Losun gróðurhúsalofttegunda frá landi – samantekt á rannsóknum og vöktun og samræmi við kröfur í losunarbókhaldi Íslands
júlí, 2021

Umfjöllunarefni

Í kjölfar Parísarsamningsins og innleiðingar á nýrri Evrópulöggjöf um losun gróðurhúsalofttegunda frá landi aukast kröfur um nákvæmni gagna og mælinga sem losunarbókhald byggist á. Tilgangur verkefnisins er að varpa ljósi á það hvernig rannsóknir og vöktun á losun frá landi hérlendis mæta kröfum fyrir loftslagsbókhald í alþjóðasamningum á næsta áratug.

Tekin voru viðtöl við sérfræðinga í rannsóknum og stjórnsýslu um losun frá landi. Samhljómur var um að mikilvægt sé að auka rannsóknir og vöktun til að bæta þekkingu á raunverulegri losun frá landi og til að mæta kröfum alþjóðlegra samninga um skil á gögnum. Þekkingaruppbygging þarf að vera þríþætt; bæta þarf þekkingu á losunarstuðlum tiltekinna landgerða; vinna þarf betur gagnagrunna um skiptingu lands í landgerðarflokka; auka þarf skilning á hvernig losun frá landi breytist með tíma og eftir árferði.

Helstu ábendingar

  • Stofna ætti formlegan stýrihóp fyrir vísindaráðgjöf tengda LULUCF. Lagt er til að stofnaður verði formlegur stýrihópur fyrir vísindaráðgjöf og faglega umræðu sem myndi styrkja rannsóknir og stjórnsýslu á sviði LULUCF. Stýrihópur sem gæti gefið álit um hvaða rannsókna er þörf til að uppfylla kröfur alþjóðasamninga, gæti leiðbeint stjórnvöldum um túlkun á niðurstöðum rannsókna og gefið faglegt álit á álitamálum varðandi bókhaldsuppgjör Íslands. Stýrihópurinn hefði skýrt umboð og breiðara hlutverk en vinnuhópar sem starfa á vegum umhverfis- og auðlindaráðuneytis og væri ætlað að starfa til lengri tíma.
  • Stýrihópurinn ætti að vera skipaður vísindafólki og öðrum sérfræðingum á sviði LULUCF. Stýrihópurinn væri skipaður fulltrúum háskóla, rannsóknarstofnana og stjórnsýslustofnana sem myndu deila þekkingu og áherslum í rannsóknum og vera farvegur fyrir faglegt samtal. Í dag er skortur á farvegi sem þessum. Fagráðstefnur, t.d. fagráðstefna skógræktar, hafa þó verið góður vettvangur til að breiða út þekkingu og koma á samtali milli vísindamanna. Stýrihópur sem hér er talað um væri formlegri og hefði ákveðið hlutverk á þessu sviði.