Ný eldsneytisspá fyrir 2021-2060 gefin út

Orkuspárnefnd Orkustofnunar hefur gefið út nýja eldsneytisspá fyrir tímabilið 2021-2060. Í áliti sem Loftslagsráð sendi frá sér á síðasta ári var bent á veikleika í aðgerðaáætlun í loftslagsmálum vegna þess að spár um losun í fyrri eldsneytisspá frá 2016 væru úreltar í mikilvægum atriðum. Ráðið taldi einnig tímabært að setja fram, samhliða orkuspá, raunhæfa áætlun um hvernig útfösun jarðefnaeldsneytis verður náð.

Um þessa endurskoðun á eldsneytisspánni segir á vef Orkustofnunar: „Við endurskoðun eldsneytisspár frá 2016 var hópnum falið að endurskoða almennu forsendurnar og hafa þær verið gefnar út í sérstakri skýrslu. Eldsneytishópur nefndarinnar hefur unnið þessa spá en í honum eiga sæti fulltrúar frá atvinnulífinu, Umhverfisstofnun og Orkustofnun. Ýmsir aðilar hafa einnig komið að gerð eldsneytisspárinnar og veitt hópnum upplýsingar um afmarkaða þætti sem tengjast henni.“

Settar eru fram nokkrar sviðsmyndir m.v. ólíkar forsendur en grunnspáin sýnir þróun miðað við óbreyttar forsendur (e. business as usual). Grunnspá eldsneytisspárinnar gerir ráð fyrir að olíunotkun árið 2050 verði um 600 þús. tonn sem skiptist í um 200 þús. tonn í innanlandsnotkun og 400 þús. tonn í millilandanotkun.  

Samhliða útgáfu eldsneytisspár er í fyrsta skipti gefin út gagnvirk framsetning niðurstaðna spárinnar og sviðsmyndagreiningar. Þar er hægt að skoða söguleg gögn um olíunotkun á Íslandi eftir notkunarflokkum og eldsneytistegund. Enn fremur er hægt að skoða sviðsmyndagreiningu um áætlaða olíunotkun hverrar sviðsmyndar til ársins 2060.

Hlekkur á skýrslu Orkuspárnefndar.