Rýni Loftslagsráðs á aðgerðaáætlun í loftslagsmálum (2020)
apríl, 2020

Umfjöllunarefni

Loftslagsráði er ætlað að rýna á undirbúningsstigi áætlanir stjórnvalda sem snerta loftslagsmál, þ.m.t. aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Ráðið samþykkti álitsgerð um fyrirliggjandi drög aðgerðaáætlunarinnar á fundi 29. apríl 2020 og kom á framfæri við stjórnvöld. Ný aðgerðaáætlun í loftslagsmálum var svo kynnt 25. júní. Hægt er að kynna sér aðgerðaáætlunina á vefsíðunni CO2.is.

Helstu ábendingar

  • Metnir þættir skila ekki þeim árangri sem skuldbindingar Íslands krefjast: Aukinn metnað þarf til að nauðsynleg markmið náist. Þættir sem metnir eru í áætluninni gefa til kynna 28% samdrátt en eftir er að útfæra aðgerðir í lykilatvinnuvegum sem gætu leitt til 40% samdráttar og marka leið að kolefnishlutleysi.
  • Meta þarf þjóðhagsleg áhrif aðgerða en tryggja samhliða réttlát umskipti: Vinna þarf kostnaðar- og ábatagreiningu þar sem m.a. þjóðhagsleg áhrif eru metin og sett fram með skýrum hætti. Kostnaður við eina aðgerð getur leitt til sparnaðar á öðrum sviðum og greiningin ætti að taka tilliti til þess. Samhliða þarf að tryggja sanngjörn umskipti í hagkerfinu sem leiða til velferðar og greina áhrif væntra aðgerða á mismunandi samfélagshópa. Kostnaðar- og ábatagreining þarf því að taka fullt mið af markmiðum um jöfnuð og félagslegt réttlæti loftslagsaðgerða. 
  • Árangursmælikvarðar þurfa að vera gagnsæir og fjölbreyttir: Árangursmælikvarðar þurfa að vera gagnsæir og ættu annars vegar að tengjast einstökum aðgerðum og hins vegar vera víðir og lýsa samfélags- og efnahagsþróun á stórum skala.
  • Tryggja þarf stöðuga eftirfylgni með vöktun á árangri og endurskoðun á aðgerðum: Eftirfylgni með áætluninni þarf að vera lifandi og stöðug endurskoðun þarf að eiga sér stað. Fylgjast þarf með framgangi og stjórnvöld þurfa að vera tilbúin til að herða á aðgerðum ef þróunin gefur tilefni til. Setja þarf skýr viðmið um hvenær grípa þarf inn.
  • Tryggja þarf umboð og ábyrgð verkefnisstjórnar hvað varðar eftirfylgni: Tryggja þarf að verkefnastjórn aðgerðaáætlunarinnar sé í stakk búin til að hafa nauðsynlega yfirsýn og hafi úrræði til að tryggja eftirfylgni.
  • Uppfæra orkuspá reglulegar og uppfæra losunarbókhald Íslands hraðar: Það er veikleiki í áætluninni að spár um losun sem byggja á eldsneytisspá frá 2016, eru úreltar í mikilvægum atriðum. Spár, s.s. eldsneytisspá, þarf að uppfæra reglulega og loftslagsbókhald Íslands þarf að uppfæra hraðar.
  • Setja þarf fram raunhæfa áætlun um útfösun jarðefnaeldsneytis: Ráðið telur tímabært að setja fram, samhliða orkuspá, raunhæfa áætlun um hvernig útfösun jarðefnaeldsneytis verður náð.
  • Setja sem fyrst markmið og markvissari skref í aðgerðum sem eftir á að útfæra: m.a. um sjávarútveg, landbúnað og varðandi orkuskipti í þungaflutningum
  • Óljós framsetning á losun frá landnotkun: Skýra þarf framsetningu á losun frá landnotkun og hvernig miðað er við ólíka tímaramma þegar tölur eru settar fram.