Loftslagsráð heimsins vinna saman
11. apríl, 2025

Loftslagsráðið í Íslandi er ekki eitt sinnar tegundar á heiminum. Fjölmörg önnur þjóðríki víða um veröld starfrækja einnig opinber loftslagsráð af sama toga. Markmið þeirra allra er að veita stjórnvöldum aðhald og ráðgjöf í loftslagsmálum, og gera stjórnvöldum betur kleift að taka ákvarðanir um aðgerðir í loftslagsmálum á grunni bestu upplýsinga og rannsókna.

Loftslagsráð frá ríflega tuttugu þjóðríkjum starfa saman í samtökum sem bera skammstöfunina ICCN, sem útleggst á ensku sem The International Climate Councils Network. Samtökin eru ekki gömul, en þau voru stofnuð árið 2021. Á þessum alþjóðlega vettvangi er leitast við að efla samstarf milli loftslagsráða og greiða fyrir því að ráðin geti deilt upplýsingum og veitt hvort öðru mikilvægan stuðning og ráðgjöf. Þannig eru þessi samtök ákaflega þýðingarmikil sem miðstöð og brunnur reynslu, þekkingar og ráðgjafar, sem loftslagsráð ólíkra landa geta leitað í.

Aðild loftslagsráða að ICCN er bundin því skilyrði að ráðin hafi einhvers konar opinbert og formlegt umboð stjórnvalda í hverju ríki, í lögum, regluverki, tilskipunum eða samningum, til þess að vera til ráðgjafar um stefnu í loftslagsmálum. Yfirleitt eru ráðin skipuð sjálfstæðum sérfræðingum innan fræðigreina sem tengjast á einhvern hátt loftslagsstefnu og aðgerðum. Í ráðunum sitja þó oft einnig hagaðilar, eins og fulltrúar atvinnulífs, viðskiptageirans og almannaheillasamtaka.

Ráðin eru mönnuð starfsfólki og starfsemi þeirra er yfirleitt fjármögnuð af opinberu fé, en starfsemin getur falist í greiningarvinnu, kynningarmálum, fræðslu og alls kyns stjórnsýslu. ICCN hefur lagt mikla áherslu á að styðja við starfsemi loftslagsráða í allri sinni breidd, en þó einkum þegar kemur að lykilhlutverki ráðanna, sem er að veita stjórnvöldum ráðgjöf varðandi stefnumörkun og aðgerðir í loftslagsmálum. Þá er bæði átt við aðgerðir til að draga úr útblæstri og einnig til að aðlaga samfélög að loftslagsbreytingum. Þá skiptir einnig máli að aðgerðir séu réttlátar.

Að bregðast við loftslagsbreytingum er flókið verkefni sem krefst mikillar samhæfingar og ekki síður sameiginlegs skilnings á eðli viðfangsefnisins, og hvað þarf að gera til að ná árangri. Þekkingin er til staðar á meðal þjóða heims og mikil reynsla við að rýna í göng og afla upplýsinga hefur einnig safnast upp. Loftslagsráð eru fyrst og fremst vettvangur þar sem þessi þekking er virkjuð og hún nýtt til þess að auka líkurnar á því að stjórnvöld á hverjum tíma taki ákvarðanir um aðgerðir í loftslagsmálum á grunni bestu mögulegrar vitneskju og vísinda. Það að loftslagsráðin kjósi að starfa saman innan ICCN dýpkar þessa þekkingu og eykur líkurnar á því að árangur náist.

Loftslagráðin starfa í þeirri fullvissu að vísindaleg þekking gegni lykilhlutverki í því að halda hlýnun andrúmsloftsins í skefjum og að halda henni innan markmiða Parísarsamkomulagsins. Þetta verkefni verður æ erfiðara, og loftslagsráð verða að sama skapi æ mikilvægari. ICCN hefur það á stefnuskrá sinni að reyna að fjölga loftslagsráðum í heiminum, því þau hafa þegar sannað sig sem lykilvettvangur vísindalegrar ráðgjafar og þekkingar, og munu gegna lykilhlutverki í þeim áskorunum sem eru framundan.

Ísland hefur sýnt gott fordæmi með því að setja á stofn og starfrækja loftslagsráð, og innan ICCN eiga Íslendingar meðal annars í gjöfulum samskiptum við loftslagsráð í Svíþjóð, Finnlandi, Danmörku, Hollandi, Bretlandi og Írlandi, svo nokkur ríki séu nefnd. Á heimasíðu sinni tiltekur ICCN sex ástæður fyrir því að fleiri þjóðir ættu að stofna loftslagsráð: 

    1. Ráðgjöf þeirra hjálpar stjórnvöldum að taka réttar ákvarðanir, til langs tíma, sem auka líkur á því að alþjóðlegar skuldbindingar ríkjanna og önnur landsmarkmið í loftslagsmálum náist.
    2. Það að ráðin séu formlegur hluti af stjórnkerfi loftslagsmála tryggir að þau hafi þýðingu og að það sé hægt að treysta þei
    3. Þekkingin sem er til staðar innan ráðanna eykur áreiðanleika þeirra, sem getur þjónað mikilvægum tilgangi þegar kemur að því að skapa víðtæka sátt um aðgerðir.
    4. Ráðin auka fyrirsjáanleika og tiltrú almennings og atvinnulífsins, því ráðin eru óháð stjórnmálaflokkum og þau eru ekki bundin kjörtímabili.
    5. Stofnun og tilurð loftslagsráða sendir þau skilaboð til annarra ríkja að loftslagsmál skuli tekin föstum tökum og getur stuðlað að því að aðrar þjóðir fylgi fordæminu.
    6. Rannsóknir hafa sýnt að áhrif loftslagsráða eru af hinu góða og auka líkur á því að árangur náist í loftslagsmálum.