Loksins fundur um loftslagsmál í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna

Þau tíðindi urðu þann 14. febrúar síðastliðinn að Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna kom saman sérstaklega til að ræða ógnina sem mannkyni stafar af loftslagsvánni. Fundurinn fjallaði um þá hættu sem mannkyninu stafar af hækkandi sjávarstöðu vegna loftslagsbreytinga.

Fundinum var gert hátt undir höfði og sátu fulltrúar fjölmargra annarra ríkja, en þeirra sem eiga fulltrúa í Öryggisráðinu, fundinn auk þess sem hann hófst á ávarpi aðalritara Sameinuðu þjóðanna, Antonio Guterres. Guterres var ómyrkur í máli.

„Hækkandi sjávarmál er að sökkva framtíðarvonum,“ sagði hann. „Hækkandi sjávarstaða er ekki aðeins ógn í sjálfu sér, heldur er hún ógnarauki.“ Hann rakti í ræðu sinni hvernig hækkandi sjávarstaða væri þegar farin að hafa gríðarleg áhrif á fólk sem býr við sjávarmál og úr því sem komið væri byggju ríki eins og Bangladesh, Kína, Indland og Holland við grafalvarlega ógn vegna hækkandi sjávarstöðu. Í öllum heimsálfum myndu stórborgir, þar á meðal Kaíró, Bangkok, Mumbai, Kaupmannahöfn, London, Buenos Aires og New York, þurfa að glíma við tröllaukin vandamál vegna flóða, eyðileggingar á innviðum og fráveituvanda.

„Vandinn er einkar aðkallandi fyrir þær nærri 900 milljónir jarðarbúa sem búa á strandsvæðum við sjávarmál,“ sagði Guterres. „Það er einn af hverjum tíu íbúum á Jörðinni.“

Hugtakið „ógnarauki“

Erfitt hefur reynst að fá loftslagsmálin rædd í Öryggisráðinu. Af þeim sökum var um tímamótafund að ræða. Fundurinn var haldinn að frumkvæði fulltrúa Möltu. Hingað til hefur einörð andstaða nokkurra ríkja komið í veg fyrir umræðu um loftslagsvánna í ráðinu og þeim sjónarmiðum verið haldið á lofti af fulltrúum þeirra að loftslagsmálefni væru betur rædd annars staðar á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.

Stálin stinn mættust á fundi ráðsins í desember 2021, þegar drög að ályktun um loftslagsbreytingar féll á neitunarvaldi andstöðuríkjanna. Allar frekari tilraunir til að ræða sérstaklega hlýnun jarðar og tilheyrandi ógnir runnu út í sandinn, þar til nú.

Horfur voru á, í upphafi þessa árs, að betur myndi ganga að setja loftslagsmálin á dagskrá, þar sem þá tóku sæti í ráðinu ný ríki, í stað ríkja sem helst hafa staðið gegn umræðum. Einnig má segja að eitt hugtak, sem nú er notað í sívaxandi mæli um loftslagsmál, hafi átt ríkan þátt í því að koma málinu á dagskrá. Guterres beitti því í upphafi ræðu sinnar, en það er hugtakið „ógnarauki“ eða threat multifier.

Hugtakinu er ætlað að draga fram þá staðreynd að ógnir vegna hlýnunar jarðar eru ekki bundnar einungis við loftslagsbreytingar og þau áhrif sem þær hafa á vistkerfi, heldur spretta af þessum breytingum aðrar ógnir, eins og til dæmis pólitískar, fjárhaglegar, heilsutengdar og félagslegar, sem hæglega geta ógnað stöðugleika í heiminum. Loftslagsbreytingar, með öðrum orðum, eru ekki einungis umhverfismál sem ber að ræða í umhverfisnefndum, heldur eiga þær líka erindi í Öryggisráðið. Hugtakið, sem fyrst var notað árið 2007 í samhengi við loftslagsmál, hefur þannig hjálpað til við að setja loftslagsbreytingar á dagskrá öryggismála í víðara samhengi.

Hættur sem skapast

Fólk missir ekki mannréttindi sín við það að missa húsin sín,“ benti Guterres á. Í samræmi við áhersluna á ógnaraukandi áhrif hækkandi sjávarstöðu gerði Guterres að umfjöllunarefni þær ískyggilegu afleiðingar, af ýmsu tagi, sem það hefur í för með sér að heilu landsvæðin sökkvi í sæ. Tryggja þarf mannréttindi flóttafólks, sem missir heimili sín og jafnvel þarf að tryggja réttindi heilu þjóðanna sem missa land sitt. Nýr veruleiki kallar þannig á víðtæka aðlögun alþjóðalaga að þeim möguleika að á næstu áratugum muni hundruðir milljónir jarðarbúa neyðast til að flytjast búferlum vegna þessa að landsvæði þeirra hreinlega hverfur eða verður óbyggilegt. Hætta á átökum, vaxandi fátækt, víðtækum mannréttindabrotum og efnahagslegu öngþveiti getur í slíkum veruleika aukist í veldisvexti.

Næstur á mælendaskrá var Csaba Körösi, forseti Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna. „Hvað verður um fullveldi þjóðar, aðild hennar að Sameinuðu þjóðunum og kosningarétt þegnanna ef þjóðin sekkur í sæ?“ spurði Körösi. „Til eru reglur um það hvernig stofna skuli þjóðríki, en engar um það hvað eigi að gera þegar þau hverfa.“

Umræðan á Íslandi

Umræðan í Öryggisráðinu vekur væntingar um að loftslagsmálin séu að ná eyrum fleiri innan mikilvægra alþjóðastofnana og annars staðar og styrkari grundvöllur sé þar með að skapast fyrir meira afgerandi aðgerðum vegna loftslagsvánnar.

En hver er staða þessarar umræðu hér á landi?

Á Íslandi er starfrækt Vísindanefnd um loftslagsbreytingar sem gefur reglulega út skýrslu þar sem kortlögð eru áhrif loftslagsbreytinga. Næsta skýrsla Vísindanefndar er væntanleg nú á fyrri hluta þessa árs.

Umræða um hvernig best sé að Ísland aðlagist loftslagsbreytingum er skammt á veg komin, en hefur þó þokast nokkuð undanfarið. Árið 2020 sendi Loftslagsráð frá sér greinargerð um aðlögun að loftslagsbreytingum undir heitinu „Að búa sig undir breyttan heim.“ Í henni er ýtarlega rakið hvaða þætti aðlögunarstefna þarf að innihalda og því er lýst hvernig „Ísland er eftirbátur annarra ríkja í heildrænu skipulagi aðlögunar og á meðal fárra Evrópulanda sem hefur hvorki sett sér stefnu né áætlun í því tilliti.“

Vinna er nú hafin við að móta slíkt skipulag, en í júní 2021 kom út á vegum ríkisstjórnarinnar Hvítbók um aðlögun að loftslagsbreytingum, sem inniheldur drög að aðlögunarstefnu. Óvissuþættir eru margvíslegir hvað varðar áhrifin, en þó má t.a.m. gera má ráð fyrir að þurrkadögum fjölgi, úrkoma aukist, jöklar minnki, veðurfar hlýni, sífrerar bráðni, sjór súrni og hlýni og sjávarborð hækki, en mismikið þó. Í Hvítbókinni eru áhrif þessara breytinga á lífríki og samfélag rakin og settar fram tillögur um viðbrögð.

Spurningum um hvað geri skuli þegar önnur ríki í heiminum hreinlega hverfi hefur hins vegar ekki verið svarað í neinu opinberu stefnuplaggi hér á landi enn sem komið er. Ljóst er — ekki síst í ljósi fundarins í Öryggisráðinu — að slík álitamál verða sífellt meira aðkallandi þegar kemur að aðlögun þjóðanna að breyttri veröld vegna ógnaraukandi loftslagsvár.