Rammasamningur Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (UNFCCC)

Rammasamningur Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (UNFCCC – United Nations Framework Convention on Climate Change) er fyrsti alþjóðasamningurinn um loftslagsbreytingar af mannavöldum. Samningurinn var undirritaður árið 1992 og gekk í gildi árið 1994. Nær öll ríki heims, eða 197, eru aðilar að samningnum.

Rammasamningurinn skilgreinir þann vanda sem steðjar að mannkyni vegna loftslagsbreytinga og lýsir yfir vilja til að koma í veg fyrir hættulegar loftslagsbreytingar af mannavöldum. Jafnframt viðurkennir hann sameiginlega en mismunandi ábyrgð ríkja á ástandinu.

Með Rammasamningnum var stigið mikilvægt skref í að skapa vettvang og umgjörð utan um alþjóðlegar samningaviðræður. Samningurinn setur þó aðilarríkjum engar sérstakar skyldur á herðar varðandi töluleg og tímasett markmið. Því var ljóst frá upphafi að Rammasamningurinn væri einungis fyrsta skrefið þar sem málið væri sett á dagskrá, skrifstofu samningsins var komið á fót og ákveðnir ferlar búnir til fyrir áframhaldandi samningaviðræður.

Samningaviðræður um bæði Kyotobókunina og Parísarsamninginn fóru fram á vettvangi Rammasamningsins. Kyotobókunin var samþykkt árið 1997 og gekk í gildi árið 2005. Fyrsta skuldbindingartímabil bókunarinnar, fyrir þau aðildarríki sem að staðfestu hana, var tímabilið 2008-2012 og annað tímabilið var 2013-2020. Eingöngu iðnríki tóku á sig skuldbindingar um samdrátt í losun og heildarsamdráttur var aðeins lítið brot af þeim samdrætti sem talinn er nauðsynlegur til að halda hlýnun innan við 2,0°C, og helst undir 1,5°C, sem eru það viðmið sem stuðst hefur verið við í samningaviðræðum.

Fljótlega var því ljóst að grípa þyrfti til mun umfangsmeiri aðgerða, þar sem öll ríki leggi eitthvað af mörkum og sem flestir hagaðilar séu virkjaðir. Þetta kallaði á nýja nálgun og nýjan samning og eftir margra ára samningaviðræður varð Parísarsamningurinn að veruleika.