Líffræðileg fjölbreytni og loftslagsmál – hver eru tengslin?

Reglulega eru haldnar tvær ákaflega mikilvægar ráðstefnur í umhverfismálum á vegum Sameinuðu þjóðanna sem báðar bera nafnið COP og eru númeraðar. Þannig fór fram á síðasta ári annars vegar ráðstefnan COP27 í Sharm el-Sheikh í Egyptalandi og hins vegar COP15 í Montreal í Kanada.

Þetta gæti skapað rugling. Ráðstefnurnar fjalla um tvö aðskilin málefni. Önnur COP ráðstefnan, þessi með hærra númerið, lýtur að loftslagsmálum. Þar hittast þær þjóðir sem eigi aðild að loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna. Hin lýtur að samningi Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni. COP stendur, eins og kunnugt er, fyrir „conference of parties“ eða ráðstefna aðildarþjóða.

En nú má spyrja: Eiga þessi tvö viðfangsefni eitthvað sameiginlegt? Hvað á vernd líffræðilegrar fjölbreytni sameiginlegt með því að sporna við hlýnun andrúmsloftsins? Tengjast þessar áskoranir og þá hvernig?

Ráðstefnurnar tvær

Loftslagsráðstefnuna þarf vart að kynna. Hún vekur sívaxandi athygli á ári hverju og Loftslagsráð sendi frá sér ýtarlegt stöðumat eftir nýjustu ráðstefnuna undir lok síðasta árs. Þó svo mörgum kunni að finnast að lítið þokist, þá eru þessar ráðstefnur engu að síður gríðarlega mikilvægur vettvangur í loftslagsmálum. Stundum eru þar stór skref stigin, eins og á COP21 í París árið 2015.

Á COP15 í Montreal í desember náðist tímamótasamkomulag á elleftu stundu hvað varðar líffræðilega fjölbreytni, vernd og endurreisn vistkerfa. Þátttökuþjóðirnar 188 talsins sammæltust um, eftir langar samningaviðræður, að setja sér það markmið að 30% af plánetunni verði vernduð fyrir 2030 ásamt því að 30% af vistkerfum sem eiga undir högg að sækja verði endurheimt.

Mikið er í húfi. Eyðing lífríkis sem á sér stað í samtímanum af manna völdum er sú yfirgripsmesta síðan risaeðlurnar dóu út.  Talið er að ein milljón dýra- og plöntutegunda sé í útrýmingarhættu.

Vísindamenn hittast

En hver eru tengslin? Í miðjum heimsfaraldri, í júní 2021, hittust 50 vísindamenn, í fararbroddi á heimsvísu, á nokkurra daga netvinnufundi. Þar leiddu saman hesta sína í fyrsta skipti á skipulögðum viðburði, séfræðingar frá milliríkjastofnun Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni (IPBES) annars vegar, og sérfræðingar frá milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál (IPCC) hins vegar.

Fram að þessum fundi var almennt litið svo á að þessi tvö viðfangsefni væru aðskilin og lítil þörf væri á samtali milli sérfræðinga þessara tveggja stofnana. Vinnufundurinn leiddi annað í ljós.

Á vinnufundinum var skerpt á þeirri staðreynd að loftslag og lífríki eru nátengd, og áhrifin ganga í báðir áttir. Loftslagsbreytingar og hnignun vistkerfa á heimsvísu eru meginorsakir þess að líffræðileg fjölbreytni er að minnka. Á móti kemur að tap á líffræðilegri fjölbreytni, hnignun vistkerfa í hafi og á landi og kolefnistap vegna gróður- og jarðvegseyðingar, dregur stórlega úr getu náttúrunnar til að koma kolefnishringrás jarðar í betra jafnvægi en nú er, og mæta veðuröfgum. Viðfangsefnin eru því nátengd. Heil, fjölbreytt og virk vistkerfi auka seiglu náttúrunnar. Minni fjölbreytni dregur úr henni.

Sérfræðingarnar sammæltust um nokkrar lykiláherslur og aðgerðir. Þar er fyrst á blaði sameiginleg áhersla á að vernda og, eftir atvikum, endurheimta fjölbreytt vistkerfi jarðar, eins og til dæmis náttúruskóga, votlendi og fenjasvæði. Slík svæði binda og geyma kolefni úr andrúmslofti og eru skýrt dæmi um hvernig aukin líffræðileg fjölbreytni vinnur með markmiðum í loftslagsmálum.

Ísland gott dæmi

Loftslagsráð fylgdist náið með framvindu mála á COP15 í Montreal. Á fundi Loftslagsráðs þann 8.desember var líffræðileg fjölbreytni og þýðing hennar fyrir loftslagsmál sérstaklega tekin fyrir og á næsta fundi þar á eftir, þann 12.janúar, var áfram rætt um líffræðilega fjölbreytni. Komu þá á fund ráðsins nokkrir aðilar úr sendinefnd Íslands sem tók þátt í COP15 og kynntu niðurstöður þingsins. 

Ísland er gott dæmi um það hvernig markmið í loftslagsmálum eru jafnframt markmið um vernd og endurheimt lífríkis. Þar má nefna að eitt mikilvægasta markmið Íslands í loftslagsmálum, og hluti af aðgerðaráætlun stjórnvalda, er að endurheimta röskuð vistkerfi, einkum náttúruskóga og votlendi. Eyðing birkiskóga og votlendis á Íslandi hefur aukið magn gróðurhúsalofttegunda í andrúmslofti. Endurheimt þessara vistkerfa er því ekki bara markmið um að endurheimta líffræðilega fjölbreytni, heldur líka skýrt loftslagsmarkmið.

Stefna stjórnvalda í landgræðslu og skógrækt til 2031, sem gefin hefur verið út undir heitinu Land og líf — ásamt tilheyrandi aðgerðaráætlun — er því ekki einungis stefna um eflingu líffræðilegrar fjölbreytni, sjálfbæra landnýtingu og áframhaldandi uppbyggingu skógræktar. Hún er líka loftlagsstefna. Fátt hefur jafn jákvæð áhrif á kolefnisbókhald Íslendinga en endurheimt náttúruskóga og votlendis, auk sjálfbærrar landnýtingar og aukinnar skógræktar.

Eins og dæmi Íslands sýnir glöggt, þá er líffræðileg fjölbreytni loftslagsmál. Og öfugt.