskýrslu ættu að koma fram upplýsingar um tekjur og kostnað við hverja aðgerð auk verk- og kostnaðaráætlunar aðgerða næsta árs svo forgangsröðun hins opinbera komi skýrt fram.
  • Árangursmælikvarðar ekki skilgreindir fyrir allar aðgerðir. Mikill fjöldi aðgerða er enn í mótun og ekki er ljóst hvenær þær komast á framkvæmdastig. 
  • Tölulegar greiningar sem hluti af reglulegri vöktun á væntum árangri loftslagsaðgerða. Greining á væntum árangri lá fyrir í sumum tilfellum í upphafi en slíkar greiningar þurfa nú að verða virkur hluti af framkvæmdinni með stöðugri endurskoðun á forsendum og beinum tengingum árangursmælikvarða við samdrátt í losun.
  • Árangursmælikvarðar verða að vera tengdir við greiningar á losun. Við endurskoðun áætlunarinnar árið 2020 voru skilgreindir árangursmælikvarðar fyrir hverja aðgerð. Þessir árangursmælikvarðar eru grunnur stöðuskýrslunnar en hafa ekki verið tengdir við greiningu á losun gróðurhúsalofttegunda.
  • Mælikvarðarnir þurfa að hafa skýra tengingu við raunverulegan samdrátt. Setja þarf markmið fyrir mælikvarðana sem byggja á raunverulegum samdrætti í losun. Svo dæmi sé tekið þá hafa orkuskipti í samgöngum þann tilgang að skipta mengandi orkugjöfum út fyrir hreina orkugjafa og því þurfa upplýsingar um samsetningu bílaflotans að vera beintengdar við losunartölur.
  • Bæta upplýsingagjöf, til að mynda með stafrænu mælaborði loftslagsmála. Sýna þarf árangur yfir tiltekið tímabil í samanburði við vænt markmið. Bæta mætti upplýsingagjöf, til dæmis með því að setja upp í stafrænt mælaborð loftlagsmála.
  • Tengja mat í stöðuskýrslu við tölur um raunlosun og spár um vænta framtíðarlosun: tengja þarf stöðuskýrslu aðgerðaáætlunar við reglulegar skýrslur sem Umhverfis-stofnun vinnur fyrir Íslands hönd um stefnur og aðgerðir og framreiknaða losun Íslands (e. Report on Policies and and Measures and Projections; PaMs), svo betur megi greina hvernig: a) fyrri áætlanir hafi staðist og b) til að skýra heildarstefnumótun, áætlanagerð og greiningarvinnu hins opinbera í loftlagsmálum. Mikilvægt að efla getu og umboð opinberra stofnana og samstarf í greiningarvinnu, t.a.m. við PaMs greiningu Umhverfisstofnunar og við þróun orkuspár.
  • Efla þarf stýringu og stjórnsýslu aðgerðaáætlunarinnar. Stýringu og stjórnsýslu aðgerðaáætlunar þarf að styrkja. Skipa þyrfti framkvæmdastjórn yfir áætluninni sem bæri ábyrgð á framkvæmd hennar. Slíka framkvæmdastjórn ætti að skipa lykilstjórnendum þeirra ráðuneyta og stofnana sem koma að framkvæmdinni og gefa þarf þeirri framkvæmdastjórn ráðstöfunarvald yfir fjármunum.
  • Skilgreina ábyrgðaraðila og haghafa hverra aðgerðar. Tilgreina þarf nánar hverjir eru ábyrgðaraðilar hverrar aðgerðar, ekki eingöngu undir hvaða ráðuneyti aðgerðin fellur, sem og að tilgreina helstu haghafa, samstarfsaðila og stofnanir sem að framkvæmdinni koma og skýra hlutverk hvers og eins.
  • Skilgreina viðbrögð og ábyrgð á umbótum. Skýra þarf hvernig bregðast eigi við og hver beri ábyrgð á umbótum ef í stöðuskýrslu kemur í ljós að aðgerðir séu ekki að skila nægjanlegum árangri.