Loftslagsmálin eru hópíþrótt og liðsandinn skiptir máli

Loftslagsfundur Festu og Reykjavíkurborgar

Í ár eru fimm ár liðin frá því að þjóðir heims undirrituðu Parísarsamninginn, sem og frá því að loftslagsyfirlýsing Festu og Reykjavíkurborgar var undirrituð í Höfða af rúmlega hundrað stjórnendum fyrirtækja og stofnana. Þessa var minnst á loftslagsfundi Festu og Reykjavíkurborgar sem haldinn var 27. nóvember. Á fundinum voru flutt fjöldi áhugaverðra erinda auk þess sem sérstök nýsköpunarviðurkenning var veitt í fyrsta sinn. Hana hlaut nýsköpunarfyrirtækið Carbfix sem hefur náð eftirtektarverðum árangri í þágu loftslagsmála.

Sjá nánari frásögn af fundinum á vefsíðu Festu

Lesa grein Tómasar N. Möller formanns Festu um fundinn sem birt var í Viðskiptablaðinu.

Horfa á streymi frá fundinum.

Loftslagsmálin eru hópíþrótt og liðsandinn skiptir máli

Halldór Þorgeirsson formaður Loftslagsráðs flutti erindi á fundinum með þessari yfirskrift sem lýsir því að allir þurfa að leggjast á eitt til að auka slagkraft og árangur. Hann dró fram þrjú lykil atriði sem hann telur fela í sér lausn loftslagsvandans, þ.e. ábyrgð, samtal og sókn. 

„Mikil þróun hefur átt sér stað á þessum fimm árum. Þar stendur upp úr í mínum huga að við skiljum nú betur umfang og eðli verkefnisins. Loftslagssamningar á borð við Kýótó bókunina höfðu fram að þessu náð yfir stutt tímabil og snertu takmarkaðan hluta jarðarbúa.  

Nú er hugsað fram á miðja öldina og um mannkynið allt. Það náðist sátt um hnattræna nauðsyn. Það væri nauðsynlegt að halda röskun á veðurfari jarðarinnar innan hættumarka. Þau hættumörk voru sett við hlýnun um 1,5°C frá upphafi iðnbyltingar. Við stefnum á 3°C að óbreyttu. 

Til að svo megi verða þarf að ná aftur hnattrænu jafnvægi á kolefnisbúskap jarðarinnar þannig hnattræn heildarlosun verði ekki meira en bindingin á sama tíma. Þessu jafnvægi þarf að ná um miðja öldina sem kallar á að heimslosunin minnki um helming fyrir 2030.

Kolefnishlutleysi var þá nýlunda utan vísindasamfélagsins en hefur síðan haft mikil áhrif á nálgun þjóða, borga og fyrirtækja á viðfangsefnið. Nú er hafið kapphlaup að slíku jafnvægi. 

Á ensku er talað um „net-zero“ og er kapphlaupið þá „race to zero“. Myndað hefur verið bandalag samtaka atvinnulífs og annarra um að eins mörg fyrirtæki og mögulegt er setji sér markmið um kolefnishlutleysi fyrir Glasgow og vona ég að íslensk fyrirtæki láti ekki sitt eftir liggja. 

Margar greiningar liggja nú fyrir um hvernig ná má kolefnishlutleysi. Niðurstaðan er alltaf sú sama. Þetta er gerlegt og kostnaðarhagkvæmt en ekki má mikið út af bera því þetta er kapphlaup við tímann. 

Hagkvæmustu leiðirnar eru jafnframt tímafrekar þannig að hik leiðir til aukins kostnaðar þegar upp er staðið. 

Við þurfum líka að horfast í augu við þann veruleika að hér er uppsöfnunarvandi á ferðinni. Sá árangur sem ekki tekst að ná á tilteknu ári bætist við verkefni næsta ára líkt og vangoldnar afborgun af láni bætist við höfuðstólinn. 

Við þurfum að vinna okkur til baka frá lokamarkmiðinu um kolefnishlutleysi 2040 þegar markmið fyrir 2030 eru sett.  

Viðbrögð fyrirtækja og fjárfesta hafa einnig verið í örri þróun á þeim fimm árum sem liðin eru frá Höfðayfirlýsingunni. Festa hefur leitast við að tengja íslenskt atvinnulíf við stefnur og strauma svo íslensk fyrirtæki dragist ekki aftur úr. 

Það er oft sagt að loftslagsmálin séu stærsta viðfangsefni samtímans. Hvernig tökumst við á við viðfangsefni að slíkri stærðargráðu?

Okkur er eðlislægt að taka stór verkefni og brjóta þau niður í viðráðanleg bita. Við þurfum að sjálfsögðu að gera það í þessu tilfelli en megum ekki missa sjónar af samhengi hlutanna og stóru myndinni. Við erum í djúpstæðum kerfisumskiptum sem er í eðli sínu sköpunarferli. Við erum að skapa eftirsóknarverða framtíð. 

Kolefni er í raun verðmæti í hagkerfinu og við þurfum að snúa dæminu við og leitast við að hámarka verðmætasköpun og lífsgæði fyrir hvert tonn af gróðurhúsalofttegundum sem fara út í andrúmsloftið. Tonn losað sem ekki skapar verðmæti er sóun á sameiginlegum verðmætum. 

Sambærileg hugarfarsbreyting hefur átt sér stað í umgengni okkar um auðlindir sjávar. Eftir að við meðtókum þá staðreynd að fiskurinn í sjónum væri takmörkuð auðlind beindist athyglin að því að hámarka verðmætasköpun á hverja aflaeiningu. 

Í mínum huga eru þrír lyklar að lausn loftslagsvandans sem beita þarf samtímis þ.e. ábyrgð, samtal og sókn. 

Ábyrgð tekur sér margar myndir

Í grunninn snýst ábyrgð um að horfast í augu við staðreyndir og áhrif gerða okkar á aðra. Samfélag þjóðanna sýndi ábyrgð í París, leiðarljós Festu er samfélagsábyrgð og öll leitumst við að vera ábyrgir neytendur. 

Ábyrgð birtist einnig í opinberri birtingu upplýsinga t.d. um kolefnisspor vöru og þjónustu. Kolefnismælir Festu gerir fyrirtækjum og stofnunum kleift að reikna kolefnisspor sitt og gera slíkar upplýsingar opinberar.  

Loftslagsráð ályktaði nýverið um ábyrgð í kolefnisjöfnun. Fyrsta skrefið er að meta kolefnisspor þeirrar starfsemi sem til stendur að kolefnisjafna með viðurkenndum aðferðum. Ekki er réttlætanlegt að takmarka ábyrgðina við kolefnisspor vegna beinnar losun frá viðkomandi starfsemi. Leggja þarf mat á hlutdeild í kolefnisspori annarra þátta virðiskeðjunnar. Annað skrefið er síðan að lágmarka kolefnissporið eins mikið og mögulegt er. Kolefnisjöfnun á fullan rétt á sér sem þriðja skrefið til að jafna út losun sem eftir stendur. Viðskipti með kolefniseiningar hér á landi þurfa að standist fjölþjóðlegar kröfur um gæði eininga, gagnsæi og rekjanleika.

Að mati Loftslagsráðs skortir mjög á að alþjóðlega viðurkenndri aðferðafræði sé beitt við mælingar og útgáfu kolefniseininga hér á landi. Það skortir einnig miðlæga skráningu á útgáfu kolefniseininga, viðskiptum með slíkar einingar og afskráningu þeirra þegar þær eru nýttar til kolefnisjöfnunar.  Ráðið telur að móta þurfi viðmið um ábyrgar yfirlýsingar á samkeppnismarkaði og frá fyrirtækjum um að vara eða þjónusta hafi verið kolefnisjöfnuð. Slík viðmið þurfa að ná bæði til upplýsinga um kolefnisspor sem jafna skal og til eiginleika þeirra kolefniseininga sem nýta má til jöfnunar.  

Samkeppnisyfirvöld þurfa að hafa eftirlit með yfirlýsingum um kolefnisjöfnun vöru og þjónustu og tryggja að slíkar yfirlýsingar standist samkeppnislöggjöf og önnur viðmið um eðlilega viðskiptahætti. Það er ekki leyfilegt að nota efsta stig lýsingarorða í auglýsingum en engar reglur gilda um fullyrðingar um kolefnisjöfnun. 

Önnur mikilvæg myndbirting ábyrgðar eru ábyrgar fjárfestingar. Á því sviði hefur mjög margt gerst á síðustu árum. Þessi mikilvæga hlið verður í forgrunni hjá bresku formennsku COP 26 eftir að Mark Carney fyrrverandi seðlabankastjóri var fenginn til liðs við formennskuna. Hann er mikill leiðtogi á þessu sviði. 

Annar lykillinn er samtal

Parísarþingið og aðdragandi þess var í raun markvisst hnattrænt samtal. Sú hnattræna sátt sem náðist hefði ekki orðið að veruleika ef fulltrúa ríkja hefðu einir komið að verki. Þarna voru sjónarmið vísinda, trúar, fjárfesta, atvinnulífs, sveitarfélaga og almannasamtaka hluti af myndinni. 

Með samtali leiðum við úr læðingi samtakamátt og skapandi öfl. Með samtali getum við einnig tekist saman á við eðlilegan ótta við breytingar og stuðlað að réttlæti og sanngirni í því hvernig við hröðum óumflýjanlegum umskiptum.

Spurningin sem stjórnvöld og íslenskt samfélagið stendur frammi fyrir er ekki hvort kolefnishlutlaust Ísland sé möguleiki, heldur hvers konar kolefnishlutlaust Ísland fellur best að framtíðarsýn þjóðarinnar. Margar leiðir eru færar að þessu marki. Leiðin sem farin verður mun ráða úrslitum um lífsgæði og hagsæld þeirra sem landið munu byggja. 

Nú vinna stjórnvöld að því að útfæra í megindráttum framtíðarsýn um kolefnishlutlaust Ísland. Hana þarf að kynna ásamt þróunaráætlun um hvernig hún getur orðið að veruleika á vettvangi Parísarsamningsins á næsta ári fyrir loftslagsþingið COP 26 sem haldið verður í Glasgow eftir 12 mánuði.

Þriðji lykillinn er sókn

Kapphlaupið um samkeppnishæfni í kolefnishlutlausu hagkerfi framtíðarinnar er hafið enda er það eina hagkerfið sem verður í boði. Við náðum miklu forskoti á aðrar þjóðir hvað þetta varðar með því að virkja endurnýjanlegar orkulindir og skipta út jarðefnaeldsneyti sem notað var til raforkuframleiðslu og húsahitunar. Við erum hins vegar enn mjög háð innfluttu jarðefnaeldsneyti. Sú uppsveifla í ferðaþjónustu sem átti sér stað var þess eðlis að kolefnispor hvers ferðamanns meðan hann dvaldi við var mjög hátt jafnvel þó að flugið sé ekki tekið með.

Það verður mikið átak að endurreisa ferðaþjónustu í heiminum þegar heimsfaraldrinum léttir. Þar gefst okkur tækifæri til að bjóða upp á upplifun af framtíðinni ef við þorum og sjáum framtíðina fyrir okkur. Bílaleigum er ekkert lengur að vanbúnaði að bjóða ferðamönnum upp á hreinorkubíla. Sú jákvæða þróun að hreinorkubílar eru nú í meirihluta nýskráðra bíla byggist meðal annars á því að bílaleigur eru ekki í bílakaupum.

Loftslagsráð sendi í vor frá sér álit um stjórnsýslu loftslagsmála sem byggðist á greiningarvinnu Capacent. Kjarninn í þeim tillögum var að viðfangsefnið hafi verið skilgreint of þröngt og um of bundið við umhverfisþáttinn. Loftslagsráð kallar á víðtækari samvinnu og ljósari verka- og ábyrgðarskiptingu þ.m.t. innan ríkisstjórnar. Ég fagna því að ríkisstjórnin hefur þegar brugðist við þessum tillögum. Undirbúa þarf Ísland undir þátttöku í kolefnishlutlausu hagkerfi framtíðarinnar með því að samþætta viðbrögð við loftslagsvá við önnur mikilvæg úrlausnarmál á borð við ógnir við lýðheilsu, nýsköpun og orku- og fæðuöryggi. 

Kæru vinir. Sú heimskreppa sem nú ríður yfir hefur gjörbreytt hlutum sem við tókum sem óbreytanlegum. Hún dregur vonandi úr hroka okkar og eykur auðmýkt og móttækileika fyrir þeim lausnum sem lengi hafa legið fyrir. Með samþættingu ábyrgðar, samtals og sóknar þurfum við að láta verkin tala og taka ákvarðanir sem búa í haginn fyrir komandi kynslóðir í stað þess að veðsetja framtíð þeirra.“