Samantekt um losun frá landi, rannsóknir og vöktun
Yfirlit
2
3

Í kjölfar Parísarsamningsins og innleiðingar á nýrri Evrópulöggjöf um losun gróðurhúsalofttegunda frá landi aukast kröfur um nákvæmni gagna og mælinga sem losunarbókhald byggist á. Tilgangur samantektar sem Loftslagsráð fékk VSÓ ráðgjöf til að vinna í samstarfi við ráðið er að varpa ljósi á það hvernig rannsóknir og vöktun á losun frá landi hérlendis mæta kröfum fyrir loftslagsbókhald í alþjóðasamningum á næsta áratug. Hér má hlaða samantektinni niður á pdf formi.

Tekin voru viðtöl við sérfræðinga í rannsóknum og stjórnsýslu um losun frá landi. Samhljómur var um að mikilvægt sé að auka rannsóknir og vöktun til að bæta þekkingu á raunverulegri losun frá landi og til að mæta kröfum alþjóðlegra samninga um skil á gögnum. Þekkingaruppbygging þarf að vera þríþætt; 

  • 1.  bæta þarf þekkingu á losunarstuðlum tiltekinna landgerða,
  • 2. vinna þarf betur gagnagrunna um skiptingu lands í landgerðarflokka,
  • 3. auka þarf skilning á hvernig losun frá landi breytist með tíma og eftir árferði.

Náttúruleg kerfi eru þess eðlis að alltaf verður óvissa í mati á losun en hægt er að fá góða mynd af losuninni með aukinni þekkingu. Sem dæmi þá er losun frá votlendi háð vatnsstöðu, hitastigi, gróðurþekju og fleiri þáttum sem breytast á milli ára.

Fyrirséðar eru töluverðar breytingar á losunarbókhaldi í tengslum við innleiðingu á nýju regluverki í kjölfar Parísarsamningsins og Evrópulöggjafar sem tengist samningnum. Krafan sem sett er fram er einföld; fyrst og fremst skal vera minnkuð losun og því næst aukin binding vegna aðgerða á nytjalandi svo sem skógræktar, landgræðslu, framræslu og endurheimt votlendis.

Breyting á bókhaldsreglum um losun verða á þann hátt að þær byggjast á heildstæðu mati á losun og bindingu tiltekinna landnotkunarflokka. Þetta mun hafa talsverð áhrif á losunarbókhald Íslands þar sem mun nákvæmari gögn verða notuð um losun hérlendis en áður hefur verið. Reikna má með að það taki nokkur ár að útbúa slík gögn. Að auki verður kortlagning landflokka endurskoðuð og færsla landsvæða á milli flokka getur haft áhrif á mat á heildarlosun frá landinu. 

Á næstu árum er fyrirhugað að vinna rannsóknir sem bæta þekkingu á losun frá landi og mæta auknum kröfum um nákvæmni gagna í losunarbókhaldi. Forgangsraða þarf rannsóknum og vöktun þannig að áhersla sé á flokka sem eru stórir í losunarbókhaldinu. Leggja þarf áherslu á að rannsaka landnotkunarflokka sem eru umfangsmiklir á Íslandi en skortir betri þekkingu á, einkum votlendi og graslendi. Mest liggur fyrir um kolefnisbúskap í landnotkunarflokknum skóglendi. Gera þarf rannsóknir kerfisbundið til að fá betri upplýsingar um losun frá mismunandi landgerðum allan ársins hring. Einnig þarf að vakta losun og breytingar á landi yfir lengri tíma til að skilja betur hvernig losun þróast yfir lengra tímabil og hvernig ytri aðstæður hafa áhrif á losunina. Æskilegt væri að gerð væru reiknilíkön sem nýta landupplýsingar, veðurgögn, gögn um eiginleika jarðvegs og aðrar breytur sem þarf til að meta losun. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur gefið út umbótaáætlun fyrir árin 2020 til 2023 þar sem fyrstu skrefin eru tekin. 

Sveigjanleikaákvæði í alþjóðasamningum leyfa að binding á landi sé nýtt á móti losun sem er á beinni ábyrgð Íslands (ESR – Effort Sharing Regulation). Lítið svigrúm er til að nýta slík ákvæði og hérlendis mun einungis lítið brot af því sem er bundið vegna skógræktar nýtast á móti annarri losun í losunarbókhaldinu vegna takmarkana sem settar eru í reglum Evrópusambandsins. Þar er áherslan á að minnka losun og þak er sett á hve mikið af bindingu á landi má nýta. Hafa þarf í huga að viðmið um kolefnishlutleysi verða væntanlega ekki með slíkar takmarkanir heldur verður horft á heildarmynd bindingar og losunar. Mikilvægt er þó að bókhaldsskyldur landsins gagnvart ESB og Loftslagssamningnum takmarki ekki upplýsingaöflun landsins um losun gróðurhúsalofttegunda. Áherslan þarf að vera þannig að því er forgangsraðað sem hefur mest áhrif. Tryggja þarf gagnsæi í losunarbókhaldi um notkun uppgjörsreglna og viðmiðunartímabila.  

Í viðtölum kom fram að þörf er á að skapa formlegan samstarfsvettvang stjórnvalda og vísindamanna. Hér er lagt til að settur verði á fót stýrihópur sem hefði viðtækt hlutverk til lengri tíma. Stýrihópurinn hefði yfirsýn yfir hvaða rannsókna er þörf til að uppfylla kröfur alþjóðasamninga og gæti stuðlað að samræmingu rannsókna til að mæta þeim kröfum. Stýrihópurinn leiðbeindi stjórnvöldum um túlkun á niðurstöðum rannsókna og gæfi faglegt álit á álitamálum varðandi bókhaldsuppgjör Íslands. Einnig gæti stýrihópurinn farið yfir tillögur úttektanefnda alþjóðasamninga. Stýrihópur gæti verið aðili sem kemur á framfæri upplýsingum um stöðu Íslands á þessu sviði. 

Mikilvægt er að huga að því fyrir hvern upplýsingarnar eru settar fram því eins og staðan er í dag er framsetning á losunartölum einkum miðuð við kröfur um losunarbókhald. Til að virkja almenning, landeigendur, sveitarstjórnir og atvinnulíf er þörf á aðgengilegu efni sem færir vísindin til fólks og tengir málaflokkinn við landgæði almennt, bætta nýtingu og jákvæða þætti sjálfbærrar landnýtingar. Aukin þekking mun skila sér í betri landgæðum almennt og auknum skilningi landsmanna á mikilvægi þess að nýta landið á skynsamlegan máta. Nú, þegar framundan er átak í endurheimt lands er mikilvægt að hafa heildarsýn á gæði lands, jarðvegs, gróðurs og losunar í þeim aðgerðum.