Umhverfisstofnun hefur nú birt hina árlegu landsskýrslu um losun gróðurhúsalofttegunda. Samkvæmt henni var heildarlosun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi um 14,1 milljón tonn af CO2-ígildum árið 2021. Það þýðir að losun jókst á milli áranna 2020 og 2021, og hún hefur aukist um 6% síðan árið 1990. Umhverfisstofnun gerir ráð fyrir að losun hafi aukist enn frekar á árinu 2022.

Losun Íslands er langmest frá landnotkun, eða 9.4 milljón tonn. Þá losaði iðnaður og efnanotkun um 2 milljón tonn árið 2021, orkunotkun um 1,77 milljón, landbúnaður 620 þúsund tonn og úrgangur 268 þúsund tonn.

Í skýrslunni framreiknar Umhverfisstofnun losun Íslands, miðað við ólíkar sviðsmyndir. Þegar tekið er tilliti til aðgerða til að draga úr losun, sem þegar eru komnar í framkvæmd eða eru staðfestar, er gert ráð fyrir að samdráttur í heildarlosun Íslands muni nema að meðaltali 0,6% á ári, til ársins 2050. Losun Íslands verði því 11,7 milljón tonn á því ári, sem er langt frá markmiðum Íslands í loftslagsmálum.

Framræst votlendi losar mest

Þrátt fyrir að binding kolefnis í skógrækt hafi margfaldast á Íslandi undanfarna áratugi, sem reiknast til frádráttar í losunartölum, nemur útblástur vegna landnotkunar og skógræktar, þegar allt er saman tekið, 67% af heildarlosun Íslands. Þó hefur þessi útblástur dregist saman um 2% síðan 1990.

Stærsti orsakavaldurinn er útblástur koltvísýrings frá framræstu votlendi en einnig losar ræktunarland umtalsvert magn koltvísýrings. Náttúrulegt votlendi bindur mikið magn kolefnis, en hins vegar losar það metan, sem er öflug gróðurhúsaloftegund, þannig að heildaráhrif votlendis reiknast sem losun fremur en binding.

Samkvæmt staðfestum áætlunum stjórnvalda mun kolefnisbinding í skóglendi aukast fyrir 2050 eða úr 500 þúsund tonnum í 900 þúsund tonn. Þessi binding nam einungis 30 þúsund tonnum árið 1990. Hér er þó einungis horft til áforma sem ná til ársins 2025, en frekari staðfestar áætlanir liggja ekki fyrir.

Í þessum flokki er einnig gert ráð fyrir að binding vegna aukinnar landgræðslu og endurheimt votlendis muni leiða til minnkunar í losun um 300 þúsund tonn fyrir 2050.  Samanlagt muni því losun minnka frá landnotkun og skógrækt um hátt í 700 þúsund tonn, miðað við óbreyttar áætlanir.

Losun frá áli og kísil

Þær tvær milljónir tonna af losun frá iðnaði og efnanotkun koma að langstærstum hluta frá álverum, eða 67,8%. Kísilverksmiðjur koma næst með 23,7% af þessari losun, og tæp 8% losunar má að mestu rekja til frystingar og loftkælingar í sjávarútvegi.

Útblástur hefur aukist í þessum flokki um 122% frá 1990, en það er einkum vegna opnunar nýrra álvera. Á móti kemur að framleiðsla á sementi og áburði hefur lagst af á Íslandi, en báðir þeir framleiðsluferlar fela í sér töluverða losun gróðurhúsalofttegunda.  Því er spáð að að losun í þessum flokki muni dragast saman um 10% fyrir miðja öldina, miðað við óbreytt áform.

Fiskiskip og fólksbílar losa svipað

Þegar kemur að losun vegna orkunotkunar Íslendinga spila samgöngur á sjó og landi stærstu rulluna. Af þeim tæplega 1,8 milljón tonnum af gróðurhúsalofttegundum sem fóru út í andrúmsloftið árið 2021 vegna orkunotkunar er fiskiskipaflotinn ábyrgur fyrir stærsta hlutanum, eða 32,5%. Þar næst koma fólksbílar, með 30,9% af útblæstrinum, og þá rútur og stórir vörubílar með 12,3% af losuninni í þessum flokki.

Útblástur vegna millilandaflugs og millilandasiglinga er ekki inni í heildarlosunartölum Íslands, heldur er haldið um þær tölur sérstakt alþjóðlegt bókhald. Í skýrslu Umhverfisstofnunar kemur þó fram að losun vegna millilandaflugs til og frá Íslandi nam 415 þúsund tonnum árið 2021, eða um 3% af heildarlosun landsins, og hefur aukist um 88% frá 1990. Losunin náði hámarki, og var mun hærri, fyrir heimsfaraldur, og hefur að öllum líkindum aukist mjög á síðasta ári eftir því sem ferðaþjónustan hefur aftur farið á flug. Losun vegna millilandasiglinga nam 124 þúsund tonnum árið 2021, sem er aukning um 341% frá 1990, en hefur þó verið sveiflukennd á tímabilinu.

Losun gróðurhúsalofttegunda frá jarðvarmavirkjunum er um 10% af heildarlosun vegna orkunotkunar, eða um 180 þúsund tonn. Þessi losun hefur aukist töluvert á undanförnum árum, eða um 192% frá 1990 vegna nýrra virkjana. Áform eru m.a. um að binda þetta kolefni í jörðu með aðferðum sem þróaðar hafa verið af Carbfix hér á landi.

Samkvæmt staðfestum áformum stjórnvalda og aðgerðum sem þegar hafa tekið gildi gerir Umhverfisstofnun ráð fyrir langmestum hlutfallslegum samdrætti í losun í þessum flokki á næstu áratugum. Spáð er að losun í þessum flokki muni minnka, einkum vegna orkuskipta í samgöngum og breyttra ferðavenja, um 77%, og verða rétt ríflega 400 þúsund tonn árið 2050.

Metangas frá dýrum og úrgangi

Ef svo fer fram sem horfir mun útblástur frá landbúnaði hins vegar dragast saman mun minna að mati Umhverfisstofnunar, eða um 8%. Losun frá landbúnaði hlýst að stærstum hluta frá iðragerjun dýra og áburðarnotkun vegna nautgripa- og sauðfjárræktar. Um 53% losunar frá landbúnaði má þannig rekja til kinda og kúa. Alls losaði iðragerjun allra dýrategunda í landbúnaði 323 þúsund tonn af gróðurhúsaloftegundum árið 2021, sem er þó minnkun um 17% frá 1990. Gert er ráð fyrir að minnkun útblásturs í þessum flokki muni einkum koma til vegna fækkunar dýra.

Meðhöndlun úrgangs losar metangas út í andrúmsloftið, líkt og iðragerjun húsdýra. Alls losaði úrgangur 268 þúsund tonn árið 2021, sem er um 10% aukning frá 1990. Gert er ráð fyrir að bætt meðhöndlun úrgangs muni leiða til 30% minni losunar árið 2050.

Skuldbindingar Íslands og markmið

Hér hefur verið fjallað um heildarlosunartölur Íslands. Umhverfisstofnun tekur þær tölur saman á hverju ári og skilar til bæði Evrópusambandsins og til Sameinuðu þjóðanna (UNFCCC) í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar. Annað hvert ár, eins og nú, skilar Umhverfisstofnun jafnframt framreikningi á losun miðað við fyrirliggjandi upplýsingar um stefnur og aðgerðir.

Samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum er heildarlosun landsins skipt niður í þrjá meginflokka. Í fyrsta lagi er um að ræða svokallaða losun sem er á beinni ábyrgð Íslands. Þar undir fellur m.a. innlend orkunotkun, landbúnaður og meðhöndlun úrgangs. Í öðru lagi telst landnotkun og skógrækt (LULUCF) sérstakur flokkur, og í þriðja lagi er svo um að ræða losun sem fellur undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir. Þar undir falla m.a. ál- og kísilver.

Ljóst er af tölum Umhverfisstofnunar að Ísland á langt í land með að ná settum markmiðum um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Ísland er þátttakandi í settu markmiði ESB um 55% samdrátt í losun, miðað við 1990, fyrir árið 2030, sem er eftir sjö ár.  Til þess að ná þessu markmiði þarf öll losun í Evrópu sem fellur undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir að dragast saman um 62% og losun sem er á beinni ábyrgð ríkjanna að meðaltali um 40%, miðað við árið 2005. Ekki hefur verið útfært hvert hlutfall Íslands er sérstaklega innan þessa markmiðs.

Auk þessa hafa íslensk stjórnvöld sett sér sjálfstætt markmið um 55% samdrátt í losun innan næstu sjö ára, miðað við 2005. Samkvæmt skýrslu Umhverfisstofnunar hefur Ísland náð 12% samdrætti eins og staðan er nú.