Loftslagsvandinn og væntingar til COP26

Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna, COP26, verður haldin í Glasgow dagana 31. október til 12. nóvember nk. Loftslagsráð mun beita sér fyrir upplýstri umræðu um vandann sem þjóðir heims standa frammi fyrir og væntingarnar sem bundnar eru við samstarf ríkja og markmiðin sem rædd verða á ráðstefnunni. 

Væntingar eru um að með ráðstefnunni takist að endurreisa traust á sameiginlegar alþjóðlegar aðgerðir í loftslagsmálum. Ráðstefnan snýst ekki um samningaviðræður nema að litlu leyti heldur að byggja upp samstöðu og aukinn metnað, sem og trú á ferlið sem framundan er. Til þess þarf leiðtoga og framtíðarsýn sem geta verið jafnt fyrirtæki og fjárfestar eins og stjórnvöld ríkja.

Gefnir verða út viðtalsþættir fyrir og á meðan ráðstefnunni stendur og birtist sá fyrsti af þremur í dag. Hér ræðir Gunnar Dofri Ólafsson við Halldór Þorgeirsson formann Loftslagsráðs um COP26 ráðstefnuna, form hennar, væntingar til hennar og viðfangsefni. Þeir ræða hlutverk Parísarsamningsins, hvernig miðar í að ná markmiðum hans og um leiðina í átt að kolefnishlutleysi.

Hér er hægt að sjá eintaka hluta viðtalsins:

Vandinn og væntingarnar

Loftslagsbreytingar af mannavöldum eru ein stærsta alþjóðavá samtímans og tengist öðrum áskorunum sem mannkynið stendur frammi fyrir á margvíslegan hátt. Því er nauðsynlegt að viðbrögð við loftslagsbreytingum séu byggð á traustum grunni vísindalegrar þekkingar. IPCC skýrsla vinnuhóps 1 sem nýlega kom út, staðfestir grafalvarlegt ástand í loftslagsmálum. Í skýrslunni kemur fram að athafnir manna hafa ótvíræð áhrif. Verði ekki gripið til víðtæks og tafarlauss samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda mun að meðaltali hlýna meira en um 1,5°C og jafnvel 2,0°C á öldinni sem er yfir viðmiðum Parísarsamningsins. Draga þarf verulega úr losun til að ná viðmiðum samningsins.Umfang hlýnunar er í beinu hlutfalli við uppsafnaða losun CO2. Því þarf að stöðva losun CO2 svo hlýnun jarðar stöðvist, auk þess sem draga þarf úr losun annarra gróðurhúsalofttegunda. Ýmsar raskanir munu verða á veðurlagi samfara hlýnun vegna áframhaldandi losunar; ákefð í aftakaveðri eykst, hitabylgjur, ofsarigningar, þurrkar og aukin hætta á hörmungum vegna skógar- og gróðurelda. Ljóst er að árangur síðustu ára í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda er ekki sá sem vænst var og því þarf að auka metnaðinn. Komið er að skuldadögum varðandi skuldbindingar ríkja í loftslagsmálum, en það er bundið í Parísarsamningnum að á fimm ára fresti eiga ríki að senda inn nýtt landsframlag sem skal fela í sér metnaðarfyllra markmið en fyrra framlag.

Parísarsamningurin og skuldbindingar ríkja heims

Í kjölfar alvarlegrar stöðu í loftslagsmálum eins og henni er líst í IPCC skýrslunni, verða stjórnvöld og aðrir aðilar sem koma til Glasgow að vera staðráðnir í að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda á næsta áratug en skera þarf niður um helming fyrir árið 2030 og ná kolefnishlutleysi (net-zero) um miðja öld. Uppfært framlag ríkjanna sem standa að Parísarsamningnum ætti að vera komið inn fyrir eða í tengslum við COP26. Í greiningu World Resources Institute á landsframlagi 112 landa og Evrópusambandsins (júlí 2021) er niðurstaðan að sameiginlega munu löndin minnka losun um 12% frá 2010 til ársins 2030. En miðað við núverandi framlög (skuldbindingar) allra ríkja stefnir í aukningu á losun um 16% til ársins 2030. 

COP – Conference of the Parties

Fyrsta loftslagsráðstefna aðildarríkja að Rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál (UNFCCC) var haldin í Berlín árið 1995. Loftslagsráðstefnan í Glasgow er sú 26. í röðinni og er oftast nefnd COP26 en COP stendur fyrir Conference of the Parties. Gestgjafarnir í ár er Stóra Bretland með stuðningi Ítala sem áttu að halda ráðstefnuna í fyrra.

Lesa má ýmsar gagnlegar upplýsingar um ráðstefnuna og um áherslur á COP26 á vef Upplýsingaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna fyrir Vestur Evrópu og á ensku á opinberri vefsíðu ráðstefnunnar. Þá má fylgjast með beinum útsendingu af ýmsum viðburðum á opinberu streymi ráðstefnunnar og á  COP26 Backdoor