Vísindin tala sínu máli: IPCC gefur út matsskýrslur

„Loftslagsbreytingar eru að gerast og þær eru af mannavöldum. Verði ekki gripið til mikils samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda mun viðmiðum Parísarsamkomulagsins ekki verða náð. Stöðva þarf losun svo hlýnun jarðar stöðvist.“

Vísindin tala sínu máli. Þetta eru skilaboðin sem birtust í ágúst síðastliðnum í sjöttu skýrslu sérfræðinga IPCC (vinnuhópur I), Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar. Þetta var fyrsta skýrslan af þremur en von er á tveimur öðrum á næstu vikum og mánuðum og heildarmatsskýrslu síðar á árinu. Þessar skýrslur draga upp mynd af vísindalegri þekkingu á loftslagsbreytingum og veðurfari, þær fjalla um afleiðingar loftslagsbreytinga á umhverfi, samfélög og efnahag, auk þess að benda á möguleika til aðlögunar og fjalla líka um leiðir til að draga úr gróðurhúsalofttegundum og afleiðingum þeirra.

Viðtalsþáttur 1: Hvað er IPCC? Hvers vegna eru matsskýrslurnar svona mikilvægar?

Hlutverk IPCC

Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna (IPCC) var sett á laggirnar árið 1988 og eru flest ríki heims aðilar að nefndinni. IPCC hefur það hlutverk að yfirfara, meta og draga saman alla þá vísindalegu þekkingu sem til er um loftslagsbreytingar. Tilgangurinn er að upplýsa þá sem eru við stjórnvölinn hverju sinni með greinagóðum skýrslum sem taka saman þá þekkingu sem til er á hverjum tíma um eðli loftslagsbreytinga, orsakir og afleiðingar. Jafnframt metur nefndin framtíðaráhættu miðað við mismunandi sviðsmyndir og setur fram hugmyndir um mótvægisaðgerðir og aðlögun. 

Starf milliríkjanefndarinnar er þannig mikilvægur grunnur fyrir alþjóðlegar samningaviðræður um aðgerðir til að bregðast við þeirri sameiginlegu ógn sem ríki heims standa frammi fyrir vegna loftslagsbreytinga af mannavöldum. Skýrslur nefndarinnar veita mikilvæga leiðsögn fyrir stefnumörkun bæði á alþjóðavettvangi og á einstökum svæðum.

Nefndin stendur ekki fyrir eigin rannsóknum heldur er hlutverk hennar að safna saman, rýna og meta vísindalegar rannsóknir sem varða loftslagsbreytingar, bæði á sviði raun- og náttúruvísinda og félags- og hugvísinda.

Þrír vinnuhópar og skýrslur þeirra

Þrír vinnuhópar vinna þessar skýrslur. Sá fyrsti fjallar um vísindalega þekkingu á veðurfari og loftslagsbreytingum, hópur númer tvö leggur mat á áhrif loftslagsbreytinga á lífríki og samfélög og skoðar möguleika á aðlögun og sá þriðji beinir sjónum að aðgerðum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Auk þessara matsskýrslna gefur nefndin einnig út stöðuskýrslur um afmörkuð málefni.

Í ágúst 2021 skilaði vinnuhópur eitt afdráttarlaustri skýrslu sem sýndi með óyggjandi hætti að loftslagsbreytingar eru að gerast og þær eru af mannavöldum. Verði ekki gripið til samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda tafarlaust með víðtækum hætti muni það raska veðrakerfunum, það muni hlýna meira en viðmið Parísarsamningsins.

Vinnuhópur II (WGII) skilar skýrslu í lok febrúar 2022 en hópurinn fjallar um afleiðingar loftslagsbreytinga á umhverfi, samfélög og efnahag, auk möguleika á aðlögun. IPCC heldur blaðamannafund mánudaginn 28. febrúar kl. 11 að íslenskum tíma og kynnir efni skýrslunnar.

Vinnuhópur III (WGIII) skilar skýrslu í byrjun apríl en hópurinn fjallar um hvaða leiðir eru færar til að draga úr gróðurhúsaáhrifum og afleiðingum þeirra. IPCC áætlar að halda blaðamannafund mánudaginn 4. apríl til að segja frá niðurstöðum skýrslunnar. 

Í ágúst 2022 er svo von á heildarskýrslu, 6. matsskýrslu IPCC (Summary for Policy Makers), sem inniheldur allar niðurstöður þessara þriggja vinnuhópa (Final Government Distribution and Government review of SPM). 

IPCC og metnaðarhringur Parísarsamningsins

Matsskýrslur IPCC eru notaðar í hnattrænni úttekt sem gerð er undir Parísarsamningnum á fimm ára fresti.  Fyrsta hnattræna stöðumatinu (Global Stocktake eða GST) mun ljúka í lok 2023. Verið er að leggja mat á hvaða árangur hefur náðst.  Stöðumatið mun m.a. byggjast á 6. matsskýrslu IPCC. Í kjölfarið skulu aðildarríkin uppfæra landsframlög sín (næst árið 2025). Við uppfærsluna ber þeim að auka metnað og taka mið af hnattrænu úttektinni þannig að tryggt sé að markmið Parísarsamningsins náist. 

Veðurstofa Íslands fer með aðild Íslands að IPCC (focal point).