Öflug stjórnsýsla í loftslagsmálum
desember, 2018

Umfjöllunarefni

Umhverfis- og auðlindaráðherra óskaði eftir tillögum Loftslagsráðs um framtíðarfyrirkomulag stjórnsýslu loftslagsmála á Íslandi. Ráðið lét því taka saman yfirlit yfir núverandi stöðu stjórnsýslu loftslagsmála hérlendis og vann álit sitt og tillögur út frá þeirri samantekt.

Helstu ábendingar

  • Heildstæð stefnumörkun til skamms og langs tíma, skýr markmið og raunhæfar aðgerðir með tryggðri fjármögnun eru forsenda árangurs í loftslagsmálum. Ábyrgð á aðgerðum og verkefnum þarf að vera skýr og eins hvernig fylgst er með því hvernig þeim er fylgt eftir og hvort árangur er í samræmi við áform og væntingar. Samþætta þarf stefnur og áætlanir á öðrum sviðum sem hafa áhrif á loftslagsmál og efla miðlægt samhæfingarhlutverk byggt á gagnsæjum greiningum og áherslu á eftirfylgni.
  • Einfalda og samræma þarf framsetningu á helstu staðreyndum bæði hvað varðar stöðuna í dag og framtíðarþróun að óbreyttu. Ríki og sveitarfélög þurfa að stilla saman strengi enn frekar en nú er þar sem flestar lausnir ganga þvert á stjórnsýslustig og kalla á stuðning almennings og atvinnulífs hvort sem um er að ræða mótvægisaðgerðir eða aðlögun að loftslagsbreytingum. Virkja þarf samtakamátt almennings og sýna fram á þá fjölþættu kosti sem lágkolefnissamfélag felur í sér og draga fram samhengið við siðferðileg og menningarleg viðmið. Leita þarf leiða til að draga úr óþarfa neyslu og sóun. Tryggja að opinber innkaup, bæði vegna framkvæmda og reksturs, séu loftslagsvæn.
  • Skapa þarf atvinnulífinu, stofnunum og sveitarfélögum skýran ramma um hvernig draga má úr losun gróðurhúsalofttegunda frá rekstri og hvernig er hægt að innleiða loftslagsvæn innkaup. Halda þarf þeim ramma við, uppfæra miðað við nýja þekkingu og rannsóknir og miðla með reglubundnum hætti með námskeiðum eða kynningum. Gera þarf heildstæða landsáætlun um aðlögun að loftslagsbreytingum svo markmið og ábyrgðarskipting verði ljósari en nú er. Hagsmunamat sem lagt er til grundvallar ákvarðanatöku og stjórnsýslu í efnahagsmálum þarf að ná til loftslagsþátta. Virkt samráð við hagaðila gerir loftslagstefnu framsæknari.
  • Stórauka þarf áherslu á nýsköpun, rannsóknir, vöktun, fræðslu og upplýsingagjöf bæði til að leggja grunn að raunhæfu hagsmunamati og forgangsröðun og til að nýta sem best þau tækifæri sem felast í öflugu nýsköpunarumhverfi sem byggir á þeirri reynslu sem fyrir er, dugnaði, úrræðasemi og hugmyndaauðgi. Mikilvægt er að nýtt fjármagn sem fylgir tilkomu Loftslagssjóðs nýtist sem best og hafi sem mest margfeldniáhrif.
  • Loftslagsmál eru mikilvægur þáttur í utanríkisstefnu Íslands og bera reglulega á góma í samskiptum íslenskra ráðamanna við erlenda jafningja sína. Landið hefur fulla möguleika á að komast í fremstu röð í þessum efnum með framsækinni loftslagsstefnu þar sem lögð er áhersla á samdrátt í losun, skynsamlega landnýtingu, fjárframlögum til alþjóðasamstarfs í loftslagsmálum, rannsókna og vöktunar. Íslendingar eiga mikið í húfi þegar kemur að áhrifum loftslagsbreytinga á lífríki sjávar einkum varðandi súrnunar hafsins sem gæti haft mjög háskalegar afleiðingar hér á landi. Loftslagsmál kalla því á virkt samráð um hagsmunamat og þá afstöðu sem Ísland tekur á alþjóðavettvangi bæði á formlegum vettvangi og óformlegum.