Dagana 9.-19. nóvember verður fyrirlestrarröðin Race-to-Zero, eða kapphlaup í átt að kolefnishlutleysi, haldin fyrir tilstilli UNFCCC. Fjallað verður um hvernig er hægt að virkja fyrirtæki, borgir, fjárfesta, einstök svæði og fleiri aðila til að setja sér metnaðarfull markmið í loftslagsmálum. 

Í fyrirlestraröðinni koma saman fjölmargir lykilaðilar í loftslagsmálum sem munu kortleggja hvernig hægt sé að hraða því ferli að ná kolefnishlutleysi í mismunandi geirum samfélagsins. Þemun sem tekin verða fyrir eru t.d. loftslagsmál og heilsa, iðnaður, samgöngur, hafið, náttúran, orka og fjármál.  

Fyrirlestrarnir verða í streymi á netinu. Þeir sem hafa áhuga á að fylgjast með geta skoðað dagskrá og skráð sig til leiks á vefsíðu fyrirlestrarraðarinnar

Herferðin – Viltu vera með?

Race-To-Zero herferðinni, sem fyrirlestraröðin er hluti af, er ætlað að auka loftslagsmetnað fyrirtækja, borga, fjárfesta, svæða og annarra aðila með því að hvetja sem flesta gerendur í hagkerfinu til að skuldbinda sig til að ná fram kolefnishlutleysi a.m.k. fyrir 2050. Nú þegar eru 1101 fyrirtæki, 452 borgir, 45 fjárfestar, 22 svæði og 549 háskólar hluti af herferðinni. Hér er því á ferðinni öflug hreyfing sem gæti verið áhugavert fyrir þá íslensku aðila, sem vilja vera í leiðandi í að leita lausna við loftslagavandanum og setja sér metnaðarfull markmið, að tengjast. 

Hér er hægt að lesa um lágmarksskilyrði til þátttöku  í herferðinni. Á vefsíðu verkefnisins  er líka hægt að afla sér frekari upplýsinga um herferðina og hvernig er hægt að sækja um þátttöku.  

Tengslin við Parísarsamninginn

Í ár eru fimm ár frá því að aðildarríki Rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar skrifuðu undir Parísarsamninginn. Fyrirlestrarröðin í nóvember er undanfari samræðna um loftslagsmál  sem fara fram rafrænt undir merkjum Rammasamningsins 23. nóvember til 4. desember næstkomandi. Vegna COVID-19 var 26. fundi aðildarríkjanna, sem fara átti fram í Glasgow, frestað til ársins 2021. Samræðunum er því ætlað að skapa vettvang fyrir aðildarríkin og aðra hagaðila, til að ræða loftslagsmálin, deila árangri og skiptast á skoðunum um leiðina fram á við.