Ráðstefna Loftslagsráðs um aðlögun

Bekkurinn var þétt setinn á ráðstefnu Loftslagsráðs um aðlögun að loftslagsbreytingum, en yfirskrift ráðstefnunnar var „Erum við viðbúin?“ Ráðstefnunni var streymt beint og eru erindin nú aðgengileg á vef Stjórnarráðsins

Markmið ráðstefnunnar var að kalla fram viðbrögð við fyrirsjáanlegum afleiðingum loftslagsbreytinga í þeim tilgangi að auka hæfni samfélagsins til að takast á við þær. Meðal annars var farið yfir hvaða breytingar á náttúru og veðurfari munu hafa mestar afleiðingar hér á landi og nauðsyn þess að gera áætlun um aðgerðir til að aðlagast væntanlegum breytingum. Rætt var um hvernig gera þurfi ráð fyrir loftslagsbreytingum í skipulagi og hvernig sveitarstjórnir hafa brugðist við. Þá var fjallað um áhrif loftslagsbreytinga á vegi og brýr, nýtingu virkjana, fráveitur og tryggingamál. 

Sköpuðust líflegar umræður um erindi fyrirlesara og umfjöllunarefni ráðstefnunnar. Yfir 2000 manns fylgdust með streymi frá ráðstefnunni á einhverjum tímapunkti. Eftir hádegi var efnt til vinnustofu fagaðila þar sem farið var dýpra í brýnustu verkefni og hindranir við gerð aðgerðaáætlunar vegna aðlögunar að loftslagsbreytingum.

Hér á vefnum má skoða upptökur af erindum sem flutt voru á ráðstefnunni. Í framhaldinu var svo gerð samantekt  á því samtali sem fór fram á vinnustofunni og því sem kom fram í könnun sem var send þátttakendum vinnustofunnar.