Lokaviðvörun í loftslagsmálum

Draga þarf úr útblæstri gróðurhúsaloftegunda í heiminum um helming fyrir árið 2030, eða innan sjö ára. Að öðrum kosti mun líf á jörðu verða fyrir óbætanlegum áhrifum sem vara munu næstu árhundruðin, jafnvel árþúsundin. Nú er svo komið að hvert gráðubrot í hlýnun hefur stigmagnandi áhrif á veður, uppskeru og lífsskilyrði milljóna manna um allan heim.

Þetta kemur fram í samantekt sjöttu matsskýrslu Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC), sem kynnt var nú í upphafi vikunnar. Sjötta matsskýrslan hefur komið út í hlutum frá 2018, og er samantektin (e. synthesis report) síðasti hluti hennar. Í henni eru dregnar saman helstu niðurstöður skýrsluvinnunnar í heild. 

Samantekin er, eins og hinir kaflar matsskýrslunnar, afrakstur yfirgripsmikillar vinnu hundruða vísindamanna um allan heim. Þeir eru á einu máli. Tíminn er að renna út. Texti skýrslunnar er hins vegar niðurstaða málamiðlunar fulltrúa stjórnvalda nærri 200 þjóða heims, þar sem fulltrúar sumra ríkisstjórna vilja ganga lengra í orðavali, aðrir skemur. Með það ferli í huga er afdráttarleysi skýrslunnar verulega markvert.

Enn er von

„Þetta er ögurstund í mannkynssögunni,“ sagði Hoesung Lee formaður milliríkjanefndarinnar þegar samantektin var kynnt mánudaginn 20. mars sl. Hann lagði áherslu á það í máli sínu, að þótt staðan væri dökk, gæti mannkynið enn snúið við blaðinu og afstýrt verstu afleiðingum loftslagsbreytinga. „Skýrslur IPCC sýna að mannkynið býr yfir þekkingu og tækni til þess að takast á við loftslagsbreytingar af mannavöldum,“ sagði Lee. „Þær sýna líka að við höfum möguleikann á að byggja upp mun hagsælli, opnari og jafnari samfélög í leiðinni.“

Verkefnið væri ógnarstórt, erfitt og flókið, en þó mögulegt. Skýrslur IPCC tilgreina fjölmargar leiðir til þess að ná markmiðum, sem eru þegar færar. Til þess að árangur megi nást benti Lee á að fjármagn til loftslagsmála þyrfti að margfaldast frá því sem nú er, eða allt að sexfaldast. Einnig þyrftu þjóðir með mikinn útblástur að setja mun meiri kraft í aðgerðir sínar í loftslagsmálum og flýta til muna áætlunum sínum um kolefnishlutleysi. Útblástur gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu verður að minnka héðan í frá, ár frá ári. Það er þvert á þróunina, því tölur síðasta árs sýna að útblástur er að aukast.

„Veröld okkar þarfnast loftslagsaðgerða á öllum sviðum: Allt, alls staðar og allt í einu,“ sagði aðalritari Sameinuðu þjóðanna, Antonio Guterres og vísaði þar í titil Óskarsverðlaunamyndarinnar Everthing, Everywhere, All at Once, sem farið hefur sigurför um heiminn.

Stefnir í óefni

Nú þurfa loftslagsaðgerðir að fara sigurför um heiminn. Eins og áréttað er í samantekinni búa nú hátt í fjórir milljarðar jarðarbúa á svæðum sem eru mjög viðkvæm fyrir loftslagsbreytingum. Dauðsföll þar vegna þurrka, flóða og ofsaveðra eru margföld nú þegar, miðað við önnur svæði jarðar. Áhrifum er einnig verulega misskipt miðað við hagsæld ríkja. Ljóst er að ríkustu ríki heims menga margfalt á við þau fátækari, þar sem áhrifanna gætir þó langmest.  Óréttlætið sem loftslagsbreytingar skapa eru vandi í sjálfu sér.

Bent er á að þótt aðgerðir hafi vissulega aukist á undanförnum árum, regluverk þjóða vegna útblásturs orðið umfangsmeira og markmið um samdrátt metnaðarfyllri, er enn langt í land. Miðað við tilkynnt landsframlög þjóða í samdrætti á útblæstri, frá október 2021, eru allar líkur á að hlýnun fari yfir 1,5 gráðu mörkin í náinni framtíð og erfitt verði að takmarka hlýnunina við 2 gráður á þessari öld. Þjóðir heimsins, einkum þær sem menga mest, þurfa að setja sér metnaðarfyllri markmið og ná kolefnishlutleysi hraðar. Ef slíkt er ekki gert og núgildandi markmið og aðgerðir þjóðríkjanna verði látin nægja má áætla að hlýnun jarðar muni nema 3,2 gráðum í lok þessarar aldar. Það hefði gríðarlegar óafturkræfar afleiðingar fyrir líf á jörðu.

Hins vegar kemur einnig fram í skýrslu IPCC að tækifærum til þess að snúa við blaðinu hafi fjölgað mjög á undanförnum árum. Kostnaður við endurnýjanlega orkugjafa, eins og sólarorku og vindorku, hefur hríðfallið og innleiðing vistvænni tækni, eins og í samgöngum, hefur fengið byr undir báða vængi. Nú er svo komið að vísindamenn IPCC telja sig geta fullyrt með þó nokkurri vissu að ódýrara sé fyrir þróunarríki, sem þarfnast mikillar uppbyggingar, að byggja upp vistvæn samfélög með endurnýjanlegum orkugjöfum, fremur en að veðja á jarðefnaeldsneyti. Hvor leiðin verður fyrir valinu er eitt af því sem ráða mun úrslitum um árangur komandi ára.

Næsta skýrsla segir af eða á

Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál var komið á fót árið 1988. Fyrsta matsskýrsla hennar kom út 1992 og hafa þær síðan, ein af annarri, gefið stöðuna í loftslagsmálum, og varðað leiðina í baráttunni við loftslagsbreytingar. Matsskýrslur IPCC geta hæglega talist einhver mestu vísindaafrek mannkynssögunnar, svo umfangsmiklar eru þær og ýtarlegar.

Samantektin sem kynnt var nú, er eins og áður segir fjórði meginkafli sjöttu matsskýrslunnar. Í hinum þremur hlutunum er farið yfir vísindalegar forsendur loftslagsbreytinga og spálíkana, áhrif breytinganna kortlögð ásamt möguleikum til aðlögunar og lagt mat á leiðir til þess að minnka útblástur. Þessir hlutar heildarskýrslunnar komu út í ágúst 2021, febrúar 2022 og apríl 2022.

Að auki inniheldur sjötta matsskýrslan þrjár aðrar styttri skýrslur, sem jafnframt liggja til grundvallar samantektinni. Sú fyrsta, sem kom út 2018, fjallar um áhrif þess ef hlýnun jarðar fer yfir 1,5 gráðu markmiðið, önnur fjallar um loftslagsbreytingar og landgæði og sú þriðja um haf og ís í breyttu loftslagi.

Skýrslan frá 2018 sýndi fram á afdráttarlausan mun á 1,5 gráðu og tveggja gráðu hlýnun. Sá munur skiptir sköpum fyrir lífríki á jörðu og afkomu milljóna manna.  Við meiri hlýnun magnast áhrif og tíðni veðuröfga, ofsahita, flóða og þurrka og lífsskilyrði milljarða jarðarbúa verða til muna óöruggari, með tilheyrandi ógnaraukandi áhrifum á pólitískan stöðugleika og velferð.

Það er því til mikils að vinna á næstu árum. Ljóst er að þegar næsta skýrsla IPCC kemur út í kringum 2030 verður heimurinn á nýjum stað.  Þá verður komið í ljós hvort mannkyninu hafi tekist að breyta um kúrs og afstýra verstu áhrifum loftslagsbreytinga, eða ekki.